TJASL og FLÆKJUR í HÖRPU-strengjum

 

ENN  úr  HÖRPU”æfintýrum”

Arkitekt  og  skattgreiðandi  gerir  athugasemdir  við  Hörpu-framkvæmdir  :

1)   Yfirmálaða  ryðið  og  raka í  rúðum:

Ryðið sem málað var yfir fyrir glerjun  og sjáanlegt nýtt ryð sem birtist inni sem fékk  s vo sömu meðhöndlun fyrir vígslu.  Rúður  sem  voru farnar að  fá á sig raka (rakamóðu) fyrir vígsluna en hönnunarstjóri  sagði að það myndi ekki  gerast (í RÚV 13.maí).  Reynslan kennir okkur að rakinn lekur  svo ofan í  gluggapóstana  (stálið málaða  sem  ryðgar síðan).  Það er gömul  saga og ný.

2)  Ryðtaumar sem leka nú úr norðurhlið  Hörpu.

3)   Klúðurs- og klasturslegar  samsetningar  á hornum veggja :
Klastur og klúður í samsetningu  eru í  hornum  veggja.  Það  er eins og verkfræðiteikningarnar 8000 “heimsfrægu”  hafi ekki gengið alltaf upp.  Ótrúlegt er að sjá  hvernig  veggeiningarnar (á hornum) eru skeyttar saman  og raðast að hverri annarri  og hvernig  póstar, sem  lenda  í mismunandi hæðum,  eru  skeyttir  saman  með  misstórum stálplötum.  Lóðréttir og láréttir póstar hornpóstar  passa ekki sumstaðar saman og þá er klastrað.
4)  Ófagrar  málmsuður og víða gróft og yrjótt  yfirborð  pósta:

Subbulegar, klasturslegar  og tjasllegar málmsuður  sjást  í  t.d.  kverkum  veggeininga  og  handriðum  t.d. handriði aðalstiga.*
4)  Ófagra  mislagða flísalögnin á  jarðhæð.  Þegar birtan fellur inn á gólfið sjást allar misfellurnar.  Hellulögn sem  er óhrjáleg  við húsið (tilhöggnar hellur skaga víða upp úr og  víða eru  útfellingar).  Sjá  má sigarettustubba fylltar  klaufalega  misbreiðar  fúgur við húsið.  Lóðarútfærsla  sem  er mjög  tötraleg  yfirlitum.  Þetta  er til háðungar  fyrir “húsið OKKAR” sem var byggt fyrir okkur  að okkur forspurðum.
5)  Á dögunum benti mér þýskur verktaki (á Íslandsferð ) og  sem þekkir vel til sílíkón-þéttinga,  að þéttingarnar  milli glerjanna í Hörpuhjúp  væru  víða  misjafnar á breiddina (of mjóar eða of breiðar) og  misdjúpar,  holóttar, bólóttar,  með  hökum og  misfellum  sem þýddi að vatn gæti átt  þar greiðan  aðgang inn að stálinu.  Hann taldi að  víða þyrfti að fara yfir þetta  aftur.

*Minna má á að íslenskir  málmsuðumenn , sem  hafa fengið verðlaun erlendis fyrir frábæra málmsuðu,  fengu alls  ekki  að koma  að verkinu.  Forsvarsmönnum  málmtæknimanna sem fengu mig til að líta á vinnuna  með  sér var ekki skemmt.

NB:   Ég er með fjölda  mynda  af  ryðinu yfirmálaða (nýju og eldra),  klasturslegu  málmsuðunum  og víða  misjöfnu  sílíkonfúgu-þéttingunum  ef  lesendur óska  (Ekki er hægt að sýna nema 3 myndir á vefnum með greinum).

NB:  Ég skora á kollegana að fara og skoða ofangreind atriði og sannreyna hvort þeir yrðu ánægðir með  þetta  sem  arkitektar.

Með bestu kveðjum –Örnólfur

 

 

 

 

 

 

17 Responses to TJASL og FLÆKJUR í HÖRPU-strengjum
 1. Ríkharður Kristjánsson
  september 23, 2011 | 12:13

  Það er sérstakt með hann Örnólf. Hann er eins og skógareldur sem kviknar stöðugt á nýjum stöðum. Ég var búinn fyrir all löngu að svara síðustu greininni hans í röðinni „Nýtt ryð í nýjum Hörpustrengjum“ án viðbragða af hans hálfu en þá kviknar allt í einu ný röð sem nú heitir; „tjasl og flækjur í Hörpustrengjum“.

  Ég ætla hér að svara athugasemdum hans ekki síst með það í huga að nú beinast þær að hluta gegn mjög færum íslenskum iðnaðarmönnum sem voru undirverktakar hjá okkur í ÍAV. Fram til þessa hafði þetta mikið beinst gegn Dönum og Kínverjum sem kannski tóku ekki mikið eftir því að einhver var að hamast gegn þeim á Íslandi.

  Að hluta snúa athugasemdirnar að útliti hússins og þar verð ég sem verkfræðingur vitanlega að hneigja höfuð mitt í hljóðri auðmýkt.

  Í greininni hér að framan er fjallað um móðugler. Það er rétt að af öllum þeim þúsundum rúða sem eru í húsinu komu nokkar til landsins þannig að samlímingin sem býr til einangrunarglerið hafði bilað. Nokkrar biluðu einnig í uppsetningu sem er vandasöm og reynir á líminguna. Rúðurnar voru engu að síður settar upp til að loka húsinu en nýjar rúður framleiddar í Kína og þeim er svo skipt út eftir því sem þær berast til landsins. Í oktober verða þessar rúður horfnar.

  Örnólfur gerir miklar athugasemdir við horn hússins og kallar klúður og klastur. Horn hússins verða til þegar mismunandi form með mismunandi halla mætast. Tvívíðar hliðar austur- og vesturveggja mæta þrívíðum formum suðurveggja undir mismunandi halla. Og þannig verða hornin til og ekkert reynt að fela í þeim samskeytum. Ég get ekki séð að þetta sé vandamál en vitanlega geta menn haft á því mismunandi skoðum. Menn geta leikið sér að því að taka form glervirkisins og halla þeim á mismunandi vegu og sjá hvernig hornin verða til.

  Mér þótti verra þegar hann beinir athugasemdum sínum að flísalögninni á jarðhæð. Þessi flísalögn var unnin af mjög þekktu íslensku fjölskyldufyrirtæki sem á sér langa sögu í flísalögn. Ég þekki ekki aðra sem hefðu gert þetta betur því það er mjög erfitt að leggja svona fúgulausa lögn. Hitt er svo annað mál að það er nærri ómögulegt að leggja flísar innan við glerveggi sem snúa í vestur án þess að einhverjar misfellur sjáist. Kvöldsólin rétt rennur yfir flötinn og minnstu ójöfnur sem eru langt innan við allar staðalkröfur sem marka nákvæmnismörk verða sýnilegar. Þetta ætti Örnólfur að vita mjög vel.

  Sama gildir um gagnrýni Örnólfs á handriðssmíði. Þessi smíði var unnin af frábærum íslenskum málmsmiðum og varla hægt að finna misfellur í þeim einum og hálfa kílómeter sem þeir smíðuðu.

  Ég veit svo ekki hvað Örnólfur á við þegar hann talar um „Tötralega útfærslu á lóð“

  Ég get líka ómögulega svarað því þegar einhver „þýskur verktaki“ á að hafa fundið misbreiðar silionfúgur sem allt í einu eiga að vera of breiðar eða of mjóar. Ég verð eiginlega að segja, So what“. Spurningunni um það hvort fúgur séu of mjóar er svarað með því að reikna hreyfinguna á þeim og breiddin verður að vera visst margfeldi af því. Ég gat ekki séð að þýski verktakinn hans Örnólfs hafi reiknað það í Hörpu.

  Ég get ekki neitað því að bera vissa virðingu fyrir þrautseigju Örnólfs í þessu máli. Vitanlega mun þurfa að halda Hörpu við og það mun kosta sitt. Vitanlega mun einhvern tímann koma fram leki í Hörpu eins öðrum glerbyggingum á Íslandi. Og ég ætli að vita það því ég hef gert við þær flestar og þær margar frægar.

  Ég vildi þó óska þess að Örnólfur hefði beitt sér ,þegar hann var enn að teikna hús, í því að draga úr því tugmilljarða tjóni sem vitlaust hönnuð íslensk hús hafa kostað eigendur sína.

  Ég skrifaði bók þegar 1979 um galla í íslenskum húsum þar sem ég benti á að steinhús sem væru einangruð að innan væri eðlisfræðilega vitlaust hönnuð. Það koma fram þvingunarspennur í útveggjunum sem valda sprungum og lekum. Þessir lekar eru hönnunargallar og þó héldu arkitektar eins og Örnólfur áfram að teikna húsin sín einangruð að innan.

  Það má svo segja að Íslendingar hafi svo verið heppnir í óheppninni því við notuðum plasteinangrun og límdum upp með sementsmúr. Á mörkum einangrunar og steypu getur fallið út raki oft á ári. Þetta eru kjöraðstæður fyrir sveppi en sem betur fer er sveppum meinilla við sement svo þetta verður sjaldan vandamál.
  En menn þurfa ekki nema skipta út efnunum þá verður þetta bullandi vandamál því húsin eru í grundvallaratriðum vitlaust hönnuð.

  Plasteinangrunin og pússningin að innan er líka hljóðfæri sem flytur hljóð milli hæða í fjölbýlishúsum þannig að það er ekki hægt að uppfylla hljóðkröfur reglugerðar í hefðbundinni blokk einangraðri að innan með plasti. En svona hús er verið að teikna enn í dag.
  Síðan teiknuðu margir utanáliggjandi kanta sem tengdust innveggjum og plötum. Einnig þetta er rangt. Það myndast spennur í þessum köntum, þeir klofnuðu í miðju og og frost- og alkaliskemmdir fóru á fullt. Þetta skraut er nú horfið af mörgum húsunum því frostið braut það niður.

  En að allt öðru. Nú er verið að skrifa söguna og menn að festa sig í sessi í tengslum við Hörpu.
  Ég las með ánægju skrif Hilmars Þórs í frábærri þáttaröð sinni á Eyjunni þar sem hann er að skrifa um fjölmiðlaumfjöllun um Hörpuna erlendis. Það er viss sirkus í gangi í kringum arkitektúr og listir í heiminum og hefur lengi verið. Íslenskir arkitektar hafa ekki verið alveg lausir við að vilja fá hlutverk í sirkusnum enda væri það svo sem undarlegt. Verktakar eins og ÍAV hafa hins vegar verið mjög óduglegir við að dansa með í sirkusnum enda er svo að sjá í umfjölluninni að húsið hafi bara verið hannað en enginn hafi byggt það.
  Þetta er raunverulegt vandamál í tengslum við þróun iðngreinanna. Það þurfa allir hrós og þegar flott hús er byggt þenja arkitektarnir brjóstið og taka við heiðursskjölunum en iðnaðarmennirnir eiga að klappa.
  Það hefur lengi verið í gangi eyðileggingastarfsemi í tengslum við ímynd iðnaðarmanna allt frá sjöunda áratugnum þegar menntayfirvöld lýstu því yfir að allir ættu að fara í háskóla sem táknaði að hinir sem gerðu það ekki væru heimskir.

  Við hjá ÍAV erum mjög stolt yfir Hörpunni og það á bæði við um okkur sem stjórnuðum verkinu og iðnaðarmennina alla sem í raun byggðu hana. Við vorum með fólk frá fjölda þjóða og reyndum að meðhöndla alla með virðingu og skilningi á aðstöðu þeirra, bakgrunni og mismunandi menningu. Við fórum m.a. á námskeið í menningu Kínverja.
  Þegar ég er spurður um það hvort þetta sé ekki merkilegasta verkefnið sem ég hafi tekið þátt í þá svara ég því neitandi.Það var endurreisn Hóladómkirkju með ótrúlega færum arkitekt, Þorsteini Gunnarsyni, frábærum verkkaupa og stórkostlegum iðnaðarmönnum af svæðinu og sögulegum bakgrunni sem var engum líkur. En svo kemur Harpa.

 2. Örnólfur Hall
  september 28, 2011 | 11:31

  SKÝRINGAR MEÐ GREIN HÉR Á UNDAN : TJASL OG…………..

  Þetta átti að standa með myndunum en datt út við innfærsluna á vefinn:

  2. mynd: Hvað gerðist hér ?- Var þetta svona á 8000 teikningunum heimsfrægu ?

  3. mynd: Ryðtaumar sjást leka úr norðurhlið Hörpu – Nú verður erfitt að mála yfir .

  Ég hefði viljað hafa fleiri myndir með:

  1) Hafa með eina mynd af ljótum málmsuðum í norðurvegg og í handriðunum t.d miðhandrið neðst í stóra stiganum (samskeytin þar). Ég hefði líka vilja sýna mynd af samsetningu í miðju af sama handriði.

  2) Eins að sýna misfellur í flísum og t.d. frágangur við súlu í horni við suðurvegg. Er með myndir af þessu.

  3) Ég hefði viljað sjá hugmyndaríkari og virðulegri útfærslu á lóðinni. Svona er hún fátækleg (tötraleg) ekki virðulegri en bílaplan. Sama er að segja um 4 aðalhurðirnar – engin virðuleiki við innkomu . Bara venjulegar verslunarhurðir. Hefði vilja sýna myndir af þessu.

  4) Dæmi um misfellur í sílíkonfúgum, sem Þjóðverjinn benti á. (Hök og lítil göt og einnig sést að efnið hefur farið ,sumsstaðar, út á rúðurnar).

  NB: En það er því miður ekki hægt að sýna með greininni fleiri en 2 aukamyndir (3 alls).

  PS: 5 kollegar o.fl. hafa skoðað ofannefnd atriði með mér.

 3. Örnólfur Hall
  september 30, 2011 | 11:51

  HÖRPUPISTLAR, HÖNNUNARSTJÓRI og ÉG Í ÞRIÐJU PERSÓNU

  Hönnunarstjóri talar til mín í þriðju persónu eins og áður þegar hann notaði tilvitnanir í þjóðskáldin til að eld-messa yfir mér og sem auðvitað átti kynda undir mér.
  Undir eldmessunni varð ég fyrir hálfgerðu spennufalli þegar eldtungurnar dofnuðu við að ruglast var á þjóðskáldum.
  Nú talar hann um að ég kveiki elda – en er það nokkuð nýtt að eldar kveikni í eldsmat í eldborgum (Það hefur ítrekað gerst áður)?

  NÓG KOMIÐ AF PISTLASKRIFUM ?
  Mér skildist svo að það væri búið að skella á mig hurðum og segja að nóg væri komið af þessum bévít… pistlaskrifum og ég gæti verið úti í kuldanum. Ef svo er ekki er gott að vita að ég megi koma inn aftur og orna mér við Hörpu-elda.

  AF PISTLUM OG ENDURTEKNINGUM
  Mér leiðist að endurtaka mig en ég taldi mig hafa komið til skila flest öllu því að sem ég vildi sagt hafa og benda á og á margar myndir (hátt á annað hundrað) af Hörpuframkvæmdinni til að árétta mál mitt. Ef enn má bæta við má gera það.

  AF MIÐUR GÓÐRI FAGVINNU
  Óvandað verk þarf ekkert endilega benda til slakar hæfni. Menn geta verið settir í slíkar aðstæður (undir pressu) með verk að útkoman verði dapurleg (t.d. vegna þröngra tímasetninga s.s. opnunar eða vígslu mannvirkis). Veggjamenn þurftu t.d. að hamast fyrir opnun og vígslu. Í öllum störfum geta menn lent í slíkum hremmingum. Það á við um Íslendinga jafnt sem útlendinga. En það afsakar ekkert. Ég hef kynnst fjölda frábærra iðnaðarmanna sem mega ekki vamm sitt vita og hafna frekar verki en að láta frá sér óvönduð verk. Ég ber mikla virðingu fyrir slíkum mönnum.

  AÐDÁUN OG ÞRAUTSEIGJA
  Hönnunarstjórinn dáist af þrautseigju minni og ber að þakka það. Ég virði líka þrautseigju hans við að verja glerbáknið “heilaga,” ofurdýra og umdeilda sem ekki má gagnrýna eða anda á án þess að fá yfir sig, frá varnarliði, aðdáendum og “elítu”fólki, smáskítleg fúkyrði og nafngiftir (+eitruð símskot að næturþeli).

  AF VITLAUST HÖNNUÐUM HÚSUM (R.K. um hönnun)
  Strax eftir námslok flutti ég í blokk sem verður mér æ hugstæð fyrir hönnunina.* sperruverkið og steypugæðin íslensku (sementið/alkalíplágan). Blokkin lak bæði að ofan og til hliðanna.
  Steypan lak, sperrurnar losnuðu upp og plöturnar fuku burt þegar hin fræga “Ellen” gekk yfir landið. Einangrunin varð að grjónum -eða graut. Ég man ekki hver hafði með verkfræðivinnuna að gera en það skiptir ekki máli. — Ég einbeindi mér svo að að hjálpa eigendunum við að leita réttar sins en lítið kom út úr því. Tjónið lenti á þeim. Ég lét heyra í mér hátt og lengi eftir þessa reynslu. Ekki man ég eftir að verkfræðingar tækju undir. Það var endalaust verið að skrifa einhverjar steypurannsóknar-skýrslur en fátt gerðist raunhæft í gæðamálum.

  NB: Kollegar komu hvergi nærri. *

  AF SJÁLFSÁNÆGJU
  Það er gott þegar menn eru ánægðir með sjálfa sig og hrósa sjálfum sér s.s. fyrir 8000 teikningar heimsfrægar m.a. af suðurvegg sem þurfti í tvígang að byggja upp en 4 sérfræðiaðilar komu að og áttu að gæta þess að allt væri í lagi en samt varð að slátra veggnum.

  Af ÖÐRUM SJÓNARMIÐUM UM HÖRPU:
  Ekki eru allir sammála “halelúja”kórnum um Hörpu hvorki hér heima eða erlendis. T.d. komu hér í fyrra 25 norskir arkitektar til að halda upp á 25 ára starfsafmæli og og kollegi minn fór með þá í skoðunarferð í Hörpu. Í miðjum klíðum í skoðuninni sögðu norsku frændurnir og kollegarnir : Ekki meir…. ekki meir og vildu út .

  Berlingskur sagði sposkur, á sínum tíma, að danskir arkitektar teiknuðu nú tónlistarhús fyrir Íslendinga með glerhjúp eftir hinn danska heimslistamann Ó.E.

  Gagnrýnandinn Rowan Moore hjá Observer, sem boðið var í Hörpuvígsluna (Elítuveisluna) rándýru, gerði stólpagrín af Hörpu og sagði (í The Guardian) húsið virðast vera á röngum stað og líkt að 64 tommu sjónvarpi væri komið fyrir í hjólhýsi. Hann undraðist að Ísland sem er álíka fjölmennt og borgin Ipswich skuli reisa slíkt tónlistarhús eftir að hafa verið barið af breskum hryðjuverkalögum. Hann sagði hana vera barn sins tíma, tíma sem einkenndist af fjárhagslegum ofsjónum.

  Hönnuðurinn (arkitektinn) Einar Þorsteinn höfundur Gullinfangsins (frumskapnaðar suðurveggjarins tvíreista) segir á þá leið í Fréttablaðinu (28/5) að hann hefði ekki valið þessa staðsetningu fyrir Hörpu og bendir að leigubílstjórar fari ekki Skúlagötuna í norðanátt vegna sjávarseltufoksins.

  -Hönnuðurinn – Einar Þorsteinn er greinilega athugull og glöggur listamaður.

  Erro sagði, aðspurður um Hörpu, eitthvað á þá leið að hann hefði heldur viljað sjá Esjuna áfram.

  -Erro er árvakur og skondinn listamaður.

  Með vinsemd og góðri kveðju -Örnólfur

 4. Ríkharður Kristjánsson
  október 7, 2011 | 16:36

  Það er rétt að ég tala til og um Örnólf í þriðju persónu og mun gera það áfram.
  Ástæðan er sú að skrif hans birtast ekki á einhverri bloggsíðu Örnólfs heldur á opinberri síðu arkitektafélags Íslands undir dálknum fréttir eða greinar. Mjög margir þ.á. m. fjölmiðlar líta á skrif Örnólfs sem opinbert álit Arkitektafélags Íslands. Hvort það er rétt veit ég svo ekki.
  Örnólfur kvartar yfir fúkyrðum og símskotum að næturlagi. Ég verð að játa að ég get ekki látið mér detta í hug að einhver ástundi slíka iðju vegna pistlanna hans, alla vega erum við hjá IAV saklausir.
  Húsið og gestirnir hússins svara eiginlega öllum athugasemdum hans. Vitanlega má alltaf deila um um útlit og hvort horn sem eru „látin verða til“ í samspili tveggja flata hefðu átt að verða öðru vísi. Ég lít ekki á það sem hlutverk mitt að verja bygginguna sem slíka enda mun mín ekki verða getið þegar fjallað verður um hana. Ég er einungin að svara rangfærslum og ranghugmyndum sem snerta bygginguna, verk ÍAV og undirverktaka okkar hvort sem þeir eru kínverskir eða íslenskir. Það er nóg að lesa blöðin og sjá hrifningu gesta og tónlistarflytjanda til að skynja hrifningu fólks yfir húsinu.
  En vitanlega eru til gagnrýnisraddir. Ekkert stórhýsi á Íslandi hefur verið byggt án mikillar gagnrýni á útlit, staðsetningu eða kostnað og það getur verið fróðlegt að lesa umræður um Seðlabankann, Ráðhúsið, Perluna, Hæstarétt, Orkuveituhúsið og enn lengra aftur Þjóðleikhúsið.
  Örnólfur heldur samt áfram að þrástagast, nú í tímaríti VM, á að gluggakerfið sé að ryðga í sundur sem og burðarsúlur. Ég hvet bara lesendur þessarrar síðu ef einhverjir eru að fara og skoða húsið. Það er algjörlega óumdeilt að það voru ryðblettir á yfirborði stálsins í uppsetningu og það láku ryðtaumar af stálinu. Það þurfti að slípa hornin til og sjóða einingar saman mjög víða. Þessir staðir voru óvarðir um hríð og ryðguðu eins og eðlilegt var. Þeir voru síðan hreinsaðir og málað yfir með þykku málningakerfi áður en glerið var sett upp sem breytti þeim í innistál. þetta er búið að segja margoft.
  Það virðist einnig nást illa að leiðrétta þá vitleysu að ryðmyndum hafi valdið því að ákveðið var að taka suðurhliðina niður. Það er fráleitt. Hægt er að lesa um það mál í Árbók verkfræðinga og tæknifræðinga 2010 og í Tæknivísi 2011 þar sem vandamálinu er lýst nákvæmlega. Stálið í hornunum var einfaldlega of stökkt til að hægt væri að láta það vera uppi. Bakgrunnurinn var ónóg eftirhitun eftir steypun.
  Örnólfur svarar skrifum mínum um vitlaust hönnuð íslensk hús með undarlegri dæmisögu af húsi sem lak allt og þar sem þakið fauk af í storminum Ellen 1973. Hann hafi hjálpað eigendum við að leita réttar síns en án árangurs og virðist kenna það því að verkfræðingar hafi verið uppteknir við að skrifa skýrslur um steypurannsóknir. Það er greinilegt að þetta mál hefur ekki farið í réttan farveg. Þetta hefði átt að fara beint í dómskerfið en ekki í meðhöndlun hjá Örnólfi sem greinilega skilaði engu.
  Hvað steypuskýrslurnar áhrærir þá byrjaði ég að vinna við steypurannsóknir síðla árs 1977. Þegar árið eftir var ákveðið að banna steypuefnið sem olli alkaliskemmdunum og skömmu síðar var farið að blanda kísilryki í allt sement. Alkaliskemmdirnar hurfu, svo vart er það rétt hjá Örnólfi að lítið hafi gerst í gæðamálunum. Þetta voru dæmigerðar rannsóknir sem skilu árangri strax og skiluðu sér strax út í þjóðfélagið og ég skrifaði ákvæði í byggingarreglugerð um steypumál á þessum árum.
  Það sem ég skrifaði um ranga hönnun útveggja skilaði sér hins vegar mun hægar enda voru Örnólfur og félagar ekki fastagestir á fyrirlestrum mínum. Ég hélt þó fyrirlestra um ályktanir mínar um það hvernig hægt væri að byggja þétta útveggi sem einangraðir voru að innan. Þetta snerist um að velja rétta bendiprósentu þannig að sprunguvíddir væru undir vissu gildi sem ég reiknaði með að dygðu. Þetta byggði á rannsóknum Falkners í Stuttgart sem hafði rannsakað samband bendiprósentu og sprunguvídda. Hugmyndir Falkners gengu síðan inn í evrópustaðla en breyttar sem veldur að mínu mati allt of mikilli bendingu í þykkum byggingarhlutum en það er nú önnur saga. Það vantaði að vísu í rannsóknir Falkners tenginguna við vindþrýsting og leka en ég leysti það fræðilega. Seinna rannsakaði Rögnvaldur Gíslason þetta samband og staðfesti hugmyndir mínar.
  Það lágu því fyrir þegar upp úr 1979 nægar upplýsingar fyrir verkfræðinga að hanna járnbendingu í vitlaust uppbyggða útveggi til að koma í veg fyrir leka. Vitanlega gat járnbendingin ekki komið í veg fyrir kuldabrýr eða hættuna á rakaþéttingu við útvegg vegna þess að aðalrakasperran er utan við einangrun. Á þessum tíma voru heilu blokkirnar hins vegar byggðar með járnum kringum glugga og op en ekkert meir í útveggjunum. Það er verkfræðistéttinni til skammar.
  Ég skora á Örnólf að skoða hvað þessi vitleysa hans eigin kynslóðar af verkfræðingum og arkitektum hefur kostað þjóðina og mun gera um langa framtíð. Það væri hægt að byggja nokkrar Hörpur fyrir þá peninga.
  Ég var svo heppinn að geta komið hugmyndum mínum um vatnsþétta steypu í notkun þegar Ráðhús Reykjavíkur var byggt en þar var ég ráðgjafi borgarinnar í gæðamálum í hönnun og útfærslu. Nokkru áður hafði byggjandi stórhýsis í Reykjavík kallað mig til til að reyna þétta það hús. Þar lak allt sem lekið gat. Þykk botnplatan, útveggir kjallarans, þensluskil, klæðningin, steypan á bak við klæðninguna og gluggarnir. Það tók mig 5 ár að þétta húsið en ég kynnist líka öllum hugsanlegum veikleikum slíkra húsa.
  Ráðhúsið lak hins vegar ekki nema opnanlegir gluggar sem voru byggðir andstætt tillögum mínum en með samþykki Davíðs.
  Og þegar vatni var hleypt að Hörpu lak kjallarinn ekki heldur og gerir ekki enn.
  Og andstætt upphrópunum í Pressunni, höfðum eftir Örnólfi, hefur glerhjúpur Hörpu ekki lekið eftir að frágangi lauk. Það kom mér reyndar á óvart því allar glerbyggingar á Íslandi sem ég hef kynnst hafa lekið í byrjun. Má þar t.d. nefna þak flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem var lengi vel leyst með stórum blómaeyjum á gólfinu. Sama lausn var viðhöfð í húsi Erfðagreiningar við opnun og víðar. Yfirleitt eru veikleikar í þéttingum glerhúsa í byrjun sem þarf að laga og það hafði ég reiknað með að þurfa að gera í Hörpu einnig og reikna reyndar með enn.
  Ég undrast svolítið þekkingarskort jafn þekkts arkitekts og Örnólfs á þéttingum glerkerfa þar sem hann álítur að kíttið sem lokar milli glerjanna að utan sé þétting glerkerfisins. Svo er vitanlega alls ekki. Aðalþéttingin liggur í innri þéttingunum þar sem glerið leggst að silikonborðum og í innri toppfyllingum. Þetta er grunnurinn að tveggja þrepa þéttingum og ysta þéttingin sem oft er alls ekki vatnsþétt er vind og regnvörn. Á bak við silikonið er dren og loftunarkerfi sem bæði drenar burt vatn sem kemst á bak við sílikonið og þurrkar rýmið.
  Kerfið fór opið í gegnum íslenska vetur löngu áður en ysta silikonið var sett í og lak hvergi nema þar sem var bráðabirgðafrágangur þar sem vantaði rúður.
  Í tímariti VM hefur Örnólfur fengið inni með sömu vitleysurnar og ég hef svarað margoft áður. Og fjölmiðlar taka þetta fegins hendi þvi alltaf er gott að benda á „svindl og svínarí“ og svo er alltaf gott að ráðast á útlendinga og upphefja Íslendinga. Ekki veitir af. Formaður VM tekur svo undir með Örnólfi enda snýst gagnrýni á Hörpu töluvert um atvinnumál.
  Í greininni segir m.a.:“Ef ég man rétt þá var umræðan í þá veru varðandi hjúpinn að íslensk fyrirtæki réðu ekki við verkið. Sú umræða var móðgun við okkar fólk. Að mínu viti voru það annarleg sjónamið sem réðu ferðinni.“
  Glerhjúpurinn var boðinn út í júní 2007 á alþjóðlegum (og íslenskum) markaði. Íslenskum málmiðnaði var vissulega frjálst að bjóða í verkið eða bjóðast til að gerast undirverktakar erlendra bjóðenda. Það kom hins vegar bara eitt tilboð í verkið, frá Lingyun í Kína. Ekkert tilboð kom frá stóru fyrirtækjunum í Evrópu og vitanlega ekkert frá íslenskum málmfyrirtækjum
  Það er barnaskapur að halda að íslensk málmiðnaðfyrirtæki hefðu ráðið við þetta verk jafnvel þó þau hefðu ráðið sér útlenska deilihönnuði því það átti eftir að fínreikna og deilihanna allt kerfið og gera allar útfærsluteikningar. Það unnu á annað þúsund manns bara við smíði á suðurveggnum einum í fjórum stálsteypum og í heild voru yfir 2000 manns sem unnu við glerhjúpinn í Kína.
  Jafnvel þó þýsk fyrirtæki hefði boðið í verkið hefðu þau látið vinna verkið í Kína. Þýsku bílaverksmiðjurnar eru viðskiptavinir þeirrar stálsteypu sem steypti meirihluta af hornunum í endurgerð suðurveggsins. Í dag fer nær öll stálsteypa fyrir evrópskan markað fram í Kína eða Indlandi.
  Ég held að Örnólfur og formaður VM hafi ekki skilið almennilega hvernig kubbaveggirnir eru gerðir. Það eru átján þúsund horn sem eru steypt í suðurveggnum. Fyrir hvert og eitt einast horn er búið til vaxmót með öllum boltagötum og tengistykkjum sem síðan er umlukið sandi með bindiefni sem er hertur og bakaður og vaxið síðan fjarlægt. Í sandmótið er síðan hellt bráðnu stáli sem er látið kólna og sandmótið er svo brotið utan af. Síðan þarf að taka stálstykkið og setja í ofn og hita upp í 920 gráður og kæla hægt niður aftur. Þá loksins hefur stálið fengið sína réttu eiginleika
  Hornin sem eru steypt í sandmóti hafa allt aðra áferð en prófílar úr plötustáli sem tengja hornin saman. Hornin eru raunverulegt handverk og það var tekin ákvörðun að reyna ekki að fela það hvernig kubbarnir eru búnir til. Stálsteypa úr sandmótum er í eðli sínu óslétt og hrjúf. Það var ekki sett fram sú krafa að allt væri slétt og fellt og slípað niður frekar en gert er við handunna keramik. Það sem greinir handunnin listaverk frá verksmiðjuframleiðslu er ófullkomleiki mannshandarinnar. Í raun eru kubbarnir handunnin stykki sem skeytt saman mynda stórt listaverk Ólafs Elíassonar.
  Þegar formaður VM setur fram þá kröfu að sett verði upp merking sem segi „ Made in China“ þá er í því mjög óþægilegur þjóðernishroki og ofmat á eigin verðleikum.
  Ég held að við sem byggðum Hörpu getum alveg tekið undir það með Einari Þorsteini Ásgeirssyni sem átti grunnhugmyndina að formi kubbanna sem mynda suðurvegg Hörpu að það hefði verið gott að hafa Hörpu annars staðar. Okkur og Kínverjunum hefði þá ekki verið svona kalt og það er mjög erfitt að byggja stálvirki á svona stað. En þarna var búið að marka henni stað og staðsetningin hefur marga töfra.
  En skemmtilegt væri nú ef Einar Þorsteinn fengi viðkenningu hér heima eftir að hafa starfað á Íslandi við litlar undirtektir fyrir mörgum árum.
  Svo finnst mér það svolítið snobb hjá Örnólfi að draga fram Erro í tilraun til að hnýta í Hörpu en hann hefur sagt að hann vildi frekar sjá Esjuna en Hörpu. Það á við alla sem hanna og byggja áberandi mannvirki að mörgum finnst að mannvirkin skyggi á náttúruna. En Erro er ekkert merkilegri en hver annar þegar kemur að því að hafa álit á Esjunni.
  Hins vegar er það svo með mig og fleiri sem eru aldir upp í Arnarfirði með hvassa múlana sem ganga þverir í sjó fram öðru megin og vestfirsku Alpana hinum megin að við skiljum ekki neitt í aðdáuninni á Esjunni en það er svo allt önnur saga.
  Ríkharður Kristjánsson

 5. Örnólfur Hall
  október 7, 2011 | 18:04

  Enn nýtt úr HÖRPU-„æfintýrum“

  PENINGAHÍTIN HARPA étur BÖRNIN SÍN út á GADDINN:

  Sinfóníu-fólkið er haft á sultarlaunum og fær þau ekki heldur á réttum tima. Mælirinn er fullur segir það og nú ætlar það að fara í verkfall.
  Peningatankurinn (ríkis-og borgar = skattpeningarnir okkar), sem hefur verið mokað úr í bruðlið og óráðsíuna í Hörpu, er kominn með tómahljóð. Peningar eru ekki til lengur til að borga fólkinu mannsæmandi laun.

 6. Örnólfur Hall
  október 7, 2011 | 18:12

  SPURT UM PENINGAHÍTINA HÖRPU Á ALÞINGI:

  140. löggjafarþing 2011–2012.
  Þingskjal 47 — 47. mál.

  Fyrirspurn
  til mennta- og menningarmálaráðherra um tónlistar-
  og ráðstefnuhúsið Hörpu við Reykjavíkurhöfn.

  Frá Merði Árnasyni.

  1. Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á stjórnskipan og rekstrarformi Hörpu?
  2. Hver er nú áætlaður heildarkostnaður við byggingu hússins? Hvaða framkvæmdum er enn ólokið við smíði mannvirkisins?
  3. Hversu mikið fé var afskrifað við yfirtöku verkefnisins eftir hrun og á hvern fellur sá kostnaður?

 7. Ríkharður Kristjánsson
  október 8, 2011 | 16:36

  Að morgni 8. október eftir mikla slagveðursnótt fór ég til að taka út ástandið í eins og Örnólfur kallar það „hripleku, sundurryðguðu hrákasmíðinni“ Hörpunni eftir mikla slagveðursnótt. Ég var líka að hugsa um að setja upp skiltið „Made in China“ að kröfu Örnólfs og félaga.
  Skemmst er frá því að segja að ég fór yfir alla gluggafletina og fann hvergi merki um leka eða raka, hvergi nokkurs staðar, ekki heldur í glerþakinu eða stóra kubbaveggnum nema hvað einn opnanlegur gluggi hafði verið skilinn eftir opinn því verið var að skipta um mótora í honum.
  Á leiðinni í Hörpuna fór ég hins vegar í sund í einni af nýju sundlaugum höfuðborgarsvæðisins. Þar er suðurveggurinn allur einn glerveggur. Nú bar svo við að ástandið var frekar einfalt. Það lak hver einasta rúða.
  Kannski Örnólfur vilji hengja þar upp skilti: „Made in Iceland“ .
  Ríkharður Kristjánsson

 8. Örnólfur Hall
  október 8, 2011 | 21:58

  Nú hefur Hönnunarstjórinn oflesið og leggur mér orð í munn: Ég sagði hvergi í viðtalinu við VM að Harpa væri nú þegar farin að alryðga og hripleka. Þetta gerist ekki svona snöggt 1.2 og 3. Ég veit um allt ryðið yfirmálaða sem bíður síns tíma (Er með um 50 myndir af því). Ég sagðist óttast það að glerhjúpurinn ætti eftir að leka og þá sérstaklega glerþakið. Það endurtek ég.
  Ég hef fullan skilning á því að málmiðnaðarmennirnir íslensku,félagar mínir, séu sárir yfir hrokanum, vanmatinu og vanvirðingunni sem þeim var sýnd af hálfu stjórnvalda og Hörpuforkólfa. Þar sem fullyrt var að þeirra sögn um vanhæfni og vangetu þeirra til verksins, þrátt fyrir að hafa verið metnir að verðleikum og með verðlaunum í útlöndum. — Það kom flatt upp á mig að ég hefði gert kröfu um skiltið. Skilti datt mér ekki í hug í þessu smbandi. Sá svo í greininni þar sem formaður VM lýsir kröfu málmiðnaðarmanna um skiltið „Made in China“.— En ég hef fullan skilning á sárindum og reiði frábærra málmiðnaðarmanna (sem margir voru og eru atvinnulausir)sem fengu blauta tusku framan í sig frá stjórnvöldum og Hörpuforkólfum og þar á meðal frá þeim sem véluðu og réðu til um verkið.
  Skiltatillagan er smáklór á móti þeirri vanvirðingu og hroka.

  PS: Minnst er á rakamyndun í rúðum á mynd. Raki sem lekur svo ofan í stálið málaða.

  PS: Við skoðun og myndun í dag (8/10) sjá ég ekki betur en að aukið hafi í ryðtaumana úr norðurhlið niður á sjávarvegginn.

  Með vinsemd og kveðju-Örnólfur

 9. Örnólfur Hall
  október 8, 2011 | 22:12

  Nú hefur hönnunarstjórinn oflesið og leggur mér orð í munn: Ég sagði hvergi í viðtalinu við VM að Harpa væri nú þegar farin að alryðga og hripleka. Þetta gerist ekki svona söggt 1..2 og 3.. Ég veit um allt ryðið yfirmálaða sem bíður síns tíma ( Er með um 50 myndir af því). Ég sagðist óttast það að glerhjúpurinn eigi eftir að leka og þá sérstaklega glerþakið. Það stend ég við.
  Ég hef fullan skilning á því að málmiðnaðarmennirnir íslensku, félagar mínir, séu sárir yfir hrokanum, vanmatinu og vanvirðingunni sem þeim var sýnd af hálfu stjórnvalda og Hörpuforkólfa. Þar sem fullyrt var um vanhæfni og vangetu þeirra til verksins, þrátt fyrir að hafa verið metnir að verðleikum og með verðlaunum í útlöndum. — Það kom flatt upp á mig að ég hefði gert kröfu um skiltið. Skilti datt mér ekki í hug. Sá hinsvegar svo í greininni þar sem formaður VM lýsir kröfu málmiðnaðarmanna um skiltið „Made in China“. En ég hef fullan skilning á reiði frábærra málmiðnaðarmanna (sem margir voru og eru atvinnulausir) sem fengu blauta tusku framan í sig frá stjórnvöldum og Hörpuforkólfum. Skiltatillagan er smámótmæli við þá vanvirð-ingu og fyrirlitningu sem sýnd var málmiðnaðarmönnum.

  PS: Minnst er á rakamyndun í rúðum á mynd. Raki sem lekur svo ofan í stálið málaða.

  PS: Við skoðun í dag (8/10) sjá ég ekki betur en að aukið hafi í ryðtaumana úr norðurhlið niður á sjávarvegginn.

 10. Ríkharður Kristjánsson
  október 10, 2011 | 08:56

  Í Pressunni sem byggði á upplýsingum frá Örnólfi og VM stóð:

  „Harpa er hrákasmíði: Ryðguð og lekur – Eins og austur-evrópskur togari – Vilja „Made in China“ skilti.“

  Örnólfur hefur í engu fjallað um þær athugasemdir sem ég hef gert og virðist ekki hafa lesið það sem ég skrifaði um útboð glerhjúpsins 2007. Hann fjallar ekkert um þá spurningu af hverju íslenskir málmiðnaðarmenn buðu ekki í verkið eða leituðu til okkar til að fá upplýsingar um bjóðendur. Svarið er væntanlega einfalt. Á þessum tíma var engin leið að fá menn til að vinna í rokinu niður við höfn. Hann hefur heldur ekkert fjallað um það hvort íslensk málmfyrirtæki hafi haft burði til að byggja glerhjúpinn.
  Í hruninu íslenskuðum við verkefnið að beiðni stjórnvalda og sögðum upp fjölda góðra erlendra iðnaðarmanna. En við gátum ekki sagt upp bindandi alþjóðlegum samningum án verulegra skaðabótakrafna og hvert áttum við svo sem að fara með gerð glerhjúpsins.
  Þegar Örnólfur segir: „Ég hef fullan skilning á því að málmiðnaðarmennirnir íslensku, félagar mínir, séu sárir yfir hrokanum, vanmatinu og vanvirðingunni sem þeim var sýnd af hálfu stjórnvalda og Hörpuforkólfa. Þar sem fullyrt var um vanhæfni og vangetu þeirra til verksins, þrátt fyrir að hafa verið metnir að verðleikum og með verðlaunum í útlöndum.“

  Hvaða hroka og vanvirðingu er Örnólfur að tala um. Las hann ekkert það sem ég skrifaði um útboðið. Að auki var allt fram í verklok mjög erfitt að fá málmiðnaðmenn til starfa og það kemur reyndar fram sem undarleg þversögn í blaði VM.

  Ég reikna svo með að Örnólfur hafi slökkt á silfri Egils í gær þegar austurískur sérfræðingur í rekstri menningarviðburða taldi upp hvað leggja bæri áherslu á varðandi húsið: Sérstöðu Íslands, frábæra staðsetningu við höfnina og arkitektur hússins.

  Og svo þarf ég að fá afstöðu Örnólfs til þess hvort ég á að setja upp skilti: „made in Iceland“ við öll þau ónýtu íslensku hús sem ég vann í 30 ár við að reyna að laga. Eða nýju sundlaugina sem lak öll þegar ekki sást dropi í Hörpu.
  Þá myndu skiltagerðamenn fá mikið að gera.

  Ríkhaður Kristjánsson,
  Hönnunarstjóri ÍAV í Hörpu

 11. Örnólfur Hall
  október 12, 2011 | 08:01

  Við skoðun á Hörpu í fyrradag sá ég að rúða í suðurvegg hafði trúlega fokið burt í vonda veðrinu og var nú komið gult teipað spjald í staðinn. Teip hafa áður komið við sögu Hörpu. – (Á mynd af þessu).

  Vætanlega hefur ringt inn um gatið meðan ekki var fyllt í með spjaldinu. Þetta hefur gerst eftir að hönnunarsjóri fór í leka-könnunarferð um hjúpinn.

  Hönnunarstjórinn ætti að tala við Guðmund Ragnarsson formann VM um hrokann og vanvirðinguna. Hann getur örugglega svarað því hvernig þeir reyndu að koma sér að með sína öflugu þekkingu og færni en án árangurs.

  Greinarhöfundur (Haraldur G.) sem átti viðtalið við mig á væntanlega við rakann í rúðunum og ryðtaumana sem leka niður sjávarvegg í undirfyrirsögninni.

  Ég sagði að víða minntu málmsuðurnar á málmsuður eins og sáust í austurevrópsku togurunum í gamla daga. Fjöldi manna hefur tekið undir það. T.d. kollegar sem skoðuðu með mér húsið.

  Pressan hafði ekkert samband við mig og ég ætla ekki að eltast við skrif hennar. Hún verður að hafa eigin skrif fyrir sig.- En það sem ég sagði eða haft var eftir mér stendur í greininni í VM.

  Ég er lítill skiltagerðarmaður en ég skil vel sárindi og reiði VM-manna.

 12. Örnólfur Hall
  október 12, 2011 | 08:45

  Hönnunarstjóri ! – Ég slökkti ekki á Silfri Egils og hlustaði á austurríska menningarsölumanninn * í Silfrinu sem var nokkuð sérstakur í sölunni.
  Einu sinni var sagt að tilvist Sinfó skapaði þörf fyrir Tónlistarhús.
  Nú er sagt að tilvist Hörpu skapi þörf fyrir Sinfó – annars verði það dýra hús hálf munaðarlaust þarna.

  — Umsnúningur í rökleiðslu er oft afar fyndinn og hefur lengi verið gamanefni heimspekinga.—

  Allir vita þó að Harpa verður að hafa hljómsveit Sinfó eða einhverja aðra. Áhugi aðstandenda (ríki og borg) Hörpu er þó ekki meiri en svo að hún er höfð á sultarlaunum og að ætlar hún nú að fara í verkfall aðdáendum til hrellingar.

  *Hver kostaði annars menningarsölumanninn hingað til lands?

 13. Ríkharður Kristjánsson
  október 12, 2011 | 20:45

  Ég ætla ekki að svara neinu um „sölumanninn frá Austurríki“ eða um Sinfó því mér finnst sú umræða og fleira því skylt mjög sérstæð.

  Ég held að Örnólfur ætti hins vegar að tala við mig áður en hann spinnur miklar sögur eins og um límbandið mikla sem hélt Hörpu saman í roki.

  Nú er það gluggi sem á að hafa fokið burt í rokinu. Svo var bara alls ekki. Lingyun tók þessa rúðu úr til að athuga hvort Samverk gæti framleitt svona rúðu hérlendis til þess að ekki þyrfti alltaf að flytja rúður frá Kína og ég lét þá svo setja spjald í opið eftir að ég fór yfir allt gluggavirkið að leita að leka eftir sundferðina mína góðu í nýju sundlaugina „made in Iceland“. Svo einfalt var það nú.
  Ég hef verið í sambandi við Guðmund Ragnarsson. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á hver hafi sýnt þeim hroka og mun hitta þá og ræða málið.
  Hitt skildi ég að málið snérist að miklu leyti um kröfu um verndarstefnu sem menn vilja að stjórnvöld hafi uppi. Það getur nú orðið ansi tvíeggja vopn því í dag hafa margar verkfræðistofur og verktakar allt að 30% af tekjum sínum erlendis.
  Menn verða að skilja að lokaðar dyr tákna vissulega að enginn kemst inn en það fer þá heldur enginn út.

 14. Örnólfur Hall
  október 27, 2011 | 13:04

  ENN GERAST HÖRPU”ÆFINTÝRI“

  Sitt sýnist hverjum um lóðina (stéttina) fyrir framan Hörpu. Mjög grófir og víða hvassir steinar skiftast þar á, með vissu millibili, við sléttari steina. Ég veit um a.m.k. tvo einstaklinga sem hafa dottið um þá. Annar var erlendur ferðamaður í haust sem meiddi sig og hinn sem nýlega var á leið á samkomu í Hörpu. Hann datt um þá og féll fram yfir sig og svo illa að hann braut í sér framtennurnar. — Hvernig verður þetta í vetur ef snjór er yfir?
  Með kveðju -Örnólfur

  PS: Ég varð standandi hissa þegar ég frétti að þessi lóð hefði verið tilnefnd til verðlauna, í samkeppni í Svíðþjóð, um góða lóðahönnun og viti menn var svo valin ein af þremur.

  PS: Það er tilhlýðilegt að óska höfundunum til hamingju með viðurkenninguna og um leið þeim sem datt góðs bata og góðrar tannsmíði og óska þess að viðkomandi tyggingarfélag Hörpulóðar bæti honum tjónið að fullu.

 15. Ríkharður Kristjánsson
  desember 21, 2011 | 11:02

  Islands nye koncerthus, Harpa, er af det toneangivende, svenske magasin for arkitektur og design, FORM, kåret som årets bedste byggeri.

  ——————————————————————————–

  Harpa – Reykjavik Koncertsal og Konferencecenter er designet af Henning Larsen Architects i samarbejde med Batteriið Arkitekter. Den spektakulære facade mod syd er skabt af den dansk-islandske kunstner Olafur Eliasson i samarbejde med Henning Larsen Architects.

  Harpa topper listen i FORM, der har fem byggerier med. Længere nede på listen finder man Holmenkollen af JDS Architects og 8-tallet af BIG. Magasinet skriver bl.a.: ”Om det nye Harpa Koncerthus er et symbol på det nye, genfødte Island eller det samme Island, der blev ramt af en finansiel hybris, er et varmt emne. Det faktum, at der i Sverige bliver solgt charterrejser, hvor Harpa er hovedattraktionen, tyder på, at optimisterne har fået ret.”

  Harpas facade mod syd er inspireret af de geologiske basaltstensformationer langs Islands kyst. De øvrige facader og taget viderefører sydfacadens geometri. Glasset indfanger solens lys og himlens farver og står om dagen som en stor lysende skulptur, der spejler himmel- og havnerummet. Facaden skifter farve alt efter vejret og tiden på dagen og året.

 16. Örnólfur Hall
  janúar 6, 2012 | 13:25

  FJÖLGAR enn föllnum GESTUM
  Ég hitti svo kollega í sundi,fyrir jól,sem sagði mér frá enn einum Hörpu-gestinum sem hefði átt í „stéttabaráttu“ við Hörpu sem lauk með handleggsbroti. Þá vitum við um a.m.k. þrjá sem eru hrasaðir og slasaðir. Ja..hérna.. hvernig endar þetta ?

  ÁRAMÓTASKAUPIÐ og HARPAN
  Áramótaskauparar gengu hart fram í háðinu á Hörpu og voru svo nöturlegir að okkur svokölluðum “músarholumönnum og úrtölupakki“ brá. Héldum að þetta mætti ekki í skjaldborginni RÚV. Hvernig skyldi þá Harpverjum (“Halelúja”fólkinu) hafa líkað ?
  Mgk -Örnólfur

 17. Ríkharður Kristjánsson
  janúar 11, 2012 | 16:20

  Harpa meðal tíu bestu tónlistarhúsa nýs árþúsunds
  Í splunkunýju janúar-hefti Gramophone tónlistartímaritsins er umfjöllun um tíu bestu tónlistarhús nýs árþúsunds . Þar á meðal er Harpa í Reykjavík.

  http://www.gramophone.co.uk

  Umfjöllunina um Hörpu má sjá hér:

  “ „The magnificent Harpa concert hall, located on Reykjavík harbourside, is unusually defined by its facade. It‘s a powerful statement created by fusing the creative visions of Danish firm Henning Larsen Architects and internationally acclaimed artist, Olafur Eliasson. The sparkling glazed fenestrations transform the public areas, which are now often seen as being almost as important as the performing spaces themselves. Advances in acoustic technology over the past few decades have now removed the mystique in designing auditoria; much of this work now falls to specialist enginieers. It is probably no coincidence that although Eliasson is Danish, his parents are Icelandic, allowing the citizens of Iceland to have at least part ownership in this world-class success at a difficult time in their history.“ (Michael Hammond)

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00