Harpa

(16. apríl 2015 – FRÁ STJÓRN)

Það er ekki óalgengt að ferðamenn frá útlöndum snúi sér til skrifstofu AÍ og óski eftir aðstoð félagsins við að kynna sér byggingarlist á Íslandi. Oftast er um skemmri heimsóknir að ræða og áherslan þá á höfuðborgina og nágrenni hennar. Stundum eru það almennir ferðamenn sem óska aðstoðar en einnig kemur fyrir að fagaðilar og sérfræðingar óska aðstoðar við að mynda sér skoðun á íslenskri byggingarlist eða komast í samband við aðila í faginu. Af þessum ástæðum meðal annars var ákveðið á síðasta aðalfundi AÍ að koma á fót starfshópi sem hefði auk annars með höndum að móta einhverjar línur um hvernig slíkum fyrirspurnum verði best sinnt og hvað félagið leggur áherslu á að halda fram sem góðri byggingarlist. Stjórn mun bráðlega  setja slíkan starfshóp saman til samræmis við samþykkt aðalfundar. Stjórn AÍ óskar jafnframt eftir því að þeir arkitektar sem hugsanlega hafa áhuga á að taka að sér leiðsögn fyrir hönd félagsins láti það í ljós með tölvupósti á ai@ai.is