Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins er öllum landsmönnum kunnur fyrir byggingar sínar.  Þegar Guðjón féll frá árið 1950 lét hann eftir sig erfðaskrá en Guðjón var bæði ókvæntur og barnlaus. Í erfðaskránni kemur fram að það sem verður afgangs af eignum hans skuli renna til Arkitektafélags Íslands (hét áður Húsameistarafélags Íslands) og skal peningum varið í að útbreiða þekkingu á húsagerðarlist sérstaklega í íslenskum anda.

Mörg af þekktustu manngerðu kennileitum landsins eru verk eftir Guðjón og hefur verið vinsælt um þónokkurt skeið að endurselja verk hans í formi póstkorta, bola, styttna og svo mætti áfram telja. Þar hefur verið vinsælast að endurgera Hallgrímskirkju í einhverskonar fomi.

Á Íslandi eru sérstök höfundalög (nr 73/1972) þar sem skýrt kemur fram réttur höfundar þegar verk hans eru notuð til endurbirtingar í einhverskonar mynd. Höfundasjóður Íslands, Myndstef, sem m.a. var stofnað af AÍ, hefur þann tilgang að fara með höfundarrétt félagsmanna vegna endurbirtingar og stuðla að almennri höfundarréttargæslu. Myndstef hefur umboð Arkitektafélagsins til þess standa vörð um höfundarétt Guðjóns og innheimta fyrir endurbirtingar verka hans

Síðastliðinn föstudag barst Arkitektafélagi Íslands höfundargreiðsla frá Myndstefi vegna ýmissa endurbirtinga undanfarin ár á verkum Guðjóns upp á 1.346.780 kr. Þessi peningur er veruleg upphæð fyrir félagið og mun það verja þessu fjármagni á sem skynsamlegasta máta félagsmönnum og almenningi til góðs. Frekari upplýsingar um úthlutun fjárins verða veittar síðar.

Við erum Guðjóni Samúelssyni og Myndstefi mjög þakklát fyrir þessa óvæntu og gleðilegu innspýtingu inn í félagið.