Almennt um innleiðingu gæðakerfa

Skúlagata_21

(1. desember 2014 – FRÁ STJÓRN)

Stjórn AÍ bað Árna Jón Sigfússon, arkitekt á byggingarsviði Mannvirkjastofnunar að svara nokkrum spurningum sem hugsanlega komust ekki til skila á síðasta fundi:

Í kjölfar hádegisverðarfundar AÍ þann 17. nóvember s.l. þar sem ég kynnti stuttlega hlutverk Mannvirkjastofnunar við innleiðingu gæðastjórnunarkerfa í byggingariðnaði sendi ég ykkur neðangreint nokkra punkta:

Almennt um innleiðingu gæðastjórnunarkerfa í byggingariðnaði:

Mannvirkjastofnun vekur athygli á að allir sem skrá sig á byggingarleyfisskyld verk sem hönnuðir, hönnunarstjórar, iðnmeistarar eða byggingarstjórar eftir 1. janúar 2015 skulu vera með gæðastjórnunarkerfi sem samþykkt er af stofnuninni. Krafa um gæðastjórnunarkerfi byggir á  ákvæðum 24. gr., 31. gr. og 32. gr. laga um mannvirki en samkvæmt 7. tölulið ákvæða til bráðabirgða í lögunum er veittur frestur til 1. janúar 2015 til að uppfylla ákvæðin. Nánari upplýsingar má m.a. nálgast á vef Mannvirkjastofnunar undir neðangreindri slóð: http://www.mannvirkjastofnun.is/byggingar/gaedastjornunarkerfi/

Helstu spurningar sem bornar voru upp á fundinum og svör við þeim:

Verða allir hönnuðir sem ekki eru með skráð gæðastjórnunarkerfi réttindalausir um áramót?

Nei, gildistaka ákvæðisins á aðeins við um nýskráningar á byggingarleyfisskyld verk hjá embættum byggingarfulltrúa eftir 1. jan 2015.

 

Hvernig er umsóknarferlið um skráningu gæðastjórnunarkerfa?

Upplýsingar um umsóknarferli má sjá á umsóknareyðublöðum um skráningu gæðastjórnunarkerfa á vef Mannvirkjastofnunar.

 

Hver er munurinn á vottuðum gæðastjórnunarkerfum og þeim sem ekki eru með vottun?

Gæðastjórnunarkerfi sem eru með vottun (t.d. ISO vottun) eru skráð á grundvelli staðfestingar þar um. Önnur gæðastjórnunarkerfi þarf að fá skoðuð hjá faggiltri skoðunarstofu áður en Mannvirkjastofnun samþykkir þau og skráir í gagnasafn sitt.

 

Geta fleiri en einn starfsmaður fyrirtækis verið aðili að sama gæðastjórnunarkerfi?

Já, tilgreina þarf á umsókn um skráningu gæðastjórnunarkerfis fyrirtækis alla aðila sem nota kerfið og hlutverk þeirra sem hönnuða, hönnunarstjóra, byggingarstjóra eða iðnmeistara.

Gera þarf sérstaka grein fyrir eldri réttindum þeirra sem ekki eru á listum yfir löggildingar.

 

Þarf sérstakt gæðastjórnunarkerfi fyrir hverja starfsstétt?

Eitt gæðastjórnunarkerfi getur uppfyllt kröfur  fyrir alla aðila s.s. hönnuði, hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara.

 

Hvaða skoðunarstofur hafa faggildingu til að skoða gæðastjórnunarkerfi?

Faggiltar skoðunarstofur sem skoða gæðastjórnunarkerfi í umboði Mannvirkjastofnunar eru þrjár, BSI, Frumherji og Rafskoðun, nánari upplýsingar um þær er að finna á vef Mannvirkjastofnunar.

  

Með góðri kveðju,

 

Árni Jón Sigfússon arkitekt á byggingarsviði Mannvirkjastofnunar

11 Responses to Almennt um innleiðingu gæðakerfa
 1. Dennis Davíð Jóhannesson
  desember 2, 2014 | 19:02

  Við getum sjálfsagt flest verið sammála um kosti þess að vera með röð og reglu á vistun gagna á teiknistofum okkar eða gæðastjórnunarkerfi eins og það er kallað. En að þurfa að sitja undir því að vera hugsanlega réttindalaus við ákveðnar aðstæður, eins og kemur fram í svari Árna Jóns Sigfússonar, er óþolandi. Ég efast um að það sé heimild fyrir því í Lögum um mannvirki. Ég hef lesið 24.gr. lagana um gæðastjórnunarkerfi hönnuða og hönnunarstjóra og sé ekkert um þar sem gefur Mannvirkjastofnun þessa heimild. Það gæti verið fróðlegt fyrir að fá lögfræðilegt álit á þessu.

 2. Hilmar Þór
  desember 3, 2014 | 10:21

  Mig langar að umnorða svarið við fyrstu spurningunni og spyrja Árna Jón Sigfússon hvort það sé lika rétt svar.

  Spurningin er svona:

  Verða allir hönnuðir sem ekki eru með skráð gæðastjórnunarkerfi réttindalausir um áramót?

  Og sama svar með öðru orðalagi:

  Já, þeir verða réttindalausir, byggingafulltrúum verður ekki heimilt að taka verk þeirra til afgreiðslu, en þau verk sem eru þegar í ferli hjá embættunum verða ekki stöðvuð.

 3. Hallmar Sigurðsson
  desember 3, 2014 | 12:38

  Dennis, í 3 málslið 60.greinar mannvirkjalaganna segir:
  „Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að faggilt vottunarstofa skuli votta þessi gæðastjórnunarkerfi.Heimilt er að gera mismunandi kröfur til gæðakerfa samkvæmt lögum þessum eftir gerð mannvirkis.“ Ég held að Halldór Eiríks hafi verið búinn að benda á þetta á öðrum stað.

 4. Dennis Davíð Jóhannesson
  desember 3, 2014 | 14:12

  Hallmar, ég var búinn að sjá það en ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að menn eigi á hættu að missa réttindi sín við ákveðnar aðstæður. Það held ég að geti ekki staðist. Svo er við þetta að bæta að á heimasíðu Mannvirkjastofnunar er listi yfir löggilta hönnuði. Þar vantar alla arkitekta sem hlutu löggildingu fyrir 1978. Það finnst mér býsna alvarlegt mál og bendir til þess að vistun gagna/gæðakerfi hjá viðkomandi aðila sé ekki í lagi. Ég tek undir með þér að stjórn AÍ ber að eiga jákvætt samtal við stjórnvöld en minni jafnframt á að „Tilgangur félagsins er að stuðla að góðri byggingarlist, efla samvinnu félagsmanna og standa vörð um hagsmuni þeirra“

 5. Hallmar Sigurðsson
  desember 3, 2014 | 16:20

  Dennis, ég er sammála þér um að það er ófært að það skuli vanta alla sem hlutu löggildingu fyrir 1978. En hvenær hlutu arkitektar fyrst löggildingu? Nú þekki ég bara ekki söguna betur en svo að ég verð að spyrja mér fróðari menn að því. Samkvæmt minni bestu vitund er nú unnið í því efni eftir samkomulagi sem Iðnaðarráðuneytið og Arkitektafélag Íslands komu sér saman um að miða við við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig arkitekt, sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum. Ég þekki reyndar engin lög um löggildingu eldri iðnaðarlögum nr 42/1978. Ég minni á að Mannvirkjastofnun er tiltölulega ný stofnun sem er enn að feta sig áfram og ekki er víst að hún hafi erft eldri eða fullkomnari gögn en þessi. Ég trúi því a.m.k. ekki að það búi einhver meinbægni að baki þessu en þakka fyrir ábendinguna. Mun koma þessu til laganefndar AÍ og MVS.

 6. Hallmar Sigurðsson
  desember 3, 2014 | 16:46

  Nú er ég búinn að kanna málið örlítið betur, Dennis og á heimasíðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er að finna skrá yfir þá sem fengið hafa löggildingu til að kalla sig húsameistara/arkitekta skv. lögum nr. 24 13. júní 1937, skv. lögum nr. 44 3. apríl 1963, skv. lögum nr. 73 9. október 1968, lögum nr. 62 5. september 1986 og lögum nr. 8 11. mars 1996.
  Það ætti að vera auðvelt að benda MVS á að nýta sér þessa skrá til að uppfæra sinn lista. Ég mun koma því á framfæri við Mannvirkjastofnun. Á ekki von á öðru en að því verði vel tekið.

 7. Hilmar Þór
  desember 3, 2014 | 22:29

  Ég kalla eftir svari frá málshefjanda Árna Jóni Sigfússyni kollega mínum við spurningu minni. Svarið skiptir mig máli.

 8. Árni Jón Sigfússon
  desember 5, 2014 | 10:06

  Sæll kollegi Hilmar Þór,
  svör mín við spurningum sem bornar voru fram á hádegisfundi AÍ 17. október vil ég láta standa óbreytt að svo stöddu.
  Varðandi þína túlkun á svari við fyrstu spurningunni vil ég segja þetta: Í umræðu um ákvæði um gæðastjórnunarkerfi hefur orðið „réttindaleysi“ ítrekað skotið upp kollinum og virðist gæta þar ákveðins misskilnings. Í því samhengi er vert að benda á önnur sambærileg ákvæði núgildandi mannvirkjalaga, og einnig eldri laga, t.d. ákvæði um starfsábyrgðartryggingu hönnuða. Hafi hönnuður ekki starfsábyrgðartryggingu getur hann ekki skilað inn hönnunargögnum til byggingarfulltrúa. Bæði framangreind ákvæði hafa ekki bein áhrif á starfséttindi hönnuða, þ.e. þeir eru eftir sem áður með löggildingu sem hönnuðir og með löggildingu starfsheits.

  Með vinsemd og virðingu,
  Árni Jón Sigfússon

 9. Dennis Davíð Jóhannesson
  desember 5, 2014 | 14:53

  Sæll Árni Sigfússon,
  Hvers vegna eru aðeins þeir sem eru með löggildingar gefnar út af Umhverfisráðuneytinu eða Mannvirkjastofnun á lista yfir löggilta hönnuði sem er á heimasíðu Mannvirkjastofnunar? Þarna vantar mjög stóran hluta arkitekta eða flestalla fyrir 1979.
  Ég fékk það svar frá Mannvirkjastofun að nöfn þeirra færu ekki inn á „lista yfir löggilta hönnuði“ fyrr en þeir fengju gæðakerfin sín samþykkt. Hver vegna er það?

 10. Hilmar Þór
  desember 8, 2014 | 10:42

  Ég skrifaði athugasemd við færslu stjórnar frá 20. nóvember sem heitir „Ályktun félagsfundar“ þar sem ég fór í allöngu máli yfir gæðamálið. Ég tók fram að hugsanlega væri einhvern misskilning að ræða í máli mínu og jafnvel ómeðvitaðar ranfærslur og bað menn um að leiðréttta ef svo væri.

  Engar leiðréttingar komu og ekki var bent á neinar rangfærslur, en ein ábending kom sem dýpkar umræðuna. Hún kom frá Halldóri Eiríkssyni arkitekt sem hafði tekið eftir 3.málslið 60. grinar laga um mannvirki þar sem segir: „Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að faggilt vottunarstofa skuli votta þessi gæðastjórnunarkerfi.Heimilt er að gera mismunandi kröfur til gæðakerfa samkvæmt lögum þessum eftir gerð mannvirkis.“

  Ég þakka Halldóri aftur fyrir árveknina og að upplýsa okkur um þessa grein sem hafði farið framhjá mér og mörgum öðrum.

  Framkvæmdastjóri nefnir þessa grein hér að ofan án þess að leggja sérstakt mat á eðli hennar og boðskap eða tækifæri sem hún kann að geta gefið okkur.

  Mér sýnist af orðalaginu (60.gr.) að þarna sé verið að hugsa um sérstök tilfelli. Þ.e.a.s. að almennt eigi arkitektar bara að „tilkynna Mannvirkjastofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar“ eins og stendur í 24. gr. en jafnframt sbr 60. gr. „geti“ ráðherra sett í reglugerð að að gæðakerfi skuli vottuð af vottunarstofu þegar þannig stendur á. Þetta sjónarmið er stutt af næstu setningu 60. gr. þar sem sagt er að hægt sé að gera mismunandi kröfur til gæðakerfa eftir gerð mannvirkja (?). Það er að segja að ferill gæðahandbókar um vottunarstofa er ekki almenna reglan í lögunum heldurá hún við í sérstökum tilfellum.

  +++++++

  Svo í lokun langar mig til þess að segja að mér sýnist að þessi skráningarmál sem Dennis Davíð nefnir stangist á við lög um meðalhóf og jafnræði. Bara þetta sýnist mér vera skýlaust brot á jafnræðisreglu og eru nægjanleg rök til þess að fá frestun á gildistöku greinar 4.6.1. í byggingareglugerð í eitt ár eins og kemur fram í ályktun fjölmenns féklagsfundar AÍ.

  ++++++

  Hvað er annars að frétta af þessu öllu saman og framgangi stjórnar í málinu?

 11. Hallmar Sigurðsson
  desember 15, 2014 | 08:56

  Ég vil benda þér, Hilmar á að lesa nýja færslu frá framkvæmdastjóra undir „Frá framkvæmdastjóra.“ Vonandi svarar það spurningu þinni um hvað sé að frétta af framgangi stjórnar í málinu.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00