Nú þegar skórinn kreppir að og almenningi býðst að kaupa þjónustu arkitekta með 100% endugreiddum virðisaukaskatti er mikilvægt sem aldrei fyrr að láta vita af sér og sinni þjónustu.

Sú mýta hefur fest sig í sessi meðal margra arkitekta að þeim sé ekki heimilt að auglýsa sig. Ástæða þess gæti verið að í fyrstu eiginlegu siðareglum A.Í., sem samþykktar voru á aðalfundi Arkitektafélagsins 11. maí 1956, hljóðaði 9. gr svona:

Ekki mega félagar A.Í. auglýsa sig né á annan hátt greiða fé, eða aðra þóknun til þess að láta sín getið á opinberum vettvangi eða leiða að sér athygli.
 
Í nýjustu siðareglum félagsins, frá árinu 2001, er 9. gr. farin út, en 6. gr tekur á auglýsingum og kynningum. Þar segir:

6.           AUGLÝSINGAR OG KYNNING 

 6.1.       Arkitekt skal gæta þess að veita ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða á annan hátt. Honum er óheimilt að afla sér viðskipta með óréttmætum viðskiptaháttum.

Þarna kemur hvergi fram að félagsmenn megi ekki auglýsa sig, heldur eingöngu að arkitekt verði að gæta þess að veita ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum.

Margar leiðir eru færar fyrir arkitekta til að láta vita af sér og auðvelda almenningi að veita upplýsingar um þá þjónustu sem arkitektinn veitir.  Að sjálfsögðu gildir sama reglan í byggingarlist og í öðrum geirum að góð vara og þjónusta auglýsir sig sjálf. Það er þó ávallt þannig að sama hversu góða þjónustu og vöru þú ert með, það er mikilægt að minna á sig.

Vefsíða: Við hvetjum alla félagsmenn að huga vel að vefsíðunni sinni. Góð vefsíða er gríðarlega mikilvægt tæki á okkar stafrænu tímum. Gott er að vefsíða innhaldi:

  • Myndir af fyrri verkum. Gott að flokka niður eftir eðli, t.d. einbýlishús, sumarbústaðir, breytingar á húsnæði, verslunarhúsnæði, skipulag etc.
  • Upplýsingar um starfsmenn stofu og menntun þeirra
  • Upplýsingar um hvernig best er að nálgast stofuna: Virkt netfang og símanúmer.
  • Einnig er gott að fram komi t.d. ef stofan eða starfsmenn hennar hafa hlotið verðlaun eða viðurkenningar fyrir störf sín.

Samfélagsmiðlar: Nú er auðvelt að nálgast almenning í gegnum samfélagsmiðla. Við hvetjum stofur og sjálfstætt starfsandi arkitekta til að vera dugleg að nota samfélagsmiðla, hvort sem það er instagram, facebook eða aðrir miðlar.

Keyptar auglýsingar: Að sjálfsögðu er alltaf í boði að kaupa auglýsingar í fjölmiðlum. Það eru þá annarsvegar í rit- og vefmiðlum, útvarpi og/eða sjónvarpi. Það er mun kostnaðarsamara en ofangreindar leiðir en með auglýsingum er hægt að ná til breiðs hóps af fólki, ef það er markmiðið.

Að sjálfsögðu er þetta ekki tæmandi listi. Við hvetjum ykkur nú til að huga vel að því hvernig þið og ykkar stofa birtist almenningi og minna á 100% endurgreiðslu af VSK sem almenningi býðst til 31. desember 2020.