Nú á vordögum var stofnaður Byggingavettvangur (BVV). Að honum standa, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Mannvirkjastofnun, Íbúðalánasjóður, þrjú ráðuneyti, menntastofnanir, fyrirtæki og aðilar sem starfa á sviðum sem tengjast byggingarstarfsemi með einhverjum hætti.

Byggingavettvangurinn hefur aðsetur í Húsi atvinnulífsins Borgartúni 35, 4 hæð.

Markmið Byggingavettvangsins er að vera fyrirtækjadrifinn samstarfsvettvangur fyrirtækja, stofnana, hagsmunaaðila og annarra aðila innan byggingageirans. Tilgangur félagsins er að efla innviði og auka samkeppnishæfni innan byggingageirans með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem innan hans starfa, efla samtal innan geirans um hagsmunamál hans og stuðla að faglegri umræðu. Greind verða tækifæri byggingaiðnaðarins til að auka framleiðni, auka skilvirkni og nýsköpun á þessu sviði og stuðla að faglegri mannvirkjagerð meðal annars með áherslu á eflingu nýsköpunar, tækniþekkingar, rannsókna og þróunar. Þá er ætlunin að vettvangurinn stuðli að framþróun innan byggingageirans, taki saman og miðli upplýsingum um geirann og stuðli að víðfemara framboði þjónustu, menntunar og þekkingar.

Þá standa vonir til að Byggingavettvangurinn geti lagt mikilvægum hagsmunamálum byggingageirans lið með t.d. reglulegum málþingum og greinaskrifum.

Fyrirséð er að verkefni sem þetta þarfnast velvildar, stuðnings og þátttöku sem flestra sem starfa á sviði bygginga og mannvirkja og ekki síður þeirra sem láta sig málefni byggingariðnaðarins varða eða þjónusta hann.

Hér er á ferðinni stórt, metnaðarfullt og mikilvægt verkefni fyrir byggingariðnaðinn í heild og mikilvægt að sem flestir sjái sér fært að vera þátttakendur með stuðningi sínum við verkefnið, þátttöku, mætingu á viðburði og álitsgjöf um hin ýmsu mál sem þarfnast umsagnar og umræðu.

Hér er því kallað eftir þinni þátttöku og stuðningi. Til að byrja með í formi þátttöku í væntanlegri skoðanakönnun um málefni byggingageirans, með því að gerast samstarfsaðili og með þátttöku í umræðu Byggingavettvangsins um hagsmunamál byggingariðnaðarins og styðja við framþróun hans og virðisauka.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt og fylgjast með umræðu Byggingavettvangsins senda upplýsingar á byggingavettvangur@si.is um sín netföng og fá þá í kjölfarið fréttir af Byggingavettvangnum og þeim viðburðum sem framundan eru.

hofudborgarsvaedid

(Sett á vef 30. ágúst 2016)