Basalt arkitektar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2018 en verðlaunin hlutu þau fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu. Basalt arkitektar hafa lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Nýjustu dæmin eru The Retreat við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia og GeoSea sjóböðin á Húsavík.

Umsögn dómnefndar

„Basalt arkitektar hafa einstakt lag á að tvinna mannvirki saman við náttúruna og hafa sýnt gott fordæmi þegar kemur að hönnun baðstaða. Byggingarlistin er í hæsta gæðaflokki þar sem hvert smáatriði er úthugsað og rými eru hönnuð af virðingu og látleysi. Arkitektúrinn skapar ramma fyrir einstaka upplifun gesta í stórbrotinni náttúru landsins.“

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fimmta sinn föstudagskvöldið 2. nóvember. Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum en forsætisráðherra Íslands Katrín Jakobsdóttir,afhenti verðlaunin. Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt samfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar og einnig gildi hönnunar og skapandi hugsunar þvert á atvinnugreinar.

Við óskum Basalt arkitekum innilega til hamingju með verðlaunin!

Ljósmynd: unday & White Photography