Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2017 eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshall-húsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta. Íslands voru afhent í fjórða sinn, við hátíðlega athöfn í IÐNÓ 9. nóvember. Marshall-húsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. 

Umsögn dómnefndar:

„Verkið kristallar vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir hafa þróað verkefnið frá hugmyndavinnu til útfærslu og leitt saman breiðan hóp aðila til að skapa heilsteypt verk. 

Í verkinu er vel unnið með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Marshall húsið er gott  dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Einnig voru veitt verðlaun fyrir Bestu fjárfestinguna í hönnun. Í ár var það Bláa lónið sem hlaut verðlaun sem Besta fjárfestingin. Viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Viðurkenningin er nú veitt í þriðja sinn og er óhætt að fullyrða að vinningshafinn í ár hefur frá upphafi leitað samstarfs við hönnuði á öllum sviðum uppbyggingar. 

Umsögn dómnefndar:

„Hönnun er órjúfanlegur hluti af heildarmynd fyrirtækisins sem vinnur náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa Lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig.“

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar.

Við óskum handhöfum Hönnunarverðlauna Íslands innilega til hamingu með verðlaunin!

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Íslandsstofu, Landsvirkjun, Listaháskóla Íslands og Samtök Iðnaðarins.