Hátt í 100 tilnefningar bárust dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2018.  Dómnefnd hefur nú valið fjögur verk sem þykja framúrskarandi og er ánægjulegt að segja frá því að tvö af þeim verkum sem tilnefnd eru, eru eftir arkitekta. Þau fjögur verk sem tilnefnd eru til Hönnunarverðlauna Íslands 2018 eru eftirfarandi:

Bækur í áskrift fyrir Angústúru forlag en bækurnar eru hannaðar af grafísku hönnuðunum Snæfríði Þorsteins og Hildigunni Gunnarsdóttur. Angústúra forlag býður upp á vandaðar þýðingar í áskrift sem gefa innsýn í ólíka menningarheima. Snæfríð og Hildigunnur hönnuðu heildarútlit áskriftaraðarinnar.

The Retreat við Bláa lónið og Geosea sjóðböð á Húsavík hönnuð af Basalt arkitektum. The retreat er nýtt hótel, veitingastaður og heilsulind, hannað af Basalt arkitektum í samstarfi við Design group Italia. Anna nýtt baðsvæði úr smiðju Basalts arkitekta er Geosea sjóböðin á Húsavíkurhöfða.

Catch of the day hannað af Birni Steinari Blumenstein. Markmiðið með verkefninu er að berjast gegn matarsóun sem er gríðarstórt vandamál á heimsvísu.

Norðurbakki í Hafnarfirði hannað af PKdM arkitektum og teiknistofunni Storð. Verkefnið Norðurbakki samanstendur af tveimur fjölbýlishúsum, ásamt garði á milli sem tengir þau saman, nálægt gömlu höfninni í Hafnarfirði.

Hönnunarverðlaun Íslands 2018 verða afhent í fimmta sinn, föstudaginn 2. nóvember næstkomandi. Upplýsingar um tímasetningu og stað verða auglýst síðar.