Niðurstöður í hönnunarsamkeppni um nýtt 60 eininga hjúkrunarheimili á Húsavík voru kynntar
í gær 14. maí 2020. Alls bárust 32 tillögur í keppnina.

Fyrstu verðlaun hlaut Arkís arkitektar í samstarfi við Mannvit. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“

Teiknistofan Tröð hlaut 2. verðlaun, A2F arkitektar hlutu 3. verðlaun og innkaup fengu Andrúm arkitektar. Fjórar tillögur voru valdar sem athyglisverðar tillögur.

Dómnefndarálit í samkeppni um hjúkrunarheimili á Húsavík