Tilboð til félagsmanna AÍ

(9. desember 2013 )

Félögum í Arkitektafélagi Íslands býðst nú að kaupa hið stórglæsilega ritverk Af Jörðu – Íslenskt torfhús eftir Hjörleif Stefánsson á sérstökum vildarkjörum, aðeins 9900 krónur hjá útgáfunni sjálfri á Barónstíg 27, Reykjavík eða á skrifstofu AÍ í Hönnunarmiðstöð Íslands í Vonarstræti 4B, 101 Reykjavík.

Fyrstu íbúar Íslands reistu sér hús úr þeim efnivið sem hendi var næstur: jörðinni sjálfri. Þótt útlit og lag torfhúsanna breyttist í aldanna rás héldust grunnþættir verkmenningarinnar óbreyttir. Í byrjun tuttugustu aldar bjó enn helmingur landsmanna í húsum sem byggð voru með sama hætti og miðaldamenn höfðu gert. Torfbyggingar standa hins vegar ekki nema fáeina áratugi sé þeim er ekki haldið við og nú má aðeins sjá þau hús sem viðhaldið hefur verið af Þjóðminjasafni Íslands, byggðasöfnum eða sérstöku áhugafólki um torf- og grjóthleðslur. Byggingarnar varðveita hins vegar lærdóm um aðferðir og hugsun sem skipta máli fyrir sögu alþjóðlegrar byggingarliestar. Íslensku torfhúsin eru hluti af alþjóðlegum menningararfi og meðal hins merkasta sem Íslendingar hafa lagt fram til heimsmenningarinnar.

 

Hjörleifur Stefánsson hefur lengi rannsakað sögu og form íslenskra torfhúsa. Í bókinni Af jörðu dregur hann saman það sem vitað er um torfhúsin að fornu og nýju og birtir lýsingar á helstu torfbyggingum sem enn standa. Hann birtir einnig ýmsar nýjar upplýsingar um torfhús sem komið hafa fram á seinni árum í uppgröftrum á miðaldahúsum og segir frá rannsóknum á slíkum húsum í nágrannalöndum okkar. Það kemur því án efa mörgum á óvart að í Skotlandi og stóðu torfhús allt fram á 20. öld sem hlaðin voru með sama lagi og tíðkaðist á Íslandi  og í Norður-Noregi má finna rústir fjölmargra gangabæja sem eru svipaðrar gerðar og þeir íslensku.

Fá dæmi eru um að byggingarsaga heillar þjóðar sé frá upphafi til nútíma nær alveg einskorðuð við torfhús. Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga er að halda við þessum einstaka arfi en einnig að nýta það besta úr honum. Fagurfræði torfbygginga á mikilvægt erindi við nútímann. Þær kenna okkur hvernig byggja má í sátt við umhverfið og fella saman hús og land.

Þetta er glæsileg bók og mikil bók, rúmar 300 síðurí stóru broti og prýdd fjölmörgum fallegum myndum af torfbæjum sem eru prentaðar á góðan og vandaðan pappír. Bókaútgáfan Crymogea gefur bókina út.

 

3 Responses to Tilboð til félagsmanna AÍ
 1. Finnur Birgisson
  desember 12, 2013 | 12:52

  Satt er það, þetta er vegleg og eiguleg bók. En mér finnst endilega að ég hafi séð hana á tæpar 9.000 kr. í Hagkaupum um daginn.

 2. Hallmar
  desember 17, 2013 | 10:00

  Samkvæmt okkar upplýsingum er bókin ekki til sölu hjá Hagkaupum. Við vitum ekki betur en að við séum með lægsta verðið sem í boði er.

 3. Finnur Birgisson
  desember 18, 2013 | 13:14

  Nei, það var í Bónus sem ég sá hana á tæpar 9.000 kr. Er búinn að ganga úr skugga um að það er enginn misskilningur.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00