Ein af ráðstöfum stjórnvalda í því árferði sem landsmenn standa nú frammi fyrir er að bjóða 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu manna við hönnun íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka. Þetta er fagnaðarefni fyrir arkitekta en endurgreiðslan er af vinnu sem innt er af hendi innan tímabilsins frá og með 1. mars til og með 31. desember 2020.

Breytingarnar fela í sér að hægt er að fá endurgreiðslu vegna vinnu á verkstað, hönnunar og eftirlits.

  • Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað.
  • Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis.
  • Endurgreiða skal eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess.
  • Endurgreiða skal eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.
  • Endurgreiða skal eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
  • Endurgreiða skal mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki.
  • Endurgreiða skal einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.

Hér  er hægt að fá nánari upplýsingar á vef Skattsins.

Hér er hægt að nálgast lögin á vef Alþingis, um er að ræða 7. gr.

Vakin er athygli á því að endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt þessu tekur ekki til virðisaukaskatts sem heimilt er að færa til innskatts í skattskyldum rekstri, sbr. VII. kafla laga um virðisaukaskatt. Þá er það einnig skilyrði fyrir endurgreiðslu að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskiptin eiga sér stað.