AF ‚ARKITEKTÚR‘ & HÖRPU

Þetta er í annað sinn (fyrst fyrir hrun & svo 2012) sem Harpan er í fyrirrúmi í þessu sjaldséða riti AÍ ‚ARKITEKTúR‘ með upptendruðum glansmyndum á forsíðum.Verður hún þar, í þriðja sinn á næstu árum, sýnd í bláköldum raunmyndum?

Hörpuumræðan heldur áfram um að allt sé ekki eins og ætti að vera þar. Sem iðinn gagnrýnandi hef ég oft fengið að heyra harða gagnrýni frá notendum: Gestum, listafólki, starfsfólki, fötluðum o.fl. svo ekki séu nefndir verktækni-og fagmenn. Fer yfir það seinna (á öðrum stað).

Oft saknar maður gömlu góðu Arkitíðindanna sem komu oft út og þar sem var góður vettvangur (t.d. Potturinn og Spjallið) fyrir tjáskipti og umfjöllun um arkitektúr og annað honum tengt fyrir kollega. Arkitíðindi hættu útkomu af einhverjum ástæðum, því miður. Ef til vill hefur þáverandi stjórn fundist að menn væru farnir að tala of tæpitungulaust. Þar var áherslan ekki á umfjöllun um einhver tískufyrirbrigði með ofurglansmyndum eða grafíkfantasíum heldur á góðan arkitektúr með góðri og vandaðri efnisnotkun og fagvinnu . Ekki var talin ástæða til að fá einhvern gagnrýnan kollega til að fjalla um skuggahliðarnar á Hörpunni og um kvartanir fjölda fólks um það sem miður er.

 

Þetta ofurdýra, formfátæka  glerskrautsbákn sem hyllingarkór Hröpuaðdáenda þreytist ekki á að mæra þó margt þar sé öfugsnúið og kallist á engan hátt við svipmót (anda) Reykjavíkurborgar. Það stendur þarna eins og „kuríósítet“ eins og einn glöggur kollegi orðaði það. Margir veigra sér við að andæfa klappkórnum því þá gætu þeir lent milli handana á þeim (kallaðir menningarfjendur og eitthvað enn ljótara).

Frá vordögum 2010 höfum við kollegi Guðmundur Kr. fylgst með smíðinni á „glerbákninu“ en þar stíngur margt í augun. Fyrri suðurvegg Hörpu, ryðguðum og gölluðum, var slátrað eftir að hafa verið byggður upp undir stjórn hönnunarstjóra (frá vordögum til ágúst 2010,) þrátt fyrir vitneskjuna um gallana. Enn var svo ryð í vegg númer tvö og enn í dag skýtur ryðdraugurinn (yfirmálaði) víða upp kollinum nú síðast (Myndir eru til síðast frá 08/09/-12/10/2012).

FORSÍÐUMYNDIN:

Ekki er allt sem sýnist: Glansmyndin á forsíðu ‚ARKITEKTÚR‘ sýnir poll spegla ljósa-„show“-ið en raunin er sú að fyrir nokkru sást í pollunum -og gerir líklega enn-: kók-og  bjórdósir, alls konar bréfadrast, pítsuumbúðir, pylsubréf, mannadót og afganga (Myndir eru til frá 08/09/2012).

Víða má sjá slóð sígarettustubba við dyr. Ófrágengin bil upp við húsið eru full af líkkistunöglunum. Nú eru mávarnir líka orðnir miklir aðdáendur Hörpu eins og hyllingarkórinn. Þeir synda í hópum í gruggugu pollunum og tína upp úr þeim afganga og drita um víða og líka á Hörpuhjúpinn.

Svissnesku arkitektarnir, sem undirritaður skoðaði Hörpuna með, höfðu orð á hvað þetta væri sóðalegt og óhrjálegt umhverfi að ekki sé talað um  óvirðulegu aðalinnkomuna með fernum verslunardyrum með rennihurðum fyrir en um þær stefnir maður bent á svartflekkóttan steypuvegg – með sprungum í. Eins töluðu þeir um mikið „Tand“ þegar þeir litu um veggi og upp í loftin. Það eru ekki allir útlendingar hrifnir af  glerbákninu eins og þeir sem stíga áróðurs- og auglýsingavél Hörpu vilja meina. Þekkt er sagan um norsku arkitektana 25 sem í skoðunarferð vildu komast sem fyrst út. Eins það sem meistari Erró sagði eða öllu heldur sagði ekki spurður um hana. Undirritaður fékk viðurnefnið Örnólfur Errósnobbari (hjá hönnunarstjóra) þegar hann minntist á þetta á vef AÍ.

 

Hörpu-ljósa-„show“-ið sem sést á myndinni og speglast í pollinum:

Ýmislegt fór um hugann í fyrra þegar stórkarlalega ljósa-„show“-ið fór að flæða og blikka og minnti á dýrðina í Las Vegas. Hún á líklega m.a. að bæta geðið hjá kreppuhrjáðum og skattpíndum landanum og líka skuldugum af Hörpulánunum og meðhjálpinni.
Þegar ljósbrellurnar flóðu og glóðu mátti svo ekki hafa lóðarlýsingu á, á meðan, til að trufla ekki „kúnstina“. Fótgangandi gestir sem komu úr suðri, og höfðu vogað sér í gegnum flautandi bílastrauminn komu svo ókátir og fótrakir til Hörpuleika eftir að hafa álpast út í lóðarpollana.
Orð-og grandvarir starfsmenn Reykjavíkurborgar gerðu góðlátlegt grín af þessu við undir-ritaðan.

 

NB: Þakka ber Kollegínu og Aðjúnkt fyrir forvitnilega aðalgrein í tímaritinu ,ARKITEKTúR‘:

„HARPAN-sem við aldrei áttum.“

Undirritaður er sammála mörgu þar í grein.- Höfundurinn er ritfær og kafar oft djúpt. Lesandinn þarf öðru hvoru upp til að anda djúpt. Höfundur tekur hann svo á „logaflug“ upp úr „spennandi“ bílakjallaranum upp í heima óraunveruleikans, draumanna og gegnum aðkomurýmið og endar svo „eldflugið“ í Eldborginni. Lesandi varð bæði flug – og eldhræddur. Höfundur kann annars margt til verka í umfjöllun um arkitektúr og væri fengur að sjá fleiri greinar frá honum.

Pistillinn um Michel Foucoult og heterótópíuna (:„afbrigði útópíu sem orðin er að áþreyfanlegum veruleika“) hefði mátt vera mun efnismeiri, ítarlegri, nákvæmari og skýrari og með dæmum.

Höfundur kýs hins vegar að nefna ekki Hörpu“skavankana,“ samsetningaklúðrið eða ófögru grösin sem kennir þar eins og þau skipti engu máli.

 

Nokkrar stiklur varðandi umfjöllun höfundar um ELDBORGARSALINN:

 

Gestir hafa heyrst kvarta undan lélegum hljómburði t.d. víða á svölunum og hann sé langt frá því að vera nógu góður þar. Eins eru rokkarar lítið hrifnir.

Að vísu var salurinn ekki byggður fyrir þá en þó var fullyrt að hann ætti að nýtast allri tónlist. Þeir hafa heyrst segja að tónlist þeirra kæfist í salnum.

 

Þungi rauði liturinn í Eldborgarsal drekkur í sig alla lýsingu eins og þerripappír vökva og á sýningum verður oft dimmt yfirbragð. Ekki heyrðist betur en einn erlendi aðfengni leiktjaldameistarinn segði í viðtali á RÚV að liturinn væri kannski ekki heppilegur en þetta myndi hafast með öðrum reddingum.

Upptökutæknin ræður ekki við birtuhlutföllin milli sviðs og salar fyrir allar upptökur. Við að „summa“ t.d. frá hljómsveit á sviði og út í sal virðist allt fara í hund og kött. Upptökumeistari fyrir „Sinfó“ áður í Háskólabíói benti undirrituðum á þetta.

 

Einn dáðasti óperusöngvari okkar sem hefur sungið Töfraflautuna um það bil 150 sinnum í uppfærslum  hér- og erlendis lét orð falla um skort á spennu í umfjöllun um uppfærsluna og velti fyrir sér ljósbrellunum sem þurfti að nota við Töfraflautuna.„Það var ýmislegt sem kom einkennilega fyrir sjónir og einnig fyrir eyra“, svo vitnað sé í ummælin. Óperusöngvarinn sagði:„Í Eldborgarsalinn vantar baksvið og hliðarsvið, eins og er í öllum stærri og minni óperuhúsum erlendis, þar sem hægt er að athafna sig.“„Ég hef sagt það áður að Þjóðleikhúsið er eina húsið hér á landi þar sem hægt er að flytja óperu,“ sagði hann.

Við undirritaðan sagði hann að hann hefði heldur ekki verið hrifinn af uppfærslunni á La Bohéme. Hann gaf lítið út á „ókvalifiseraða“ óperugagnrýnendur í fjölmiðlum sem lofuðu hátt. Vildi fá að heyra í erlendum alvöru óperugagnrýnendum. NB: Ekki er vinsælt að gagnrýna Hörpu í ísl. fjölmiðlum.

Hann nefndi líka að liturinn á salnum væri yfirþymrandi og þrúgandi en reyndar væri þetta ekki óperuhús.

Aðspurt þekkt íslenskt tónskáld vildi ekki lýsa yfir neinni sérstakri hrifningu með hljómburðinn í Eldborgu en vildi heldur ekki lasta hann.- Tónskáldið bætti því við, í samtali við undirritaðan, að hann væri lítt hrifnn af þessu þunglamalega danska skrautglershýsi.

Með kollegakveðju-Örnólfur

 

NB: Nú verða verktakar stikkfrí eftir eitt ár. Getum við Hörpuskuldarar, samvisku okkar vegna, látið eftirkomendur óátalið taka við öllu ofurviðhaldinu vegna Hörpu“smíða“. Svo ekki sé talað um Hörpulánin ógreiddu og risameðlögin.

PS: Kollegi sagði við undirritaðan sakna víðari umföllunar byggingarmála í ritinu  t.d. mál málanna LHS.

 

PS:  Samkv. upplýsingum (H.H.): Arkitíðindi komu oftast út fjórum sinnum á ári. Þau hófu útkomu 1965. Síðast hét innanfélagsblaðið AT-fréttir, sem kom út allt að tíu sinnum á ári. Það síðasta er 8/2008.

 

Aðsent efni og birt á ábyrgð höfundar.

 

 

9 Responses to AF ‚ARKITEKTÚR‘ & HÖRPU
 1. Hallmar
  nóvember 2, 2012 | 13:11

  Örnólfur nefnir hér með söknuði Pottinn og Spjallið í „gömlu góðu Arkítíðindunum.“ Þar voru vissulega stundum viðraðar áhugaverðar skoðanir en ég fæ ekki séð að það hafi verið neitt meira um það en nú er á heimasíðunni okkar. Mér finnst líka miður að sjá að það var stundum gert undir nafnleynd sem mér þykir ekki söknuður í.

  Mér þætti líka áhugavert að sjá Örnólf fjalla um annað efni en Hörpu eina.

  Með kveðju,
  Hallmar

 2. Björn H. Jóhannesson
  nóvember 7, 2012 | 10:47

  Harpa er dýrasta bygging sem reist hefur verið hérlendis fyrir almannafé og kostnaður margfaldast, þrátt fyrir mikið utanumhald og ekki allt tekist sem skyldi þrátt fyrir það.

  Það er þetta sem Örnólfur er að benda á.

 3. Pétur Örn Björnsson
  nóvember 7, 2012 | 15:21

  Þar sem rit okkar sem borgum félagsgjöld til AÍ, ARKITEKTÚR fjallar um fátt annað en glamúr og upphafningu á þeim glamúr og þeim sem þá iðju stunda í samtryggðri og samfylktri hallelújasamkundu í stíl ESB-Icesave varaþingmannsins og formannsins, þá er það guðsþakkarvert, enda þótt framkvæmdastjórinn kveinki sér, að einhver hafi dug og þor til að míga á Hröpu-dýrð Bravó bruggaranna Leníngröðsku, Bjögganna, leppa Deutsche Bank og auðdrottna glóbalíseraðrar skinhelginnar.

  Það muna allir arkitektar sem eldri eru en tvævetur eftir þeim orðum Jóns Haraldssonar að arkitektar væru upp til hópa hræddar mellur. Svei mér þá, mér sýnist það alla vega gilda um glamúr liðið og viðhlæjendur þeirra í trúnaðarstörfum fyrir AÍ.

 4. Pétur Örn Björnsson
  nóvember 8, 2012 | 12:35

  Ég vil bæta þessu við:

  Það sem mér finnst einkum athugavert er að á sama tíma og mest öll arkitektastéttin íslenska glímir við atvinnuleysi, hálf-atvinnuleysi eða skrimt,

  þá skuli þeir sem betra hafa það gorta af verkum sínum og vera upphafnir eins og væru þeir æðri og meiri og betri, sem þeir eru alls ekki heldur upphafnir sem slíkir með glans sitt, prjál og tildur. Við þekkjum þetta í Séð og heyrt, við þekkjum þetta í glamúrblöðum og við þekkjum þetta sem „listrænan“ innmat og kálfa íslenskra fret(ta)blaða.

  Er það stéttarvitund íslenskra arkitekta í hnotskurn?
  Að upphefja sig á kostnað annarra, að reigja sig uppdubbaður í glamúr? Er það útlitið, en ekki innihaldið sem mestu máli skiptir nú? Um-búðirnir?

  Vafalaust þykir sumum sem ég sé hér óbilgjarn, ég bið þá forláts, en ég er að reyna að glenna upp augu arkitekta sem betra hafa það svo þeir gleymi ekki sínum minni bræðrum og systrum á þessum skjaldborgartímum skinhelginnar.

 5. Örnólfur Hall
  nóvember 10, 2012 | 15:36

  Vökulum KOLLEGUM skal þakkað fyrir stuðningsorðin.

  GREININ:
  Ágætur Hallmar bendir greinarskrifara að ráð sé að hefja önnur skrif en um Hörpu. Þ.e.a.s. að snúa frá óhreina Hörpuborðinu. Skrifari vill trúa því að Hallmar meini það í góðum hug og vilji bjarga honum frá Hörpu”ruglinu og sukkinu”.

  Eftir hrunið vegna fjármála- og framkvæmdasukksins hvöttu hlutlausir uppgerendur til að allt væri dregið upp á borðið og það gert hreint.– Þetta átti líka við Hörpuframkvæmdina , bankalánin , afskriftirnar og fjármálaflækjufélögin mörgu og þokukenndu. Lái mér hver sem vill fyrir það að hafa reynt og reyni enn að draga þetta upp á borðið.
  Mér óar við að barnabörnin mín og eftirkomendur eigi eftir að borga alla þokukenndu skuldasúpuna og ofurviðhaldið (óhjákvæmilega).
  Á tölvuborðinu eru nær fullunnar tvær greinar (með myndum):- Ryð og gallar í Hörpu- og -Harpan og notendurnir- (gestir, listafólk, starfsfólk , fatlaðir og tækni-og fagfólk tala). Vonandi komast þær á vef á næstu tíð með myndum.

  ENN HERMT ÚR HÖRPUHEIMUM:

  MYNDIRNAR
  Þær sýna dæmi um ryðstaðina á norðurhlið hjúps. Ryðstöðum fjölgar líka á suðurvegg (”hamravegg”: stendingavegg Ó.Elíason+H.Larsen). Þar má sjá ryðmyndun í grópum fyrir boltafestingar og út frá þeim.

  HARPAN OG ÓVEÐRIÐ:
  það gekk á ýmsu í Hörpu og Hörpuhjúp í óveðrinu. T.d. gerðist það að austurinngangar fuku upp og brak flaug út á lóð. Starfsfólk sagði að allt hefði titrað og skolfið.
  Klæðning, undir norðurhlið, rifnaði upp (við sjávarvegg). Sjá má líka opinn austur-þakkant að hluta.
  Harpan varð brimsöltuð og rúður í saltmóðu eftir áhlaupið.– Undirritaður hvetur alla áhugasama Harpverja og Hyllingarkór að bjóða sig nú fram í hreinsunarstörf sem sjálfboðaliða og spara okkur skattgreiðendum þvottapeningana.

  ANNAÐ TIL UPPLÝSINGA
  Eftirfarandi aðilar hafa viljað fá gögn og myndir um Hörpu“smíðina“ og ryðsöguna og fengið:

  Fjármálaráðuneytið
  Mannvirkjastofnun
  Byggingafulltrúaembættið(var ekki með eftirlitið á Hörpu heldur verkfræðistofan Efla)
  HÍ-Verkfræðideild/lokaprófsfólk 2011+Dr.R.I.Þ.verkfr.
  Hönnunarmiðstöð
  VM-Félag máltæknimanna.

  PS: Ég þakka Hallmari fyrir að hafa sett líka inn á vef dæmin tvö um fjölgandi ryðmyndanirnar.

 6. Gestur Ólafsson
  nóvember 11, 2012 | 22:30

  Örnólfur Hall og Guðmundur Kr. Gmundsson eiga þakkir skildar frá öllum íslenskum arkitektum fyrir dugnað og nennu við að reyna að halda uppi faglegri umræðu um Hörpuna þótt stjórn arkitektafélagsins hefði auðvitað átt að vera þar í fylkingarbrjósti. Þar er ennþá fjölmörgum spurningum ósvarað eins og þeirri hvort þar hafi gilt önnur byggingarsamþykkt en sú sem okkur hinum er ætlað að fara eftir. Þetta ætti að vera starfandi arkitektum umhugsunarefni, sem þurfa nú að þeytast um eins og landafjandar við að reyna að finna glugga í íslenskar byggingar sem þola 1100 pascala slagregnsálag!! Þurfum við ekki líka sem stétt að draga einhvern lærdóm af þessari byggingu áður en við samþykkjum að sökkva börnum okkar og barnabörnum dýpra í LSH skuldafenið?
  Er íslensk arkitektastétt kannske búin að týna því niður að geta teiknað vönduð hús fyrir íslenskar aðstæður sem við höfum bæði efni á að byggja og reka án þess fara á hausinn? Auðvitað á stjórn AÍ að vera hér í fararbroddi. Hún er kosin til þess að gæta hagsmuna félagsmanna – og reyndar landsmanna allra, þar sem þeir fara saman.
  Höfum það í huga að stjórn sem tekur ekki á aðkallandi vandamálum líðandi stundar er verri en engin – hvort heldur hún er á – Alþingi eða í AÍ.

 7. Hallmar Sigurðsson
  nóvember 12, 2012 | 13:00

  Ég vil taka það skýrt fram að ég hef aldrei „kveinkað mér undan“ efni frá Örnólfi, hvorgi um Hörpu né annað. Hafi sú fróma ósk mín að Örnólfur tæki fleira til umfjöllunar á heimasíðu félgasins en Hörpu skilist sem tilraun til óbeinnar ritskoðunar af minni hálfu þá þykir mér það miður. Það er ekki mitt hlutverk að ritskoða skrif félagsmanna.
  Með kveðju,
  Hallmar

 8. Pétur Örn Björnsson
  nóvember 13, 2012 | 19:31

  Ég tek heils hugar undir mjög góða athugasemd Gests Ólafssonar. Segir allt sem segja þarf um þvílíka skinhelgi og hræsni íslensk arkitektastétt býr nú við.

 9. Örnólfur Hall
  nóvember 21, 2012 | 11:21

  Af ÓPERU-ferð í HÖRPU

  Ég fór að hlusta á Il Trovatore og naut mjög fallegs söngs allra en sviðsmyndin var undarleg. Það var verið að hnoðast með rimlahlið(í ætt við hliðin á geymslusvæði Eimskipa)og tvo rauðbrúna(flammaða)fleka 6×9-10 m fram og aftur og þegar mest var voru 16 ljóskastarar í gangi sem yfirgnæfðu sviðið. Öðru hvoru var verið að gusa út gufuskýjum til ‘effekta’. Loftræstingin hafði svo ekki við þungu skýjagufunum sem leituðu til okkar á efsta lofti.—

  Ég hitti svo í hléi fyrrum söngdívu(My fair lady)sem var sama sinnis og gerði athugasemdir við hvaða erindi flugfreyjutöskur og vélbyssur ættu þarna.

  Ég sat s.s.á efsta lofti fremst og voru 29 cm út í handriðið (frá sætisbrún) sem mældist 71 cm (á að vera 120 cm samkv. Byggingarreglum) og svo hengiflugið fyrir framan (var of seinn að fá betra sæti). Sver karl eins og ég var við hliðina á mér og við vissum ekki hvað við áttum að gera við handleggina á okkur. Ég mældi sætisbreiddina 56 cm sem er a.m.k. 10-15 cm of mjó. Sessan var aðeins 43 cm löng.- Þjóðleikhússæti eru mun breiðari og þægilegri.

  PS: Ég gæfi nú ekki mikið í það ef við þykku karlarnir hefðum verið eitthvað fótvaltir þarna.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00