Enn um gæðakerfi

Hallmar

(3. desember 2014 – FRÁ FRAMKVÆMDASTJÓRA)

Kæri félagar í Arkitektafélagi Íslands,

Á félagsfundum og í skrifum á heimasíðu AÍ hafa komið fram mótmæli nokkurra félaga gegn kröfunni um að þeir þurfi að taka í notkun gæðakerfi og hljóta skoðun á því til að geta áfram nýtt að fullu þau réttindi löggilts arkitekts sem þeim hafa áður verið veitt. Því er haldið fram að með þessu sé í raun verið að svipta þá áður fengnum réttindum. Vísað hefur verið til álits lögfræðinga þessu til stuðnings. Ljóst er að stjórn félagsins og laganefnd benti á það á sínum tíma, þegar lögin komu fram að krafan væri óhófleg og hefur síðan unnið að því að draga úr kröfum sem gerðar eru um gæðakerfi og fengu á sínum tíma frest á innleiðingu ákvæðis þar um. Stjórn hefur litið svo á að náðst hafi ásættanlegur árangur og að kröfurnar séu ekki lengur óaðgengilegar fyrir minni aðila í faginu. Því til stuðnings má nefna, að síðan ljóst var hverjar kröfurnar yrðu hefur verið upplýst vandlega um hverjar þær eru og hvenær þær eigi að koma til framkvæmda í fréttabréfum og á vef félagsins. Við þessu hafa næstum  engin viðbrögð orðið fyrr en nú, nokkrum vikum áður en kröfunum á að vera fullnægt. Stjórn og laganefnd vilja engu að síður koma til móts við þá aðila sem lýst hafa óánægju og/eða mótmælt. Af því tilefni hafa verið haldnir tveir félagsfundir um málið. Laganefnd og stjórn ætla í framhaldi af þeim að halda sameiginlegan fund um málið til að kanna betur lagalegan grundvöll þess. Til greina gæti komið að senda umboðsmanni Alþingis erindi til að fá úr því skorið hvort löggjafinn sé með lagasetningu sinni og framkvæmdavaldið með reglugerðinni að svipta menn áður fengnum réttindum með ólögmætum eða óeðlilegum hætti. Verði sú leið farin er þó nauðsynlegt að þeir sem helst hafa haldið slíku fram geri betur grein fyrir þeim lögfræðiálitum sem þeir hafa nefnt máli sínu til stuðnings. Hér með er óskað eftir að þeir geri það og sendi stjórn eða laganefnd stutta skriflega greinargerð um þann lagalega grundvöll sem þeir telja málstað sinn byggja á.

 

Stjórn AÍ vill vanda til allrar meðferðar sinnar á þessu máli, annað getur haft skaðleg áhrif og alið á neikvæðu viðhorfi í garð stéttarinnar. Það er óheppilegt að menn skuli fyrst núna bregðast svona hart við í máli sem lengi hefur legið fyrir. Stjórn hefur á undanförnum árum viljað vera lausnarmiðuð í samskiptum sínum út á við og hefur talið vænlegra að eiga sem oftast samtal við stjórnvöld og aðra og ná með þeim hætti fram auknum skilningi á okkar málstað og breytingum sem betur þjóna málefnum byggingarlistar í landinu.  Það ætti að vera óhætt að fullyrða að það hafi gengið eftir og merkja má til dæmis aukinn vilja fjölmargra aðila til að eiga við okkur samstarf um samkeppnir o.fl.   Félagið þarf að láta sér annt um ímynd sína út á við því hún hefur áhrif á faglega stöðu einstakra félaga.

Með bestu kveðju,

Hallmar Sigurðsson

2 Responses to Enn um gæðakerfi
 1. Björn H Jóhannesson
  desember 5, 2014 | 11:53

  Sæll Hallmar

  Ég þakka þér fyrir skrifið. Það var ánægjulegt að fá þetta jákvæða skrif þitt um að þú og stjórn A.Í. séu að kanna frekari farveg vegna ályktunar á félagsfundinum á Sólon 17. nóvember s.l. og ekki til neins að ásaka neinn fyrir eitt eða neitt, heldur leita lausna. Á þeim fundi var ályktun um að fresta framkvæmd gæðastjórnunarkerfis Mannvirkjastofnunar um eitt ár þ.e. til 1. janúar 2016. Var það m.a. vegna margra óljósra atriða í gæðastjórnunararkerfi , sem Mvs. er ætlað að framkvæma og bent á að breyta mætti byggingarreglugerð af ráðherra einhliða. Ályktunin var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu.

  Mér líst mjög vel á þau áform að leita álits umboðsmanns Alþingis vegna þessa gæðastjórnunarmáls og var satt best að segja að velta því sama fyrir mér, ef engin farsæl lausn væri í sjónmáli. Reyndar byrjaði ég í gær aftur að lesa frumvarpið um mannvirkjalög, sérstaklega um gæðastjórnun , grein 24, og almennar athugasemdir og athugasemd um grein 24 á vef Alþingis um lög 160,2010, síðan lögin sjálf, byggingareglugerð og útgáfur Mvs.
  Ég var byrjaður að skrifa greinakorn upp úr því öllu saman en komst að raun um að það yrði það mikil langloka , þó síðar kunni að verða nauðsynleg, að æra myndi óstöðugan. Ég á þó uppkastið enn og er reiðubúinn láta A.Í. hafa þá punkta hvenær sem er , þegar málið verður sent til umboðsmannns Alþingis til skoðunar , sem ég vona svo sannarlega.
  Ég tók á mig rögg fyrir skömmu vegna deadline 1. janúar 2015. Mér fannst frumvarpið, lögin og svo reglugerðin virka eins og enginn arkitekt hefði komið þar nærri, eins og sýndi sig þegar ég las frumvarp nr. 160,2010 og lögin í framhaldinu , sem finna má með því að slá þessar tvær fyrrgreindar tölur inn í leitarramma á heimasíðu Alþingis.

  Í stuttu máli komst ég m.a. að þessu við lestur frumvarpsins:
  Í nefnd um endurskoðun byggingarlagaþáttarins áttu sæti: Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri umhverfisráðuneytinu, formaður, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, Smári Þorvaldsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, Ágúst Þór Jónsson, verkfræðingur, tilnefndur af forsætisráðuneyti, Eyjólfur Bjarnason, tæknifræðingur, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Magnús Sædal, byggingarfulltrúi, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Björn Karlsson, brunamálastjóri, tilnefndur af Brunamálastofnun.
  Nefndinni var ætlað að hafa náið samráð við eftirtalda aðila við gerð frumvarpsins: Ólaf K. Guðmundsson, byggingarfulltrúa, tilnefndan af Félagi byggingarfulltrúa, Baldur Þór Baldursson, húsasmíðameistara, tilnefndan af Meistarafélagi húsasmiða, Sigmund Eyþórsson, slökkviliðsstjóra, tilnefndan af Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Stefán Thors, skipulagsstjóra, tilnefndan af Skipulagsstofnun, Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðing hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, tilnefndan af iðnaðarráðuneyti, Hauk Ingibergsson, forstjóra, tilnefndan af Fasteignamati ríkisins, Kristján Sveinsson, verkfræðing, tilnefndan af Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Guðjón Bragason, skrifstofustjóra, tilnefndan af félagsmálaráðuneyti, og Guðmund Magnússon, tilnefndan af Öryrkjabandalagi Íslands.

  Sem sagt enginn arkitekt í nefndinni , nema Stefán Thors, starfsmaður ráðuneytisstofnunar, en hins vegar fullt af fulltrúum annarra stafsgreina eins og verkfræðingum, fulltrúi Meistarafélags húsasmiða o.s.frv. Ekki var það beisið , eiginlega lítilsvirðing gagnvart arkitektum , sem þó eru höfundar mannvirkjanna.

  Og líka komst ég að þessu:
  Í störfum sínum leitaðist nefndin við að kljúfa sem gleggst á milli þeirra ákvæða sem annars vegar eiga að vera í skipulagslögum og hins vegar í byggingarlögum og sendi hugmyndir sínar til nefndar sem sérstaklega var falið að endurskoða skipulagsþátt laganna, sbr. það sem segir hér á undan. Byggist þetta fyrst og fremst á því að framkvæmd byggingarlaga sé tæknilegs eðlis en skipulagslög eru í eðli sínu bundin mótun stefnu um landnotkun.

  Þetta stenst ekki skoðun. Arkitektúr, byggingarlist, er á nákvæmlega sama hátt bundin stefnu og landnotkun, hvort tveggja er grunnur mannvirkja og óaðskilanlegt í eðli sínu . Þetta hefði fulltrúi arkitekta í nefndinni auðveldlega getað leitt mönnum fyrir sjónir , enda er skipulagsgerð undanþegin gæðastjórnunarkröfum Mannvirkjastofnunar lögum samkvæmt! Guð má vita hvers vegna endilega skipulag frekar en byggingar, sem hvort tveggja eru höfuðviðfangsefni arkitekta og byggjast á nákvæmlega sama grunni.

  Og sömuleiðis þessu:
  Eftirlit með einstökum þáttum á að vera hægt að fela faggiltum aðilum og skoðunarstofum jafnt opinberum sem og á almennum markaði en ábyrgðin á eftirlitinu yrði eigi að síður í höndum byggingarfulltrúa og Byggingarstofnunar (þ.e. Mvs. innskot BHJ) eftir atvikum.

  Þetta er ákaflega loðið og illskiljanlegt. Fer það eftir dagfari hvað verður í einstökum tilfellum?
  Ég las áfram og um gæðastjórnunarkerfið í lögunum og byggingarreglugerðinni, grein 24, í báðum tilfellum, og líka efni útgefið af Mannvirkjastofnun.
  Ég komst að raun um að efnisatriðin , varðandi gæðakröfur löggjafans og Mvs. eru nánast öll uppfyllt með þeim einfalda hætti að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar að öðru leyti. Starfsfólk byggingarfulltrúa sér um að teikningar séu í lagi af stakri prýði og bendir á ef eitthvað má betur fara, stundum mistúlkar arkitekt reglugerðina og það getur líka komið fyrir starfsfólk byggingarfulltrúa . Þá er það leiðrétt og allir ánægðir og er bara alveg ágætis fyrirkomulag og heldur utan um hið byggða umhverfi á Íslandi og svo mun einnig vera háttað til í öðrum löndum álfunnar og hefur reynst vel. Að þessu loknu fer málið til byggingarnefndar til samþykktar. Þetta eru samskipti byggð á persónulegri nánd og unnið af ábyrgð og samviskusemi um hvert einstakt byggingar og skipulagsmál af báðum aðilum. Sem betur fer segi ég. Og bæta má við að arkitektar eru allir með starfsábyrgð á eigin vinnu.

  Að lokum las ég blað Mvs. útgefið 07.04.2014 sem heitir: Skoðun á gæðastjórnunakerfi hönnuða og hönnunarstjóra . Undarlegt ,undarlegt orð hönnunarstjóri. Og margt fleirra gat að líta, en læt þetta nægja til að þreyta ekki lesanda. Hefur það ekki altaf verið hlutverk arkitekta að samræma teikningar arkitekta og annarra t.a.m. verkfræðinga og gengið bara ágætlega.Getur það verið öðruvísi?

  Og líka leiðbeiningar frá Mvs. á blaði dags. 04.04.2014 merkt 4.6.1. og hét Viðauki. Margt var þar fínt sem utanumhald til eigin brúks , annað ekki .
  T.a.m. samningar við verkaupa . Ég hélt að frjáls samningaréttur væri á Íslandi við verkkaupa m.a. vegna samkeppnislaga, kannske líka vegna persónuverndar. Er það misskilningur? Þetta dúkkar líka ennfremur upp í blaði 4.002 ds.07.04.2014 og heitir Skoðun á gæðastjónunarkerfi með númeruðum töluliðum svo texti og loks tvö box til að merkja við í lagi og ekki í lagi. Og svo var líka blað sem hét Athugasemdalisti Skoðun á gæðakerfum í byggingarreglugerð ds. 08.11.2013. Það var skrítið blað fannst mér.

  Og svo í blálokin. Ég hef talað við marga arkitekta vegna deadline á gæðastjórnunarkerfi 1. janúar, 2015. Það hafa verið einyrkjar, tvíyrkjar, fleiryrkjar og allt upp í margyrkja á risastórum (!) stofum á Íslandi.
  Allir hafa þeir lýst yfir áhyggjum vegna ofangreinds og setningar eins og “ Þetta er óþarfi”, “Ég nenni ekki að standa í þessu og læt einhvern annan skrifa upp á teikningar mínar”, “ Dekkar ekki byggingarreglugerð allar þessar upptalningar í gæðastjórnunarkerfinu?” sagðar fram og fleirra í þessum dúr. En menn virðast ekki átta sig á að ef þeir makka ekki rétt missa þeir um leið höfundarrétt á eigin verkum, missa starfsréttindi samkvæmt byggingareglugerð, sem þeir hafa öðlast í ströngu og löngu námi. Hvað segja menn um þetta? Er þetta í lagi?

  Bestu kveðjur
  Björn

 2. Hallmar Sigurðsson
  desember 19, 2014 | 11:06

  Ég hef fyrir hönd stjórnar og laganefndar beint erindi til lögfræðings með fyrirspurn um lagalegan grundvöll og réttmæti íþyngjandi kröfu um gæðakerfi, hvort löggjafinn sé með lagasetningu og/eða framkvæmdavaldið með reglugerð að svipta menn áður fengnum réttindum með ólögmætum eða óeðlilegum hætti þegar þessi krafa er skilyrði fyrir því að menn fái að halda réttindum sínum.

Deilið athugasemd

Arkitektafélag Íslands / Aðalstræti 2. 2.hæð / 101 Reykjavík  / +354 780 2228  / ai@ai.is / Pósthólf 590 – 121 Reykjavík
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er opin mánudaga til föstudaga milli kl. 9:00 og 13:00