Einu sinni á ári halda norrænu arkitektafélögin fund þar sem farið er yfir sameiginleg málefni sem snerta félög og félagsmenn. Á síðasti ári var fundurinn haldinn hér í Reykjavík en í ár var það finnska arkitektafélagið, SAFA, sem boðaði til fundar. Helgi Steinar Helgason formaður stjórnar, og Gerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri AÍ, fóru fyrir hönd Arkitektafélagsins.

Fundurinn fór fram dagana 24. og 25. ágúst síðastliðinn. Fyrir fundinn þann 24. ágúst funduðu Helgi og Gerður með Hönnu Harris, sýningar-/verkefnastjóra finnska skálans á Feneyjartvíæringnum í ár. Við stefnum ótrauð á að Ísland taki þátt í arkitektatvíæringnum 2020 og vonum að það gangi eftir, en Arkitekafélagið hefur  skipað Önnu Maríu Bogadóttur í verkefnahóp um tvíæringinn.

Hér á eftir stiklum við á stóru um þau mál sem tekin voru fyrir á fundinum.

Feneyjartvíæringurinn 

Árið 2016 var fyrst haldinn sameiginlegur norrænn viðburður við upphaf tvíæringsins sem hefur hlotið nafnið The Nordic Party. Markmiðið með þessu er að vekja athygli á norrænum arkitektúr og norrænu skálunum á tvíæringnum. Farið var yfir markmiðið og kostnaðaráætlun með þennan viðburð. Íslendingum sem mæta á tvíæringinn hefur staðið til boða að sækja þetta partý og hafa gert hingað til. Ef Ísland tekur þátt árið 2020 má búast við enn stærri hópi Íslendinga sem sækja viðburðinn.

Sameiginlegt blað um norrænan arkitektúr 

Stefnt að því að gefa út sameiginlegt norrænt blað 1x í mánuði rafrænt og 1x á árið í prentútgáfu.    Markmiðið með blaðinu er tvíþætt, annarsvegar að vekja athygli á norrænum arkitektúr í alþjóðlegu samhengi, og hinsvegar á blaðið að vera upplýsandi fyrir stéttina sjálfa til að arkitektar geta  fylgst betur með störfum  annarra arkitekta á Norðurlöndunum. Verkefnið er í höndum Svía.

Norrænt samstarf 

Hvernig getum við styrkt norrænt samstarf? Markmið að styrkja norrænnt samstarf er m.a. til að auðvelda  okkur að sækja um norræna styrki. Danir halda utan um þessa vinnu. Ekki er búið að skrifa undir viljayfirlýsingu en stefnt er að því að skrifa undir hana sem fyrst.

Endurmenntun 

Norrænu félögin eru virk í gæðastjórnun á námi og endurmenntun. Hvernig endurmenntun vilja arkitektar? Eru arkitektaskólarnir að kenna réttu grunnatriði í arkitektúr miðað við tímana sem viðlifum í dag? Hvaða menntun þurfa arkitektar að  hafa í framtíðinni? Hvaða menntun þurfa kennarar aðhafa? Gætu norðurlöndin boðið upp á sameiginlega endurmenntun á netinu?

Byggingarstefna 

Farið yfir byggingarstefnur stjórnvalda í hverju landi fyrir sig. Hvaða stefnur hafa reynst vel og hvaða stefnur hafa ekki reynst eins vel. Hvernig geta félögin vakið athygli á núverandi stefnum?  Hvernig vinna stjórnvöld (ríki og borg) með arkitektafélögunum?

UIA ráðstefna í Kaupmannahöfn 2023 

Hvað eiga Norðurlöndin að gera sameiginlega? Ýmsum hugmyndum kastað á milli.

Alþjóðlegur dagur arkitektúrs 

Hvaða gera norrænu arkitektafélögin þennan dag? Rætt hvað hefur reynst vel og hvernig þetta er  fjármagnað.

25. ágúst – Vettvangsferð

Þann 25. ágúst fór allur hópurinn saman í ferð um Helsinki. Ferðin hófst með skoðun á glænýju safni, Amor Rex, sem er staðsett í miðbænum. Því miður gafst okkur ekki kostur á að fara inn í safnið. Áhugaverður arkitektúr þar á ferð og skemmtileg nálgun á nýtingu á rými. Þaðan var gengið að Kamppi kapellunni, en hún var byggð árið 2012. Kapellan, sem er byggð úr finnsku timbri og staðsett á erilsömum stað í miðbænum,  er griðastaður andlegrar íhugunar og þagnar og ekki bundin neinum trúarbrögðum. Frá  göngutúr um miðbæinn fórum við upp í rútu sem keyrði með okkur meðfram strandlengjunni og stoppaði  við nýja sánu,  Löyly, sem meðal annars var tilnefnd af tímaritinu, time.com sem staður sem vert væri að heimsækja árið 2018.

Frá Löyly var keyrt um gamla hafnarsvæðið sem áður var iðnaðarsvæði en er nú orðið að íbúðarhverfi.  Við enduðum síðan ferðina á ferð í Aalto háskólann, en byggingin sem við skoðuðum verður tekin í notkun nú í haust. Byggingin mun hýsa deildir arkitektúrs, hönnunar og lista.