Aðalfundur Arkitektafélags Íslands var haldinn 20. febrúar s.l.í Iðnó. Auk venjulegra aðalfundarstarfa þar sem ársskýrsla og ársreikningur voru lögð fram var stjórn kosin. Ný stjórn félagsins er skipuð þeim Karli Kvaran sem var kjörinn formaður, Sigríði Maack og Böðvari Páli Jónssyni.

Á fundinum var lögð fram eftirfarandi ályktun:

Ályktun aðalfundar um arkitektasamkeppnir
Aðalfundur Arkitektafélags Íslands, haldinn í Iðnó, Reykjavík, miðvikudaginn 20. febrúar 2019, samþykkir eftirfarandi ályktun:

Arkitektafélag Íslands fagnar því að hönnunarsamkeppnir opinberra aðila skuli vera haldnar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, enda hvetja þær til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Samkeppnir með aðkomu fagfélagsins hafa um áratuga skeið verið mikilvægasti vaxtarbroddur í framþróun byggingarlistar í landinu.

Aðalfundurinn vill að gefnu tilefni vekja athygli á þeim eðlismun sem er á hefðbundu útboði annars vegar, þar sem tilboð í verk eru metin út frá mælanlegum stærðum, og hönnunarsamkeppni hins vegar, þar sem markmiðið er að fá fram bestu heildarlausn með tilliti til ólíkra, matskenndra þátta sem skilgreindir eru í samkeppnislýsingu undir Áherslum dómnefndar (sbr. grein 3.2.4 í Leiðbeiningum um Hönnunarsamkeppni frá 2011).

Aðalfundurinn ítrekar mikilvægi þess að félagið eigi a.m.k. tvo fulltrúa í dómnefndum og að dómnefndir hafi sjálfstæði til þess að meta tillögur samkvæmt þeim áherslum sem hún leggur til grundvallar í samkeppnislýsingu. Sjálfstæði dómnefnda er nauðsynlegt ef tryggja á að heildstæðar lausnir sem byggjast á vandaðri byggingarlist verði fyrir valinu í hönnunarsamkeppnum.

Aðalfundurinn áréttar jafnframt mikilvægi þess að leitað sé allra leiða til að semja við 1.verðlaunahafa, þegar til framkvæmda kemur. Ef nauðsynlegt reynist að breyta tillögu, t.d. vegna breyttra forsendna, skal ávallt leita til handhafa 1. verðlauna og gefa honum tækifæri til að aðlaga sína tillögu að nýjum forsendum.

Fundargerð aðalfundar AÍ febrúar 2019