Úr HÖRPU–ÆFINTÝRUM

HARPA – STÖÐUTAKA Í DES 2010

 Allt frá ársbyrjun 2008 var ljóst að Portus ehf var févana fyrirtæki á þrotaleið.  ÍAV var líka í baslinu. Þá átti Landsbankinn sjálfur að vera kominn í þrotameðferð skv. nýlegu norsku rannsóknarmati. Óreiðuframkvæmdin við Hörpusmíði lafði á lyginni allt til ársloka 2008, endurhófst í mars 2009 í sama farvegi að fenginni ábyrgðartöku stjórnvalda. (1******)-verktaki Hörpu, ÍAV var þrotalýstur ári síðar. Opinber tilsjónaraðili með Hörpusmíði frá upphafi gerðist samvirkur samstarfsaðili eigenda og verktaka frá sama tíma. Sömu aðilar stýra ennþá framvindunni nú, árið 2110 .

Enn stendur Harpa ófokheld og mun það ástand vara til haustsins 2011. Reyna á að vígja ráðstefnusal  í húsinu í maí 2011, eftir 90 virka vinnudaga,  en húsið átti áður að standa fullgert í nóvember 2009. Enginn þorir nú að spá um hvenær húsið telst fullgert. Útlagður kostnaður tengdur Hörpusmíði er nú metinn að verði 20 milljarðar umfram umsamið áætlað smíðaverð ÍAV 2006/ 2007, var þá 12.5ma. Ekki finnast dæmi um fermetraverð (yfir 1m.kr/fm) sem kemst í  hálfkvisti við fm. verð Hörpu, hérlendis.

 Enginn hefur þorað að meta til fjár allt Austurhafnarumstangið, hversu nálægt 40 milljörðum það mun kosta, ef allt er meðreiknað, t.d. óbeint framlag Faxaflóahafna og borgar, lóðaframlag, niðurrif  húsa , frágangsmálefni, bílahús Hörpu, stjórnunarkostnaður  o.fl. ofl.

Stórskaði varð vegna þess að skipulega var leynt rugli, breitt yfir Hörpuóreiðuna, þegar tilefni var til endurskipulagningar. Afdankaðar viðskiptahugmyndir og gölluð húshönnun miðað við ný rekstrarplön áttu auðvitað að leiða til umbyltingar á húsasmíðinni. Tilefnið gafst í ársbyrjun 2008 og enn frekar við heljarhrunið 2008. Endurkipulagning átti að vera forsenda opinberrar yfirtöku í febrúar 2009, en svo fór ekki.  Þá var fjármálahliðin falin í svartaskógi, þar sem hún er ennþá.

Mjög mörgum var ljóst í hvert óefni Hörpusmíð stefndi frá haustdögum 2007, ársbyrjun 2008.  Formlega var Hörpu þá enn ætlað að verða einkaeign Portus en byggð fyrir almannaskuldbindingar ríkis og borgar.  Einkaeignarformið gerði öll afskipti ókleif, gagnrýni eða kröfur um upplýsingar. Harpa var þá dulið einkamál.

   Við heljarhrunið 2008 áttu allar þessar forsendur að breytast. Eftir það varð ljóst að Harpa gat ekki orðið þjóðargjöf til Portus, því þeir voru gjaldþrota skaðvaldar lýstir. Þá varð og ljóst að allar fyrri rekstarforsendur reyndust vera út í hött, nýjar notkunarhugmyndir ættu að breyta m.a. innri umgjörðinni. Ráðrúm gafst til að endurmeta t.d. ofurdýra, 4 mill-jarða, ytri glergjörð Hörpu, sem þá var á hönnunarstigi ennþá. Ofurstærð hússins sker í augu.

Örvæntingarstarf er nú unnið við ímyndarbreytingu á ráðstefnuhúsinu Hörpu, sem hannað var í þágu nú gjaldþrota bólu, hugsað til arðbærra útleiguviðskipta, með ráðstefnu-hald að viðmiði.  Auðvitað verður aðalvanköntum hússins nú ekki breytt, en reyna á að að-laga það að m.a. fjölþættum tónlistarþörfum (!)

1800 sæta stórsalur hússins hefur 300 sæti að baki sviðs (!) sem gerir allt umhverfið bjánalegt. Spurn er hvort glæsiveitingastaðir og koníakstofur í hrönnum eiga erindi í húsið og viðskiptafundaherbergin öll. Stórir aukasalir hússins hafa birst sem hrákahönnun að svo komnu, eigi þeir að nýtast til menningar.

Opinber tilsjónaraðili með Hörpusmíði frá upphafi gerðist samvirkur samstarfsaðili eigenda og verktaka frá sama tíma. Þótt árekstur sé nú augljós milli Hörpuveruleika og notkunarhugmynda um húsið, er varla við arkitekta Hörpu að sakast. Formúla þeirra var sköpuð af bólu í upphafi. Formúlan stendur óbreytt í desember 2010 !

Eina, takmarkaða músíkhlutverk ráðstefnuhússins Hörpu var að Sinfó átti þar að fá stöðu leigjanda í ráðstefnusal, sem átti  því að gera hæfan til spilunar á sifnfónískri tónlist. Til þessa var hugsað, en alls ekki  til fjölþættrar tónlistarmenningar. Nú er hugað að rokktónlist, óperustarfi, loftfimleikum, söngleikjum, ballett, jólasöng og ýmsu, sem réttlætt getur húsamíði Hörpu.  Harpa er að mörgu leyti sérstaklega óhæft hús til slíkra nota vegna hönnunarágalla, en mun þó vonandi reynast einhverjum hey í harðindum.

Þótt rækilega sé spunnið um Hörpu, með ærnum aukatilkostnaði, mun húsið einkum birtast Íslendingum og erlendum gestum þeirra sem kjánalegt, ofurdýrt skrauthýsi, minnisvarði um misheppnað bólurugl og fjárglæfratíma.

Í minnum verður haft að stórglæsileg fjölþátta tónlistahöll hefði nú löngu átt að vera fullgerð, sem kostað hefði þriðjung af Hörpuverði. Í minni verður haft óráðsæðið sem Hörpuupphafi  olli – og óráðsæði þeirra, sem áfram héldu rugli, þótt öll færi hefðu gefist  til leiðréttingar á ógæfuferli, 2007/ 2008/ 2009.  Bóluruglið tengt upphafi Hörpusmíða er alkunna. Nú er líka ljóst að enginn leiðréttingarhvöt  er finnanleg hjá íslenskum stjórnvöldum í því tilviki, frekar en í mörgum öðrum .

Úr  útreiknings – og dagbókum arkitekts 19/12/10

c/o Örnólfur Hall                             

PS: Veit nokkur hver fer nú með óháð kostnaðareftirlit fyrir skattgreiðendur (horft er til nú-og framtíðar næstu 35-40 ára (ríkisábyrgðin á rekstrinum)). Hver eða hverjir bera pólítíska ábyrgð á Hörpu? (!)

 Annað: 

PS: Ný frétt – 12/1/11 í RÚV : 170  ÍAV starfsmenn tapa starfinu í maíbyrjun, líklega hluti af þeim lofaða “800 manna vinnuflokki”, sem átti að smíða Hörpu. 

NB: HÖRPU- blekkingarnar  um mikla atvinnuköpun:

Samtals koma um 1200 manns að smíði Hörpu, 800 erlendis: Austurríkismenn, Svíar, Danir, Frakkar (smíða stólana í Hörpu en Íslendingar smíðuðu stólana í Hofi) og Bandaríkjamenn en engir Íslendingar starfa að þessu erlendis. Nú eru hér 150 Kínverjar og  aðeins um 200-250 Íslendingar (með sumarfólki í ágúst 2010).— Loforð Katrínar J. ráðherra + Hönnu Birnu K. borgarstjóra (600 störf 2009) + Péturs J. E. Portus/Ago (800 störf 2010) um störf til að slá á atvinnuleysið voru blekkingar.

PS: Ekki mátti skopast að Hörpu í áramótaskaupi RÚV – minnir á ríkisfjölmiðil í Asíu.

6 Responses to Úr HÖRPU–ÆFINTÝRUM
 1. Hilmar Þór
  janúar 15, 2011 | 12:56

  Þetta er mikil yfirferð hjá Örnólfi og fróðleg. Ekki efast ég um að þarna er rétt með farið hvað varðar þessa sögu sem ekki sér fyrir endan á.

  Af því að þessi umræða er hér á heimasíðu AÍ þá langar mig til þess að tengja þetta atvinnumálum arkitekta og geng ég þá út frá því að hér sé um að ræða framkvæmd uppá 30 milljarða plús eins og fram kemur hjá Örnólfi.

  Þessir rúmu 30 milljarðar er fjárhæð sem nemur um 10 húsum á borð við menningarhúsið Hof á Akureyri. Eða, ef ég reikna rétt, um 50 hjúkrunarheimilum á borð við það sem nú á að byggja á Eskifirði og mikið hefur verið í umræðunni. Þetta er risaframkvæmd sem þarna er á ferðinni sem fær míkróskoipiska umfjöllun ef tillit er tekið til umfangsins.

  Annað viðmið er Kárahnjúkavirkjun sem átti að kosta um 200 milljarða króna og skapa tekjur með sölu á orku auk og afleiddra starfa við álbræðslu og víðar. Það stefnir í að Harpa kosti 1/6 af Kárahnjúkavirkjun. Ekki veit ég hverjar tekjurnar verða af Hörpu framkvæmdinni en einhver afleidd störf mun hún skapa.

  Þetta er flókin bygging sem að líkindum kallar á ráðgjafaþjónustu sem er sennilaga upp á um 15% af byggingarkostnaði eða sem nemur milli 4,5 og 5 milljörðum króna í hönnunarkostnað þar sem um helmingur fellur í hlut arkitekta eða um 2,5 milljarður. 2.5 milljarðar króna er það sem kostar að hafa rúmlega 30 arkitekta í vinnu í fjögur til fimm ár í útseldu án vsk. Þetta er svo stór upphæð að ég trúi henni varla og bið lesendur að reikna þetta út hver fyrir sig.

  Það breytir engu hvar eða af hverjum þessi vinna er unnin en þetta er sú vinna sem inna þarf af hendi vegna verksins gróft áætlað.

  Ég veit ekki hvort einhverjir íslenskir arkitektar eru að vinna að þessu verki. Vonandi sem flestir. Getur einhver svarað því?. Spyr sá sem ekki veit.

  Mér er kunnugt um að umtalsverður hluti verkfræðivinnu er unnin af íslenskum aðilum en ég veit ekki til þess að eitt strik hafi verið slegið af íslenskum arkitektum.

  Þetta var í upphafi einkaframkvæmd og allar upplýsingar um kostnað og annað trúnaðarmál, en er það ekki lengur. Nú er þetta opinber framkvæmd. Fróðlegt væri að fá uppgefnar einhverjar sundurliðaðar tölur um hina ýmsu verkþætti eins og t.a.m. þóknun til hönnuða og hverjir hafi veitt henni viðtöku.

  Um leið og ég lýsi óánægju minni með afar slakri þáttöku arkitekta í almennri umræðu um skipulags og byggingamál hér á landi vil ég þakka Örnólfi Hall fyrir hanns þátt í henni.

  Hilmar Þór Björnsson

 2. Örnólfur Hall
  janúar 15, 2011 | 20:12

  Ég vil þakka Hilmari Þór fyrir hans íhugulu umfjöllun og orð hans í minn garð. Ég á eftir að íhuga vel það sem hann segir en þegar hann nefnir atvinnu arkitekta í þessu sambandi þá kom mér í hug frétt í Mbl. eftir ÁIJ 16/2/10 en þar segir Sigurður R. Ragnarsson framkvæmdastjóri Austurhafnar á vegum ÍAV. – NB: Austurhöfn er andlit ríkis og borgar.- SRR segir : „Hér á landi skapar þessi framkvæmd vinnu í smiðjum og arkitektastofum, hjá verkkaupum, eftirlitsaðilum, birgjum og fleiri. Síðan leitum við fanga víða um heim, auk Kínverjanna get ég negnt Austurríkismenn, Svía, Dani og Bandaríkja-menn sem koma að ýmsum verkþáttum. Þetta er verkefni af þeirri stærðargráðu að það krefst alþjóðlegrar þekkingar og aðfanga“ Það gleymdist að nefna Frakka.- Svo mörg voru þau orð. Við fyrirspurn hjá AÍ o.fl. kom í ljós að það voru engar íslenskar arkitektastofur í FLEIRTÖLU. Nefnd var ein með örfáum arkitektum. 20 arkitektar voru hins vegar út í K-höfn í vinnu á danskri stofu fyrir hina „íslensku“ Hörpu.

  ÉG VIL EINDREGIÐ HVETJA KOLLEGANA TIL AÐ SEGJA HÉR TIL UM ÞAÐ HVAÐ ÞEIM FINNST UM ÞESSI MÁL hinnar margræddu HÖRPU. – EFTIRKOMENDURNIR SEM FÁ OFURBAGGANA EIGA EFTIR AÐ SPYRJA: HVAÐ SÖGUÐ ÞIÐ ARKITEKTAR….. KOM ÞETTA EKKI INN Á YKKAR SVIÐ. VAR YKKUR ALVEG SAMA ?
  ÖH

 3. Kristinn Örn Viðarsson
  janúar 22, 2011 | 11:23

  Hvað á eiginlega að segja um Hörpuna???

  Þegar átti fyrst að byggja hana fann ég fyrir spennu. Enda viðurkenni ég að ég lét heillast af grafískum fegurðar myndum sem voru birtar.

  Jólin 2009 var ímyndin hinsvegar allt önnur. Þar stóð berskjaldað járnburðarvirkið fyllt af steypu sem minnisvarði um fyrri árin. Fyrir arkitekta hefði þetta kannski átt að vera fegursta myndin. Óskreytt form..

  Í dag hver veit. „Klárið þetta“ segja ýmsir.

  Samanfléttaðar tilfinningar af jákvæðni og neikvæðni sem umlykja Hörpuna verður Arkitektum lærdómsrík? Ég vona allavega að Íslenskir arkitektar fari að láta heyra í sér!

 4. Örnólfur Hall
  janúar 28, 2011 | 08:42

  Sæll félagi Kristinn Örn !

  Það sem þú segir er athyglisvert. Þetta á við fjölmarga.

  Skólastjórar tónlistarskólanna eru t.d. að vakna upp þann vonda
  draum að hart er skorið niður hjá þeim á meðan að mokað er fé í Hörpu. Þeir kvarta sáran.- „Klárið þetta“ segir þú að menn segi.- Til hvers er unnið ef ofurbruðlið kemur svo niður tónlistar-menntun íslenskra efnilegra ungmenna og þau verði að hverfa frá
  eins og nú mun gerast?

  Góð kveðja-Örnólfur

 5. Sigurður Einarsson
  janúar 28, 2011 | 11:51

  Þetta er mikil yfirferð hjá Örnólfi Hall (ÖH) á undirbúningi og framkvæmd Hörpu og notuð stór orð, því miður of víða án rökstuðnings. Ég ætla að láta öðrum það eftir að svara fyrir undirbúning og kostnað sem vafalaust verður gert við uppgjör byggingarinnar en einungis drepa á hluta þeirra atriða sem þarft er að staldra við.
  Ég veit ekki hvaðan ÖH hefur kostnaðartölurnar sem hann setur fram né hvað þær dekka, eru t.d.18.500m2 niðurgrafið bílahús og 10.000m2 lóð inni í þeirri tölu?
  Ég kannst ekki við þá ímyndarbreytingu sem ÖH nefnir að sé í gangi, því frá því að ég kom að verkinu 2004 hefur ráðstefnuhlutanum verið gert hátt undir höfði eins og rýmisáætlun og vinnuheitið ber með sér, „tólistar- og ráðstefnumiðstöð“ (Concert- and Conference Centre).
  ÖH talar um : „ en reyna á að aðlaga það [húsið]m.a. fjölþættum tónlistarþörfum“. Ekki veit ég hvað hann á við því frá upphafi samkeppninnar hefur forskrift á þeim fjölbreyttu möguleikum verið fyrir hendi í rýmisáætluninni að svokölluðum „fjórða salnum“ (tæplega 200 manna tónlistarsal) undanskildum, en honum var bætt við strax eftir samkeppnina. Hugsað hefur fyrir öllu því sem ÖH telur upp að óperuflutningi meðtöldum, þó svo að æfingar- og skrifstofuaðstöðu Íslensku Óperunnar hafi verið bætt við eftir bankahrunið, þökk sé sveigjanleika í innréttingu hússins. En auðvitað er húsið ekki fullkomið óperuhús sem væri annað og mun stærra dæmi , þ.e. leikhús þar sem hliðar- og baksenur væru mun stærri, senuturn ofan við svið auk verkstæða fyrir sviðsmyndir og búninga. Þegar ÖH talar um hönnunarágalla í þessu samhengi er lágmarkskrafa að rökstyðja þá fullyrðingu.
  „Stórir aukasalir hússins hafa birst sem hrákahönnun að svo komnu, eigi þeir að nýtast til menningar.“ segir ÖH í sínum pistli. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa setningu. Væntanlega er átt við æfingarsal Sinfóníuhljómsveitarinnar, ráðstefnusalinn og fjórða salinn frekar en fundaherbergi eða setustofurými. Lögð hefur verið alúð í þarfagreiningu og hönnun á innréttingum allra þessara almenningsrýma fyrir sem fjölbreyttasta nýtingu menningarviðburða, en í dag eru þau að sjálfsögðu mislangt komin í framkvæmd.
  Ef ÖH hefur áhyggjur af því að Harpa muni „birtast íslendingum og erlendum gestum þeirra sem kjánalegt, ofurdýrt skrauthýsi“, væri ekki úr vegi að skoða sambærileg menningarmannvirki sem byggð hafa verið og eru í byggingu í nágrannalöndunum og athuga hvort kjánahrollurinn geri vart við sig við þær heimsóknir. Við arkitektar notum oft frasann að „hús sé ferðarinnar virði“ og auðvitað er það von allra sem að þessu koma að það muni eiga við um Hörpuna, alla vega verði hún lóð á vogaskálar íslenskra bygginga sem spennandi er að skoða. Þar gætu leynst falin verðmæti.
  Að lokum um pistil ÖH get ég sagt að það sem af er verki hefur stjórnun og fagmennska við framkvæmd þessa húss verið með miklum ágætum og því erfitt að sitja undir mörgu öðru af því sem Örnólfur óverðskuldað hendir fram.
  Varðanda vangaveltur Hilmars Þórs um hönnunarkostnað er hann sennilega nokkuð ofmetinn hjá honum, allavega hlutur arkitekta, þó ég hafi á þessari stundu ekki upplýsingar um það. Hlutur sérstakrar ráðgjafar vegna tónlistar- og ráðstefnustarfseminnar,þ.e. hljóðvist, búnaður ofl er auðvitað talsverður en að öðru leyti ætti skipting milli fagsviða að vera nokkuð hefðbundin.
  Það skal engan undra að Hilmar spyrji eins og hann gerir um aðkomu íslenskra arkitekta, því í umfjöllun um Hörpuna hefur verulega vantað upp á að Batterísins sé getið sem höfunda hússins. Vegna villandi kynningar á verkefniu í ýmsum miðlum, er rétt að taka af allan vafa um höfundarrétt Hörpunnar, hann er jafn milli Batterísins og HLA. Við hjá Batteríinu höfum unnið þetta með HLA frá upphafi samkeppninnar bæði í Kaupmannahöfn þar sem 5 starfsmenn störfuðu á tímabili, en mest hér heima og hafa á þriðja tug starfsmanna okkar komið að verkinu. Þegar horft er til heildarhönnunar, skipulags, Hörpu, bílahúss ofl reikna ég með að hlutur Batterísins sé um 40% af manntímum arkitekta í verkinu. Í dag eru 3 starfsmenn Batterísins að vinna á verkstað og einn frá HLA. Að auki eru 1-3 starfsmenn Batterísins eftir aðstæðum, að sinna bílahúsi, innréttingum, torgi og öðru sem þörf er á.
  Sigurður Einarsson

 6. Örnólfur Hall
  febrúar 18, 2011 | 13:50

  AF UNDIRRITUÐUM OG STÓRUM ORÐUM OG RÖKSTUÐNINGSLEYSI HANS (samkv. S.E.)

  Í sjónvarpsviðtali, í júlí 2009, talaði einn mesti reynslubolti í stórframkvæmdum og kostnaðaráætlum þeirra um upphæðina 40 mill-jarða þegar Tónlistarhúsið bar á góma í viðtalinu.
  Fyrir utan það sem ég tel þá hef ég talað við verkfræðinga og arkitekta fróða um byggingarkostnað sem hafa áætlað hann mun meiri en opinber núkostnaður er sagður enda hefur sú tala staðið í stað mjög lengi. NB: Engin rökstudd opinber gögn fyrirfinnast.

  Vil ég nefna sérstaklega Baldur Andrésson arkitekt sem frá upphafi hefur fylgst náið með byggingu Tónlistarhúss og öllum kostnaðar-áætlunum og lagt sig í líma við að nálgast raunverðið.
  T.d. með fáanlegum upplýsingum frá Austurhöfn og R-borg.

  Um lóðakostnað og annan kostnað:

  Baldur Andrésson arkitekt hefur sagt mér:
  “Um lóðakostnað við Austurhöfnina hefur framkomið frá m.a. Stefáni Hermannssyni að,”Opinberir aðilar hafi ekki riðið feitum hesti frá því dæmi“. Hann á auðvitað við að mikil almannaverðmæti voru lögð endurgjaldslaust í púkkið, ekki síst í Hörpupúkkið”

  Ennfremur sagði Baldur:
  “Ég hef staðfest frá Stefáni Hermannssyni með tölvupósti 17.júní sl.að “bílahúsið tilheyrir Hörpu TR“ og hann á auðvitað við þann hluta þess, sem byggður verður þ.e. 545 stæða hús af 1600 stæða húsi.
  Óbyggður hluti hússins kostar auðvitað ekkert. -3.200 manna
  samkomuhús krefst auðvitað bílastæða. Er mögulegt að fráreikna
  bílastæðakostnað bílastæðahúss Hörpu TR frá Hörpuverði? “

  Vafasamt er hvort Björgólfs Portus borgaði nokkuð fyrir lóðir. Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg lögðu út gríðarmikinn kostnað við að gera Hörpulóðina byggingarhæfa, án þess að fá það endurgreitt.
  M.a. var Faxaskála fórnað og hann rifinn á kostnað Faxaflóahafna
  og hver borgaði fyrir nýja N1 bensínstöð og reif hana?

  Borgin ætlar nú að kosta umhverfisbætur fyrir framan Hörpu, og í beinum tengslum við húsið, umfram það sem samningsbundið var við Björgólfs/Portus.

  Ætti þetta ætti ekki að innreiknast í Hörpuverðið líka ? Eða hvað heldur S.E. ?

  Ef Sigurður efast um hátt kostnaðarmat á Hörpu TR, sem m.a. var metið opinberlega á yfir 30 milljarða í des.2009 (T.d. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi D í Mbl,- án mótmæla þá)- þá ætti hann að fá framlagt kostnaðarmat- þ.e. greinargerð um stofnkostnað, ekki bara að ásaka undirritaðan um fleipur.

  Þetta kostnaðarmat er einmitt hvergi upplýst, sundurgreint.

  Um umsögn :

  Bjánalegt ? Hrákalegt ? Kjánalegt ?- Bið forláts á hranalegum orðum sögðum í reiði eftir aðhafa verið vakinn upp tveimur nóttum áður af sauðdrukknum Hörpu- aðdáenda og verjanda sem kallaði mig ýmsum subbulegum og ljótum nöfnum sem gagnrýnanda.
  Ég hefði átt að nota mýkri orð. – Reiðin má ekki stýra manni!

  Hvaða orð á annars að nota um þá skipan að raða allt að 300 sætum aftan við svið í aðalsalog hvaða vandræði skapar það ekki vegna svokallaðs óperustarfs ?. Hvað á að kalla það að þurfa horfa aftan á t.d. fræga fallega söngdífu.

  Umsögn um Hörpuhönnun verður að skilja í því ljósi að nú er því haldið fram að húsið sé sérbyggð fjölþátta tónlistarhöll.

  Uppskriftin að verkefni arkitekta var allt önnur, var það ekki? Þeirra var að hannaráðstefnumiðstöð þar sem þó mætti flytja sinfóníska tónlist í aðalsal. Óperustarf var t.d. aukaþáttur
  frá upphafi, sem margfrægt er og tekur á taugar óperufólks.

  Arkitektarnir bjuggu ekki til uppskriftina.

  Miðað við tal um að Harpa sé í raun annars konar hús, en í upphafi var stefnt að,er hægt á þeim forsendum að tala um óviðeigandi lausnir.

  Ef hannað væri skólahúsnæði og samt ákveðið á fyrsta framkvæmda-stigi að húsiðyrði t.d. fangelsi,yrði auðvitað strax að endur-
  hugsa hönnunina.

  Annars yrði hún ?????leg og ?????leg.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00