ARKITEKTÚR – tímarit um umhverfishönnun

ARKITEKTÚR – tímarit um umhverfishönnun, 1. tölublað 2012 er komið út. Útgefandi er Arkitektafélag Íslands og Félag landslagsarkitekta, Ritstjóri er Bjarki Gunnar Halldórsson  FAÍ. Í ritnefnd eru Kristín Þorleifsdóttir FÍLA, Anna María Bogadóttir FAÍ, Lilja Filippusdóttir FÍLA og Harpa Heimisdóttir FAÍ. Um hönnun sáu Borghildur Sölvey Sturludóttir FAÍ og Anders Möller Nielsen FAÍ og MAA. Blaðið er óvenju glæsilegt að þessu sinni og hefur líklega aldrei verið efnismeira. Auk leiðara og umfjöllunar um samkeppnir um umhverfi Norræna hússins, Karastaðastígs á Þingvöllum og göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru í blaðinu 19 greinar um arkitektúr og umhverfishönnun. Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt FAÍ skrifar skemmtilega og gagnrýna grein um Hörpu, Garðar Snæbjörnsson arkitekt FAÍ fjallar um hinn athyglisverða Brunareit og Kvosina, danski arkitektinn Stig Lennart Andersson MAA, MDL fjallar um þróun borgarlífs, Kristín Þorleifsdóttir, Phd. og landslagsarkitekt FÍLA fjallar um markaði svo aðeins fátt eitt sé nefnt af öllu því vandaða efni sem í blaðinu er. Blaðið er prentað í prentsmiðjunni Odda, það kostar 1250 kr í lausasölu en allir félagar í AÍ fá það sent heim sér að kostnaðarlausu.

3 Responses to ARKITEKTÚR – tímarit um umhverfishönnun
 1. Örnólfur Hall
  september 20, 2012 | 09:36

  Er „ARKITEKTÚR“ orðið sjaldséð GLANSTÍMARIT ?

  Oft saknar maður gömlu góðu Arkitíðindanna sem komu oft út og þar sem var margur vettvangurinn (t.d. Potturinn og Spjallrásir) fyrir tjáskifti og umfjöllun um Arkitektúr og annað honum tengt fyrir kollega. Nei… það mátti ekki lengur og var Arkitíðindum slátrað af einhverjum óþekktum ástæðum. Ef til vill hefur þáverandi stjórn fundist að menn væru farnir að tala of tæpitungulaust.
  Þar var áherslan ekki lögð á umfjöllun um einhver tískuverk með ofurglansmyndum eða grafíkorgíum heldur líka á góðan og vandaðan arkitektúr með góðri og vandaðri efnisnotkun og fagvinnu sem líka er arkitektur.
  Við erum súrir margir kollegar að ekki skuli einhverjum, af fjölda okkar Hörpugagn-rýnenda, hafa verið boðið að skrifa grein um það sem aldrei er myndað (t.d. ófagrar útfærslur ,frágang o.fl.).
  Þetta ofurdýra, formfátæka glerskrautsbákn sem hyllingarkór Hröpuaðdáenda þreytist aldrei á að mæra þó margt þar sé þar öfugsnúið og kallist á engan hátt við „karakter“ Reykjavíkurborgar. Það stendur þarna eins og „kuríósítet“ eins og einn glöggur kollegi sagði.
  Frá vordögum 2010 höfum við kollegi Guðmundur Kr. fylgst með„smíðinni“ á „glerhöllinni“ en þar kennir ýmissa ófagura grasa fyrir utan allt annað. Fyrri suðurvegg Hörpu, ryðguðum og gölluðum, var slátrað eftir að hafa verið byggður áfram þrátt fyrir vitneskjuna um gallana. Gæti það sama ekki gerst með hinn t.d. hvað verður í stórum jarðskjálfta? Enn var svo ryð í vegg númer tvö og enn í dag skýtur ryðdraugsi (yfirmálaði) víða upp kollinum nú síðast (Myndir síðast frá 08/09/2012).
  Nú eru mávarnir líka orðnir miklir aðdáendur Hörpu eins og mærðarkórinn. Þeir synda nú í hópum í gruggugu pollunum og tína upp úr þeim afganga og drita á malbikstorgið og steypukossana og líka á Hörpuglerið, bévítans dónarnir.

  FORSÍÐUMYNDIN:
  Ekki er allt sem sýnist: Glansmyndin á forsíðu AT sýnir poll spegla ljósa-„show“-ið en raunin er sú að fyrir nokkrum dögum sást í pollunum í bjórdósir, allskonar bréfadrast, umbúðir, pylsubréf, mannadót og afganga (Myndir eru til frá 08/09/2012).
  Víða við og um húsið má sjá slóð sígarettustubba. Ófrágengin rauf upp við húsið er víða fyllt af líkkistunöglunum.
  Svissnesku arkitektarnir sem ég skoðaði Hörpuna með höfðu orð á hvað þetta væri óhrjálegt að sjá svo ekki sé talað um aðalinnkomuna með 4 verslunardyrum með rennihurðunum þaðan sem maður stefnir bent á svartflekkóttan steypuvegg með sprungum. Eins töluðu þeir um mikið „Tand“ þegar þeir litu upp í loftin.

  HÖRPU-ljósa-„show“-ið sem sést á myndinni og speglast í pollinum:

  Ýmislegt fór um hugann í fyrra þegar stórkarlalega ljósa-„show“-ið fór að flæða og tindra og minnti á ofurljósa-„show-in“ í Las Vegas. Dýrðin átti líklega m.a. að laga geðið hjá kreppu-hrjáðum og skatt-og skuldpíndum Landanum (líka skuldugum af Hörpulánunum og með-hjálpinni) og ‚létta‘ þeim skammdegisdrungann.
  Þegar ljósabrellurnar flóðu og glóðu mátti svo ekki hafa lóðarlýsingu á, á meðan, til að trufla ekki kúnstina. Fótgangandi gestir úr suðri, sem höfðu vogað sér í gegn um bílastrauminn komu svo ókátir og fótrakir til Hörpu-leika eftir að hafa álpast út í lóðarpollana.
  Orð- og grandvarir starfsmenn Reykjavíkurborgar gerðu góðlátlegt grín af þessu.

  NB: Þakka ber kollegínu og aðjúnkt fyrir áhugaverða aðalgrein :

  „HARPAN-sem við aldrei áttum.“

  Undirritaður er sammála mörgu þar.- Greinilegt er að höfundurinn er vel ritfær og kafar oft djúpt með lesandann og kann til verka í umfjöllun um arkitektúr og væri fengur að sjá fleiri greinar frá honum þar um. Hann kýs að nefna ekki Hörpu“skavankana“

  Nokkrar stiklur varðandi umfjöllunina um ELDBORGINA:

  I- Gestir hafa heyrst kvarta undan lélegum hljómburði t.d.víða á svölunum og sé hann langt frá því að vera góður. Sólasystir mín kom t.d. fúl þaðan.
  — Eins eru rokkarar lítið hrifnir en að vísu var salurinn ekki byggður fyrir þá – og þó- talað var um hann ætti að nýtast allri tónlist.

  II-Þungi rauði liturinn í Eldborgarsal drekkur í sig alla lýsingu eins og þerripappír vökva og á sýningum verður oft dimmt yfirbragð. – Ekki heyrðist betur en að einn erlendi aðfengni leiktjaldameistarinn segði í viðtali á RÚV að liturinn væri kannski ekki heppilegur en þetta myndi hafast með öðrum reddingum og brellum (Lýsingabrellur?).

  III-Einn dáðasti óperusöngvari okkar sem hefur sungið Töfraflautuna um 150 sinnum í uppfærslum hér- og erlendis lét orð falla í umfjöllun um uppfærsluna og virtist ekki hrifinn af ljósbrellunum sem þurftu við Flautuna o.fl. – svo vitnað sé í ummælin .

  Aðspurt þekkt íslenskt tónskáld, um hljómburðinn í Eldborgu, vildi ekki lýsa yfir hrifningu en vildi heldur ekki lasta. Hann bætti við að hann væri lítt hrifnn af þessu danska skrautglerhýsi.
  _______________________
  * Kollegi sem ég talaði við í morgun sagðist t.d. sakna víðari umföllunar byggingarmála í blaðinu t.d. mál málanna LHS og enginn væri í blaðinu umfjöllunardálkur fyrir hinn almenna kollega sem vill tjá sig.
  . Með kollegakveðju-Örnólfur

 2. Örnólfur Hall
  september 20, 2012 | 09:48

  ATHUGASEMDIN : Í klausunni fyrir ofan duttu út ummæli óperusöngvarans – Það var …. fyrir eyra.

  III- Einn dáðasti óperusöngvari okkar sem hefur sungið Töfraflautuna um 150 sinnum í uppfærslum hér- og erlendis lét orð falla í umfjöllun um uppfærsluna og virtist ekki hrifinn af ljósbrellunum sem þurftu við Flautuna o.fl. – -Það var ýmislegt sem kom einkenni-lega fyrir sjónir og einnig fyrir eyra- svo vitnað sé í ummælin .

  IV- Aðspurt þekkt íslenskt tónskáld, um hljómburðinn í Eldborgu, vildi ekki lýsa yfir hrifningu en vildi heldur ekki lasta. Hann bætti við að hann væri lítt hrifnn af þessu danska skrautglerhýsi.
  Örnólfur

 3. Hilmar Þór
  október 7, 2012 | 23:37

  Ég vil sérstaklega vekja athygli á grein Guju Daggar Hauksdóttur arkitekts í blaðinu sem ber yfirskriftina “Byggingarlistasafn skrínlagt”. Þar fjallar hún um að byggingarlistasafnið (við Listasafn Reykjavíkur) sem virðist hafa verið lagt niður í kyrrþey fyrir hálfu öðru ári og segir m.a. orðrétt:

  “Enn hefur engin fréttatilkynning borist frá Listasafni Reykjavíkur um lokun deildarinnar, en eftirtektarverðara er kannski að ekki hafi verið gefin verin út opinber yfirlýsing af hálfu Arkitektafélags Íslands um hug stjórnarinnar eða félagsmanna til málsins”

  Þetta er vissulega málefni sem er umhugsunarvert og ástæða til þess að hafa af nokkrar áhyggjur af. Ekki einungis vegna þess að starfssemi byggingarlistardeildar skuli hafa verið hætt, heldur sérstaklega því sinnuleysi sem Guja nefnir i tilvitnuninni af hálfu þeirra sem málið varðar.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00