Nýtt RYÐ í nýjum HÖRPU-strengjum

Nýtt  RYÐ í  nýjum HÖRPU-strengjum &
af páskahreti á rúðum:

Þann  12/4  fórum við félagar í skoðunarferð  niður í  Hörpu og brá í brún þegar við sáum að nýi suðurveggurinn var líka ryðtærður – og barinn eins sá gamli ónýti.

Myndtakan af nýja suðurvegg Hörpu fór fyrst fram 12/4/11. Aftur voru fleiri staðir myndaðir  17/4/11.  Þetta er miklu skuggalegra en við héldum eins og sést  á myndunum. – Horngluggar voru  m.a. teipaðir í páskahretinu. Hversvegna skyldi það nú vera ?

Undirritaður talaði við byggingarmeistara sem er búinn að vera 26  ár í  glerísetningum  og  “silicon”þéttingum. Hann sagði að glerfestingin  (límingin) á ryðskellótta og ryðslegna fletina með  límborðunum væri uggvekjandi  og  “silicon”þéttingunni  milli rúðanna  verður mjög erfið ef hún þá hún heppnast (ath. bílamengun, sót, ryk, selta og ryð  hamlar viðloðun). – Annar byggingarmeistari sagði við undirritaðan að ryðið  myndi  bólgna upp  undir límborðunum  og  þeir losna. —

NB: 1)  Þetta sagði tæknifræðingur sem fengist hefur mikið við stál :  Það er greinilegt að ekki hefur verið farið eftir byggingarreglugerð varðandi ákvæði um lámarks tæringarvörn á málmi samanber 130 gr. Stál, stálvirki, ál og álvirki. Þar kemur fram að þetta tilfelli ætti að falla undir tæringarflokk 5.

2)  Efnaverkfræðingur  sagði: Viðloðun  “silicon”fyllinga  við glerkanta er mjög áhættusamur þáttur.- Bílamengun, sót,  fíngert  ryk  og  selta  í raufum milli glerjanna  gerir viðloðun  lélega eða enga. Kantar þurfa að vera tandurhreinir. – Einnig berst  fínn foksandur utan að Granda fer líka yfir svæðið.

3)  Meðan raufunum er ekki lokað rignir niður á milli glerja og límborða  og þá ofan í stálið sem heldur áfram að ryðga. – Skyldi  svo  eiga  að mála yfir lúrandi ryðdrauginn  inni  eins  og  gert   var  í norðurhliðunum ?

4)    Engin nægjanleg  reynsla  er  komin hér á slíkan glerfrágang  (þarna þétt við sjávarsíðuna) !

Með góðri kveðju-Örnólfur

NOKKRAR  PS-STIKLUR UM HÖRPUMÁL

PS:  Til kollega sem hafa verið að  spyrja um hvort  við Guðmundur Kr. Guðmundsson séum búnir að fá   deiliteikningarnar sem Sigurður Einarsson ætlaði að útvega okkur 15/2/11.  Nei,,,nei.. Ekkert  heyrist  frá Sigurði  um það enn. Það var kannski aldrei ætlunin og bara plat.

PS: Við  kollegarnir  hlustuðum  agndofa  á  Lisu P. á  RÚV  fara með himinskautum með Sigurði Einarssyni í lýsingum  í Hörpuferð.  Allt er svo hjákátlega himneskt. Eldrauði salurinn er „undur“  og nefndur  Eldborgin og sem gárungarnir segja að skírður hafi eftir aulalegum Hörpu-eldsvoðum í tvígang í sumar. –Nú var ísfjall Jeppesens (HLT) orðið að hamraborg.

PS: Ekkert minnst á  „yfirhrifningu“  óperufólks. Ekkert var  minnst á suðurveggjarósköpin og ryðdrauginn.

PS: Ekkert minnst á ofurkostnaðinn  og rekstrarkostnaðinn og þá seinni tíma opnu ofurvíxla sem börnum og barnabörnum okkar er ætlað að greiða. Enginn veit hvað báknið kemur til með að kosta eða hvort hægt sé að reka það.

PS: Allt að 4000 manns eiga að rúmast í Hörpu á sama tíma, t.d. á virkum degi.

Ekki er  pælt í umferðarhnútnum á svæði sem fyrir  er yfirspennt í gömlu Kvosinni?

(Þetta er meðal faglegra atriða í skipulagi,sem litið er framhjá.)

NB: Það var fróðlegt  sem hinn  margvísi hagfræðingur í ríkisfjármálum Haraldur L. Haraldsson sagði (í þætti Egils) að  fjármál Hörpu væru komin úr böndunum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

12 Responses to Nýtt RYÐ í nýjum HÖRPU-strengjum
 1. Örnólfur Hall
  maí 8, 2011 | 08:22

  Um 30 myndir eru til af ryðinu í nýja suðurvegg Hörpu og af kínverskri rúðuteipingu á hornunum sem gerðar voru í Páska-hretinu.
  Það er skefilega uggvænlegt að vita um allar ryðskellurnar og gul- og svarbrúnu ryðfletina undir kínversku málningunni.
  Kantplötur úr stáli í efstu brúnum sást allsstaðar kolryðgaðar.

  Íslenskur skipatæknifræðingur, búsettur í Danmörku, og sem hefur verið við eftirlit í skipasmíðastöðvum í Kína vildi ekki trúa því(9/5)að stálið í Hörpu-hjúpnum væri ekki galvanhúðað heldur bara málað. Hann lét undirritaðan segja sér það tvisvar og sagði ennfremur að það væri full þörf á að hafa náið eftirlit með öllu í smíði og efnisstöðlum í kínverskum skipasmíðastöðvum. Ekkert mætti útaf bregða.
  Gkv-Örnólfur

  Hægt er að skoða þessar 2 myndir á :

  hppt://www.ai.is/ornolfur/ryd.jpg
  hppt://www.ai.is/ornolfur/vindur.jpg

  Þeir kollegar og aðrir sem vilja sjá fleiri ryð-og teipmyndir (v/hretsins) geta haft samband : ornolfurhall@simnet.is.

 2. Örnólfur Hall
  maí 9, 2011 | 14:30

  Hfj-9/5/11

  ARKITEKTAR SEM ALMENNIR SKATTGREIÐENDUR BORGA LÍKA Í
  KOSTNAÐI VEGNA ÓNÝTS SUÐURVEGGJAR HÖRPU-EKKI BARA
  KÍNVERJARNIR (Sjá svör Katríar J. ráðherra).
  ——–

  FJÓRAR ÚTGÁFUR AF SVÖRUM UM HVER BERI ÁBYRGÐINA
  Á GALLAÐA SUÐURVEGG HÖRPU:

  1) Fréttatilkynning á RÚV 4/8/10 –Sig. R. Ragnarsson segir fyrir hönd ÍAV: ÍAV ber kostnað af tjóninu en mest fellur þó á kínverska fyrirtækið Lingyun, segir Sigurður.

  2) Pétur J. Eiríksson í DV 12/11/10 : Kínverjar bera allan kostnað vegna gallans.

  Svör Menntamálráðherra vegna fyrirspurnar Marðar Árnasonar þingmanns (Liður 9. Hver ber kostnað við tjón á suðurhluta hjúpsins? Hvernig skiptist hann milli aðila?)

  3) Katrín Jakobsdóttir Menntamálaráðherra:
  Kostnaður við endurgerð og uppsetningu stálvirkis fyrir glerhjúp er borinn af erlendum undirverktaka og hugsanlega undirverktökum hans. Af þeim sökum liggja upplýsingar um kostnað vegna þessa ekki fyrir. Aðalverktakinn, ÍAV, hefur haft vegna þessa aukinn eftirlits- og rannsóknarkostnað. Umsamin hlutdeild verkkaupa í þeim kostnaði er 12 millj. kr. *

  Athugasemd mín (ÖH): 12 milljónir verkkaupans (ríki og borg) eru Suðurveggjar – kostnaður sem leggst á okkur skattgreiðendur. Má ætla fyrsti af fleirum.

  4) Svar Ríkharðs Kristjánssonar hönnunarstjóra Hörpu við spurningu minni á vef Arkitektafélagsins – ai@ai.is ( undir flokkar: GREINAR:
  Spurning mín: „Opinberlega hefur verið sagt að Kínverjarnir beri að MESTU kostnaðinn við gallaða suðurvegginn (í fréttatilkynningu í RÚV 4/8/10- S.R.R. frá ÍAV). Hverjir bera hinn hlutann ?
  Hvað segir þú um það sem fulltrúi ÍAV?“

  4) Svar Ríkharðs hönnunarstjóra:
  “ Lingyun og framleiðendur glerhjúpsins bera allan beinan kostnað af endurgerð hjúpsins. Það er hins vegar svo að fyrir rétti reynist yfirleitt ómögulegt að sækja óbeinan kostnað, t.d. kostnað ÍAV af stjórnun verksins og eigin eftirliti. Þetta er hluti af íslenskum lögum um tryggingarvernd og er einnig í lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Brunatryggingar bæta t.d. ekki óbeinan kostnað tjónþola. Óbeina kostnaðinn berum við hjá ÍAV og Portus en hann er tiltölulega mjög lítill miðað við heildarkostnaðinn.“

  Spurning mín (ÖH): Getur ÍAV sem er „fallít“ og afskrifað um 23 milljarða borið ábyrgð?

  *: Hvað segir Sigurður Einarsson (aðalhöfundur Hörpu) um þetta ?

  Með bestu kveðjum – Örnólfur Hall arkitekt FAÍ

 3. Örnólfur Hall
  maí 16, 2011 | 17:59

  Vefbréf sent til ofanritaðs og ritskoðað !

  Sæll gamli skarfur !

  Auðvitað er Hörpuhátíð nú. Það er talað um húsið „okkar“
  Hvernig væri hátíðin ef Björgólfur væri enn eigandi,
  eins og spunalið Hörpu óskaði sér að yrði ?
  Væri Harpa ekki húsið hans ? Eða okkar og hans ?
  Eða væri þetta „Harpan okkar“ í eigu xxxxxx ?

  Frá Laugarnesi séð er þetta svartur risaklettur.
  (Spilar þó saman við svörtuhús IAV, Skuggatröllin.
  Var ekki H.Larsen AS þar að verki líka ?)

  Danskur túristi, hefðarfrú, spurði mig: Hvað er þetta.
  Ég sagði: Þetta er kjanorkuver í byggingu.
  Konan fékk sjokk. Og svo er það hræðilega ljótt líka
  sagði hún. Þá sagði ég sannleikannn, en hún sagði:
  Samt er þetta hræðilega ljótur kassi „i jeres ellers
  balanserede småbymiljö, i Islands hovedstat“.

  Hún bætti við athugasemd um brauðristina í Köben.

  Sent (16/5/11) til ofanritaðs frá orðhvössum utanfélagskollega
  og leiðsögumanni.

 4. Jóhann Ingi
  maí 18, 2011 | 14:28

  Já manni blöskra þessi vinnubrögð. Hvað er eiginlega í gangi í hausnum á þeim sem stýra þessu verki á þennan hátt? Eða eru þeir misskildir snillingar sem vita meira en við hin? Er nema von maður spyrji.

  Jóhann Ingi
  Framleiðslutæknifræðingur

 5. Ríkharður Kristjánsson
  maí 19, 2011 | 21:22

  Það eru tvær einræður sem njóta mikillar hylli meðal íslensku þjóðarinnar. Það eru Einræður Starkaðar eftir Einar Ben og í seinni tíð Einræður Örnólfs Hall um Hörpunnar og öll þau vandræði sem eiga að vera svo augljós í því húsi. Sérstakt er að lesa viðbrögð gesta hússins og bera saman við viðbrögðin á vef IA og raunar held ég oft að það sé verið að skrifa um tvö mismunandi mannvirki svo grundvallarólíkar eru umsagnirnar.
  Ég ætlaði ekki að skrifa meira inn á þennan ágæta vef en mér til undrunar hafa fjölmiðlar engan áhuga á öllu því uppbyggilega efni sem þar er að finna nema þeim einræðum sem ég minntist á í byrjun. Orsökin er nokkuð augljós. Annars vegar gefa greinarnar fyrirheit um að hafa fundið kraumandi graftarkýli í húsinu og svo hitt að þær eru mjög fjörlegar og skrifaðar nokkuð í anda bloggheima þar sem engin þarf að bera ábyrgð á því að fara með rangt mál.
  Það er enn erfiðara að svara þessu bloggi en því fyrra því fjörið er svo mikið í skrifunum að erfitt er að henda reiður á þessu. Ég ætla þó að reyna.
  Hvað teikningar hússins áhrærir þá hefur það nú skeð að Örnólfur hefur heimsótt húsið. Það hefði þá verið auðvelt að koma við hjá mér og fá að sjá þessar teikningar. Ég botna reyndar ekkert í því af hverju menn þurfa teikningar þegar þeir hafa húsið til að skoða en eins og segir í ljóði Tómasar: „Mörgum finnst það skrítið sem þeir ekki skilja.“
  Þá kem ég að ryðinu margfræga. Ég hef reyndar svarað þessu, hér á þessari síðu, í Speglinum, Eyjunni og víðar en það virðist ekki hjálpa svo ég endurtek það hér.
  Suðurveggurinn er byggður á þann hátt að kubbum er raðað saman og þeir boltaður saman í hornum. Götin eru með 2 mm hlaupi og þrátt fyrir mun meiri nákvæmni í smíði en í fyrri vegg þá þurfti sums staðar að slípa stálið og þá fer ryðvörnin af. Götin sem festingar glersins eru skrúfuð í og eru síðar fyllt af silikoni geta einnig skapað ryðtauma meðan kubbarnir eru úti og síðan eru kubbaveggirnir tengir öðrum veggjum með suðum. Einnig þær geta fengið yfirborðsryð uns þær hafa verið slípaðar og ryðvarðar.
  Það er áhugavert að geta þess að málningarkerfið sem sett er á kubbana er kerfi sem er notað á utanhússtál því það er af og frá að hægt sé að galvanhúða allt stál vegna stærðartakmarkana.
  Málningarkerfið er 0,2 mm þykkt epoxy-polyuretan kerfi sem er notað hér utandyra við erfiðustu aðstæður. Margir viðmælendur Örnólfs virðast eftir afstöðu sinni að dæma álíta að stálið sé utandyra. Gott væri að ná samkomulagi um það atriði.
  Það er einnig mikilvægt að ysta silikonið er ekki aðalþéttingin. Það er silikonborðinn sem er það. Þessi borði myndar lokað kerfi sem er drenað niður og loftræst upp. Síðan er toppfyllt að innan. Hér er í raun um að ræða nánast þriggja þrepa þéttingu. En það hefur sýnt sig að tveggja þrepa þétting er algjör nauðsyn þó margir hafi viljað fara aðra leið. Þeir hafa allir beðið ósigur fyrir vatninu og kann undirritaður margar sorgarsögur af slíku því honum er til efs að margir Íslendingar hafi meiri reynslu að því að berjast við leka í íslenskum byggingum og undirritaður hefur og þar eru mörg stórhýsi Íslendinga á meðal, því eins og menntamálaráðherra sagði á rás eitt í dag 19.5 þá á ráðuneyti hennar mikið af lekum byggingum.

  En svo er aðalatriði málsins að stálið er inni. Kubbarnir eru holir og milli glerja er blásið þurru heitu lofti með yfirþrýstingi. Glerið er ekki límt á stálið eins og hér er haldið fram heldur er silikonþéttiborði límdur á stálið en síðan er glerið lagt þar að en öllu, gleri og borða, síðan haldið föstu með álklemmum. sem grípa í U-skúffur milli glerja. Allt gler er hert nema litaða glerið að hluta.

  Það var svo mjög skemmtileg hugdetta að glerið hefði verið að detta af byggingunni í páskahretinu og við orðið að grípa til límbands til að halda öllu föstu. Það jaðrar við að mér verði hugsað til kvæðis Bólu Hjálmars um Jón Hrak: „Falin er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri.“
  Reikningslega álagið á glerið er allt upp í 1200kg/fermetra og þá dugar límbandið lítið. Límband er notað hér í ýmsum tilgangi. Silikonborðarnir eru límdir á stálið og þeir eru festir með límbandi meðan límið harðnar. Í hornum er gler oft límt saman og þar hefur verið notað límband til að minnka hreyfingar meðan límið er að ná styrk. Síðan er einnig notað límband til að varna því að kítti fari út á rúðurnar.

  Við höfum raunar í öðrum verkum notað „límbönd“ í burðarvirki en það hafa verið koltrefjamottur í epoxylími og svolítið sterkara en það sem Lingyun átti að hafa notað til að verjast páskahretinu.

  Svo notar Örnólfur gamalkunna aðferð predikara að vitna í nafnlausa aðila út og suður en erfitt er stundum að sjá hvort þeir höfðu réttar upplýsingar. Þetta á t.d. við um „tæknifræðing sem hefur fengist mikið við stál“ og Örnólfur hefur eftir honum að um sé að ræða brot á byggingarreglugerð. Ég vildi gjarnan sjá rökstuðning fyrir því því hér erum við ásakaðir um lögbrot og fyrir því þarf að færa haldbær rök.

 6. Örnólfur Hall
  maí 21, 2011 | 08:29

  Jóhann Ingi !

  Jóhann Ingi , satt segirðu, en jafnvel svokölluðum snillingum verður á í messunni og það með einfalda og augljósa hluti. Hinn venjulegi íslendingur, með heilbrigða skynsemi og verksvit í góðu lagi, hefði aldrei byggt sér t.d. sólstofu (glerskála) við húsið sitt úr málaðum stálrömmum (t.d kínverskum). Ef ég þekki minn mann rétt þá hefði hann notað stálramma með betri varnarhúð en málningu (t.d. sinkhúð).

  Með góðri kveðju – Örnólfur Hall

  NB: Hann bíður ekki ryðhættunni heim að óþörfu.

 7. Örnólfur Hall
  maí 21, 2011 | 15:09

  Ágæti Dr. Ríkharður, sæll !

  Hfj-21/5/11
  Mér þótti notalegt að heyra í þér aftur. Ég var eiginlega farinn að sakna þín á vefnum. Þú sagðir við mig síðast í styttingi, að því er mér fannast, að nú væri komið nóg og tími til kominn að setja punkt við þessi leiðinlegu Hörpuskrif sem vafasamt væri að nokkur nennti að lesa.
  Ég ætlaði að svara þér um helgina en nú sé ég fram á að ég kemst ekki í það fyrr en í næstu viku vegna anna – m.a. vegna myndataka. – Verð að teysta á að enginn verði heimsendirinn.
  Með góðum kveðjum – Örnólfur

  PS: Kollegi Guðmundur Kr. sem er nú í útlöndum ætlar líka að lesa pistil þinn á AÍ-vefnum.

 8. Ríkharður Kristjánsson
  maí 26, 2011 | 21:16

  Jóhann Ingi. Má bjóða þér í Hörpuna til að skoða húsið og gefa þér möguleika á að skoða í hausinn á okkur sem stýrum þessu verki.
  Kv
  Ríkharður, sími 6934206

 9. Örnólfur Hall
  maí 31, 2011 | 22:44

  Ágæti Dr.Ríkharður, sæll aftur !

  Það hefur dregist að klára svarpistilinn frá mér vegna ófyrirséðra anna en það verður vætanlega innan tveggja daga.

  Ég var farinn að dáðst að kunnáttu þinni í þjóðskáldunum þar sem þú sveiflar þér, í pistlinum, á milli þeirra til að þruma yfir mér og skamma.— En svo varð ég fyrir miklum vonbrigðum með þig:

  Þú segir: Það jaðrar við að mér verði hugsað til kvæðis Bólu Hjálmars um Jón Hrak: “Falin er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri.”

  Þetta er sagt til að að hnykkja á um „hrakspárgleðina“ hjá mér.

  En þarna brást þér sveiflulistin. Það er rangt að -Jón Hrak- sé eftir Bólu Hjálmar. Stephan G. Stephansson er höfundurinn *

  Það er frekar nöturlegt hjá þér að segja að verið sé að óska hrakfalla.

  Blessuð börnin og barnabörnin okkar allra koma til með að fá ofur-reikningana og óútfylltu víxlana frá Hörpu-æfintýrunum – það þarf enga vonda spámenn til að sjá það. Ættum við að óska þess að hrakföll bætist við þau ósköp?
  Við (G.Kr.G.) vorum aðeins að lýsa staðreyndum sem við þekkjum og höfum slæma reynslu af stáli (án varnarhúðar) inni í gluggum og hurðum.
  Það er heldur engin illska í því að vara við og tala um það sem gæti gerst.

  * Það vill svo skondið til að ég lærði (í kvæðavali) kvæðið utanbókar þegar ég var 13 ára.

  Annað :
  Eruð þið þú og S.R.R.(sagt í FB) handvissir um að í Listasafni Reykjavíkur sé að finna samskonar málaða stálglugga og eru í Hörpu? Við fundum einungis áfelluglugga (málmáfellur). Þetta þarf að skoða nánar.
  Með góðum kveðjum-Örnólfur

 10. Ríkharður Kristjánsson
  júní 1, 2011 | 08:30

  Sæll Örnólfur.
  Það var slæmt að ég skyldi ruglast á skáldunum, alla vega getur Bólu Hjálmar verið ánægður með mig að hafa eignað honum þetta flotta ljóð.
  En þetta snýst nú ekki um þjóðskáldin heldur fullyrðingar ykkar um að gluggarnir muni ryðga sundur, ásakanir um brot á reglugerð þar sem ekki sé uppfylltur strangasti tæringarflokkur. Sá flokkur á við um stál úti í mengandi umhverfi, ekki stál bak við gler.
  Ég hef heldur aldrei sagt að Listasafn Reykjavíkur hafi samskonar glugga og Harpa heldur að þar sé notað ómeðhöndlað stál innanhúss í miklum mæli.
  Ég skil vel áhyggjur ykkar af útgjöldum komandi kynslóða en ég held að ryðgandi gluggar í Hörpu verði þar ekki stór hluti ef yfirhöfuð nokkur. Stærra viðhaldsvandamál liggur í sprungnum og lekum húsum sem voru teiknuð einangruð að innan löngu eftir að varað var við því. Húsum með óþarfa steypta kanta utan á húsum sem kallaði á frostskemmdir, fúnandi timburgluggum með vonlausum frágangi o.s.frv og þar eru eldri arkitekta ekki skuldlausir frekar en eldri verkfræðingar. En stærsta vandamálið liggur náttúrulega á fjármálahliðinni og offjárfestingum m.a. í byggingum sem skapaði vissulega atvinnu fyrir allar þær stéttir sem komu þar að en börnin verða að borga.

 11. Örnólfur Hall
  júní 6, 2011 | 11:33

  Ágæti Dr. Ríkharður, sæll enn og aftur !

  Nú skrifar þú þrumandi pistil (af eldmóði), mér ætlaðan, og talar um mig í þriðju persónu. Af speki- og viskukveðskap Einars Ben. – EINRÆÐUM STARKARÐAR- dóar þú svo til og af verður: EINRÆÐUR ÖRNÓLFS.
  Þessar tvær (tvennar?) einræður segir þú, hæðnislega, að njóti hylli íslensku þjóðarinnar. Á að skilja það svo að þú hafir lítið álit á dómgreind og skoðunum hennar?
  UM PISTIL
  Margir spakvitrir menn gripa til þjóðskáldanna eða þjóðskörunganna til að leggja áherslu á mál sitt og oft með misjöfnum árangri. — Í upptendrun í september 2005 (Mbl) tók einn með sér þjóðskáldið Einar Ben., purkunarlaust, í lofgerðar-siglingu um Hörpu: “Hlýlega vafinn í straumanna arm”. Annar spakur talaði um eitt mesta byggingarundur byggingarsögunnar. Menn brostu góðlátlega og vinsamlega.

  Ég stórefa að hin DANSK-hannaða HARPA (Danir telja víst Ólaf danskan) fyrir Íslendinga hefði verið honum þjóðskáldinu og þjóðskörungnum Einari, hins nýja og unga Íslands, að skapi sem íslensk tónahöll.
  Einar Benediktsson verður seint talinn skáld prjálsins frekar skáld hins göfuga forms. Tónahöll með göfugt yfirbragð og spennandi og falleg form, sem kölluðust á við yfirbragð („karakter“) borgarinnar, tel ég að hefðu verið honum meira fagnaðarefni en dönsk þunglamaleg útfærsla með strendingum með glerskrauti (sem sumir kalla “gimmick”).

  AF VEISLUGLÖÐUM OG ÁHYGGJUFÓLKI

  Þú talaðir við veisluglaða fólkið sem hugsar ekki um timbur-mennina. Timburmennirnir með langlundina tygja sig brátt og það verður nóg vinna framundan. Saklausir eftirkomendur finna fyrir þyngsta timburklambrinu. En “veisluspillarnir”eiga helst að halda sig út í horni og halda sér saman.
  Ég heyrði og heyri frekar í uggandi fólki t.d. í HH og BÓT (laust við gleðivímu) sem blöskrar bruðlið og óráðssían.

  AF TORFENGNUM TEIKNINGUM

  Svo er það þetta með teikningarnar sem við Guðmundur báðum um (Sig. E. ætlaði að ganga í að útvega okkur en svo ekki söguna meir). Þú talar um að þær séu bara óþarfi þegar við getum séð hlutina í návígi.- Já..að sjá er frábært en teikningar eru nauðsynlegar til upplýsinga um stærðir, uppbyggingu, efni o.fl. Á teikningum væri t.d. hægt að sjá það skýrt í sneiðingu það sem þú ert að lýsa með svo mörgum orðum um þriggja þrepa þéttinguna í gluggunum.

  NB: Byggingateikningar eiga að vera opinber gögn samkvæmt reglugerð og til reiðu hjá embætti Byggingarfulltrúa. Mér finnst mjög undarlegt að þurfa að biðja þig um að fá að skoða gögn sem eiga að vera opinber.
  Ég vil ekki sætta mig við að þurfa leita til þín með minn borgaralega rétt.

  Enn grípur þú til þjóðskáldanna og nú er það Tómas til að hnykkja á um „aulaskapinn og frekjuna“ í mér með þetta.– Þú virðist sveifla þér svo léttilega á milli þeirra eins og ekkert sé.

  AF HEIMBOÐI Í HÖRPU

  Ég vildi að þú byðir okkur öllum í AÍ til skoðunar í Hörpu – ekki bara mér einum eins og þú vildir fyrst. Þú féllst svo á það að við kæmum sem hópur. Forystu AÍ mistókst að koma þessu til þá til leiðar. Formaður mun svo hafa beðið ritara AÍ að panta skoðunarferð en þá var það ekki hægt.––
  PS: Það er fróðlegt að heyra að það hefur verið fylgst með einkaferðum mínum á Hörpuslóðir.

  ÞÖKK SÉ ÞÉR FYRIR BARÁTTUNA VIÐ LEKA Í BYGGINGUM

  Þú nefnir starf þitt við að leysa lekavandamál m.a. í opinberum byggingum. Þú átt mikið hrós skilið fyrir það en vonandi áttu ekki eftir að fást við hið uggvænlega 130 milljóna glerþak Hörpu. Það yrði sæmt ef það færi að leka eins og sumir óttast mjög og vonandi þarf ekki að bæta þeim áhyggjum á menntamálaráðherra. Hún hefur væntanlega nægar af Hörpumálum.

  PS: Katrín Jakobsdóttir ráðherra lét skera 260 milljónir af HÍ.
  Hefði ekki mátt spara í þakinu og sleppa glerinu og færa HÍ um 100 milljónir sem sárabót upp í niðurskurðinn? Þetta er reyndar annað mál og ekki þitt.

  AF KYNNUM AF RYÐI Í BYGGINGUM Á ÍSLANDI

  Við Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt þekkjum ryðvandamál frá gamalli tíð og sennilega betur en flestir aðrir (a.m.k. í 40 ár) og vitum að ryð er „náttúruafl“ sem brýst fram við ýmsar ólíkar aðstæður og oft þegar síst skyldi. Blástur dugar ekki til við t.d. við hörku kuldaveðráttu eða snögg veðrabrigði. Við getum fengið aftur harða vetur (frostavetur). Hinir mildu eru ekki endilega viðvarandi og svæðið þarna getur orðið versta veðravíti Höfuðborgarsvæðisins.

  Við höfum báðir t.d. mjög slæma reynslu af glugga- og útihurðastáli sem ekki var með varnarhúð eða ónýtri húð. Ég – af byggingu með innfluttum gluggum í með stálkjörnum (til styrktar). Kjarnarnir áttu að vera “galvan”húðaðir. Þegar gluggunum fór síðar að blæða ryði kom í ljós að kjarnarnir reyndust kolryðgaðir og höfðu verið aðeins málaðir. Þeim varð að farga og setja upp nýja betri. Loftræsing var fyrirtak .- Kollegi Guðmundur hefur ryðsögu að segja af stálkjarna útihurða í Seðlabanka en þar reyndist ónýt sinkhúð á. Stálkjarni reyndist svo síðar kolryðgaður.

  PS: Í samtali við aðalverkfræðing embættis Byggingarfulltrúa koma fram að það væri engin yfirborðsmeðferð sem kæmi í staðinn fyrir „galvaniseringu“ á stáli ef ryðhætta er til staðar.
  Nefnda málningu gat ég plokkað, með nöglunum, af ryðguðu strendingunum suður í Hafnarfirði áður en þeir fóru siglandi til Spánar. Pjötlur af henni á ég enn til í umslagi.

  Annað sem velt var fyrir sér: Er hægt að treysta alfarið á þéttingarnar við rúðurnar (t.d. á norðurhlið) þegar rúðurnar fara að hvika til og frá í ofsaveðrum (norðanáhlaup)?

  Hvað gerist í svörtu borðunum, sem rúðurnar eru límdar á, ef við fáum margra daga sólskin eins og var í fyrra? Við þekkjum hvernig malbikið getur orðið.

  AF ÓNAFNGREINDUM VIÐMÆLENDUM OG GAGNRÝNENDUM- Í LANDI ÞÖGGUNAR

  Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er það svo að í því ástandi sem er í landinu í atvinnumálum, biðja margir gagnrýnendur (hræddir) Hörpu um að nefna ekki nöfn.
  Atvinnulausir eru hræddir um að fá síður vinnu og þeir sem hafa hana óttast að missa ef þeir segja eitthvað sem kunni að stuða yfirvöld eða vinnuveitendur með hagsmuntengsl.
  Þetta á við t.d. um iðnaðarmenn, arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga og fleiri stéttir.

  Eins óttast menn að vera kallaðir: fjéndur tónlistar og menningar eða úrtölupakk. Þær nafngiftir höfum við Guðmundur fengið að heyra. Já… og músarholumenn hefur heyrst hóað líka.

  „TEIPIN“ HVÍTU,GRÆNU OG GLÆRU- Í HRETINU

  Við vorum þarna norpandi í hretinu og horfðum á snarborulega Kínamennina líma með grænum eða hvítum „teip“borðum brúnirnar á glerin á hornunum. Það var vindbelgingur sem tók eflaust fast í hornrúðurnar og hvað var eðlilegra en festa þær vel svo þær gúlpuðu ekki frá (af límingunni?). Þó sést t.d. rúða gúlpa efst upp í suðausturhorni. Hvers vegna er það ?

  Ekki sáum neinar „teipingar“ annars nær miðsvæðinu og vorum að velta því fyrir okkur hver væri munur á grænum og hvítum „teipum“.

  AF HRAKSPÁM

  Enn grípur þú til þjóðskáldanna og nú er það Bólu-Hjálmar með – Jón Hrak- til að hnykkja á um „hrakspárgleðina“ hjá mér.

  Þarna brást þér sveiflulistin. Það er rangt að -Jón Hrak- sé eftir Bólu Hjálmar. –Stephan G. Stephansson er höfundurinn.

  Ég var farinn að dáðst af þekkingu þinni á þjóðskáldunum.

  Það er frekar nöturlegt hjá þér að segja að verið sé að óska hrakfalla.
  Blessuð börnin og barnabörnin okkar allra koma til með að fá ofurreikningana og óútfylltu víxlana frá Hörpu-æfintýrunum – það þarf enga vonda spámenn til að sjá það. Ættum við að óska þess að hrakföll bætist við þau ósköp?
  Við (G.Kr.G.) erum aðeins að lýsa staðreyndum um ryð sem við þekkjum og því sem gæti orðið. Það er ekkert óeðlilegt við að vara við og tala af reynslu eins og við gerum.

  V/ ÁTALDRA UMMÆLA STÁLMANNS

  Vegna átaldra ummæla stálmanns: þá var um að ræða stál sem gekk inn og út í gluggavegg í flugstöð. Fl.5 átti við þar en ekki endilega við í tilfelli Hörpu. Þetta sagði annar (nú aðspurður) stálmaður. Hann bætti við að hann hefði átt von á að sjá stál sem ferðaðist óralangt með sterkari vörn.

  NB: 5.fl.: er um stál úti óvarið fyrir tærandi umhverfi.

  Ég tel að engum hafi dottið það í hug að halda því fram að brotið hafi verið á reglum og samþykktum Byggingarfulltrúa. Það hefði ekki getað farið fram hjá honum. Þetta getur maður ekki og gerir heldur ekki.

  PREDIKARINN

  Þakka nafngiftina. — Skárra en t.d. tónlistar – eða menningarfjandi, úrtölupakk eða músarholumaður.

  ANNAÐ: NÁNAR UM STÁLIÐ

  Svo það sé á hreinu – við erum að tala um (NB) glugga-“prófíla“, málaða, ryðgaða, pússaða og yfirmálaða. Þar sem ryðhættunni gæti verið boðið heim. Við erum ekki að tala um „ómeðhöndlað stál“ inni í rýmum.

  Talað var við annan höfund Listasafns Reykjavíkur og var hann spurður hvort samskonar gluggar (málað stál) væru þar og í Hörpu. Það er ekki. Gluggarnir eru álgluggar með álþynnum.
  Að sögn höfundar er „ómeðhöndlaða“ stálið inni sem þið talið um eldhúðað (blátt og svart). Stálið hefur ryðgað í anddyrinu.

  PS: Bið forláts á seinkun pistils.

  Með góðum kveðjum- Örnólfur

 12. Ríkharður Kristjánsson
  júlí 30, 2011 | 08:33

  Sæl öll
  Ég hef því miður ekki haft tíma til að svara til að tala þátt í þessum skemmtilega leik að skrifast á gegnum bloggsíður.

  Nú ætla ég að nota smátíma sem ég hef til að svara langri grein Örnólfs. Það fór reyndar svo með þessi samskipti eins og svo margar opinberar umræður á Íslandi að þær fóru út um víðan völl. Þjóðskáldin komu þar inn í eins og alltaf á Íslandi en undarlegt nokk þá hefur ættfræðin ekki komið við sögu. Komi að því þá er best að ég upplýsi strax að ég er kominn af drykkfelldum klerkum og svo heljarmennum að líkamsburðum sem er slæmt fyrir mig því ég er frekar aumingjalegur.

  Ég ætla síðan að svara nokkrum að punktum Örnólfs og reyna að hafa í huga áhyggjur hans í upphafi þessarar vegferðar, þ.e. að ryðgandi stál innan við glerið í Hörpu yrði þungur baggi á börnum okkar og barnabörnum.
  Til að fyrirbyggja strax misskilning Örnólfs þegar hann segir: „PS: Það er fróðlegt að heyra að það hefur verið fylgst með einkaferðum mínum á Hörpuslóðir “. Enginn okkar tók eftir Örnólfi enda stöðugur straumur af fólki að taka myndir af Hörpu. Ég vissi að hann hafði komið af því hann skrifaði í upphafspistli þessarar bloggraðar: “Þann 12/4 fórum við félagar í skoðunarferð niður í Hörpu”

  Ég hef lýst þéttingarkerfi Hörpu í grein sem við skrifuðum í Árbók tæknifræðinga og verkfræðinga 2010. Þar lýsi ég hvaða lausn ég bjó til þegar nákvæmi í stálsmíði var ekki nægjanleg fyrir glerkerfið. Ef Örnólfur hefur áhuga á þéttingarkerfinu segir þessi umfjöllum miklu meira en arkitektasnið sem segja oftast allt of lítið því það vantar þrívíða mynd af hornum og samsetningum. Ég næ vonandi að skrifa fræðilega grein um gluggaþéttingar og sniðmyndir síðar þegar ég hef ekki svona mikið að gera.

  Ef ég kem aftur að ryði í ógalvanhúðuðu stáli þá væri gaman fyrir mig að vita hvaða vörn Örnólfur myndi velja á stál sem væri utandyra (sem þetta ekki er) og hann gæti ekki galvanhúðað það því það er jú af og frá að hægt sé að galvanhúða allt stál. Ég get næstum svarað mér sjálfur. Hann myndi hringja í málningarframleiðendur og þeir myndu segja. „Góðan epoxygrunn, síðan millilag af exopymálningu og á endanum þykkhúð úr polyuretan“. Þetta er nákvæmlega það málningarkerfi sem er á stálvirkinu í Hörpu sem er hins vegar innandyra.

  Af því að ég þekki vel byggingarnar hans Örnólfs vel þá veit ég að hann er hugmyndaríkur maður.. Mér finnst hugmyndin um að teipa horn á byggingu í roki frábær. Í hornunum eru víða ekki stálprófílar heldur mynda rúðurnar hornin. Rúðurnar eru þá festar á stálprófíla á þremur hliðum en límdar saman í hornunum. Meðan límið er að mynda nægjanlegan styrk er sett sterkt límband fyrir hornið til að halda þrýstingi á líminu.
  Ég ætla síðan ekkert að eltast við ummæli sem hafa verið dregin til baka eins og ummæli einhvers um brot á reglugerð eða samlíkingar við einhverja bita sem gengu út úr flugstöð og áttu ekki við. Sama gildir um glugga Listasafns Reykjavíkur. Ég hafði aldrei sagt að gluggarnir þar væru sambærilegir við Hörpu og ég ætti að vita það þar sem ég vann með arkitektunum að samkeppnistillögunni. Þetta var að vísu löngu komið fram hjá mér í fyrra svari.

  Að lokum vildi ég segja þetta þar sem þar ég reikna með að þetta verði síðast svargreinin mín til Örnólfs. Húsið stendur og svarar fyrir sig sjálft. Það er stöðugur straumur af Íslendingum og útlendingum að skoða húsið og þá einkum glervirkið. Ég er stoltur af því að hafa verið hönnunarstjóri þessa hús og í lokin einnig verkefnisstjóri glerhjúpsins og náð að klára glerhjúpinn jafnvel þótt ég hafi orðið að taka ákvörðun um að láta rífa alla suðurhliðina niður.
  Það hefði ég raunar vilja gera við mörg íslensk hús sem ég hef þurft að reyna að laga.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00