Tvö ár eru liðin frá því íslenska bankakerfið hrundi og tók heila atvinnugrein með sér í fallinu, síðan hefur ríkt algjör kyrrstaða í byggingariðnaði.  Í Reykjavík var lokið við 127 íbúðir á árinu 2009 og er það fordæmalaust í þau 80 ár sem skráð eru, eina undantekningin er hernámsárið 1940. Ekki virðist bóla á bata!  Umræða um leiðir til þess að vinna sig út úr vandanum og mæta framtíðarþörf og uppbyggingu er lítil og ómarkviss.

Hvað þarf til? Hvað fór úrskeiðis? Verður framtíð byggð án lærdóms hins liðna? Hvernig verður byggt upp?

Þessum spurningum er ósvarað.  Til að leita svara hafa neðanskráð félagssamtök tekið höndum saman til að skapa umræðuvettvang um framtíðina á breiðum grunni. Málþing með undir yfirskriftinni Betri byggingariðnaður – frá óvissu til árangurs verður haldið fimmtudaginn 11. nóvember 2010 á Grand Hótel Reykjavík.
Finnski arkitektinn Vesa Juola verður sérstakur gestur ráðstefnunnar og dagskráin er fjölbreytt og efnismikil.
Nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu og hóflegt þátttökugjald verður send út síðar.

Tökum daginn frá og sýnum samstöðu með því að fjölmenna á málþingið fimmtudaginn 11. nóvember n.k. um þann mikla vanda sem steðjar að okkur öllum, minnug þess að mitt í öllum erfiðleikum má finna tækifæri.

„Það eru hvorki þeir sterkustu né þeir gáfuðustu sem lifa af heldur þeir sem laga sig best að breyttum aðstæðum.“
Charles Darwin
Arkitektafélag Íslands, Byggingafræðingafélag Íslands, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, Félag byggingafulltrúa, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Meistarafélag húsasmiða, Samtök iðnaðarins, Skipulagsfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands.