Forval vegna hönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala við Hringbraut var auglýst þann 23. desember 2009. Valin verða 5 hönnunarteymi sem samanstanda af arkitektum, verkfræðingum og öðrum sérfræðingum. Verkefnið er að skila inn samkeppnistillögu um áfangaskipt skipulag fyrir Landspítalasvæðið í heild og útfærslu 1. Áfanga, sem er spítalastarfsemi í 66.000m2 nýbyggingu. Að lokinni samkeppni mun það teymi sem er hlutskarpast í samkeppninni vinna að hönnun verkefnisins fram að einkaframkvæmdarútboði en starfi að því loknu að verkefnisstjórn og hönnunarrýni með verkkaupa. Tilkynningum í forvalið skal skila15. febrúar klukkan 14:00 til Ríkiskaupa.

Miklir hagsmunir eru í húfi þegar úthlutað er verkefni af þeirri stærðargráðu sem fyrirhugaður Landspítali við Hringbraut er. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikilvægt að jafnræðis og samkeppnissjónarmiða sé gætt í hvívetna. Forval fyrir hönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala á að vera hafið yfir allan vafa að svo sé.

Stjórn Arkitektafélags Íslands hefur fengið hörð viðbrögð við forvalinu frá sínum félagsmönnum.

Viðbrögðin beinast helst að því að ekki sé gætt jafnræðis og samkeppnissjónarmiða. Málefnalegar forsendur liggja ekki til grundvallar við mat á hæfi þátttakenda. Fyrirkomulag einkaframkvæmdarútboðs er óljóst. Vafasamar kröfur eru um framsal höfundaréttar. Forvalið er inngrip í hefðbundin störf arkitekta og faglega ábyrgð þeirra.

Verkefnið eins og því er lýst í forvalsgögnum fellur að mestu undir starfssvið arkitekta. Aðkoma verkfræðinga að arkitektasamkeppni er óveruleg. . Ekki liggja fyrir nein gögn um kröfur til þeirra gagna sem teymin skulu útbúa í síðari áfanga, sem er frumhönnun og gerð útboðsgagna vegna einkaframkvæmd.

Vegna fákeppni á íslenskum verkfræðimarkaði eru takmarkaðir möguleikar við myndun teyma. Ákvæði í forvalsgögnum, sem heimila sama aðila að taka þátt í mörgum teymum orka tvímælis. Verkkaupi notar hér arkitektasamkeppni, sem aðferð til að velja verkfræðiráðgjafa til verkefnisins. Skilvirkari leið til að velja hæfustu verkfræðiráðgjafa til verkefnisins er að gera það að lokinni arkitektasamkeppni.

Ekki er gætt jafnræðis eða hugað að samkeppnissjónarmiðun þegar allt að 5 stigahæstu teymunum verður boðið að taka þátt í hönnunarsamkeppninni. Það tryggir stöðu þeirra sem áður hafa haft aðgang að stórum verkefnum og hindrar nýliðun á markaði.

Samræmingahönnuður og hönnunarstjóri vega 44% af heildarstigagjöf við mat teyma. Hæfismat lykilmanna takmarkast við að mæla byggingarmagn og reynslutíma auk kröfu um að þeir tali og skrifi góða íslensku. Það skiptir sköpum hvort reynsla viðkomandi mælist 9 eða 10 ár, 5 eða 6 ár við hönnun mannvirkja yfir 10.000m2. Ekki er lagt mat á gæði afurða eða fagmennsku sem liggur til grundvallar hæfismati þátttakenda. Góðir fagmenn eru útilokaðir frá verkefninu hafi þeir ekki áður haft tækifæri til að hanna 10.000m2 bygginar, eða reynsla við þá vinnu nær yfir skemmri tíma en forval gerir kröfur um. Forvalið setur fram kröfur til lykilmanna sem fáir uppfylla.

Forvalið gerir ríka kröfu til samræmingarhönnuðar. Verkefnið sem um ræðir felur ekki í sér gerð aðlauppdrátta eða samræmingahönnun í skilningi byggingarreglugerðar.

Teymi sem boðin er þátttaka í samkeppni skal  hafa yfir að ráða að lágmarki 100 háskólamenntaða sérfræðinga á sviði mannvirkjagerðar í vinnu, þar af skal ábyrðgaraðili hafa að lágmarki 30 starfsmenn sem uppfylla sömu kröfur. Kröfur forvals um mannafla er langt umfram það sem þarf til að leysa verkefnið. Fyrirhyggja verkkaupa með kröfugerð sinni um að hönnunarteymið þurfi að geta brugðist við óvæntum atburðum og náð að halda tímaáætlun stefnir annað hvort rekstri fyrirtækjanna í voða eða leiðir til óþarflega mikils kostnaðar við verkefnið að hálfu verkkaupa. Óvæntir atburðir í umræddu verkefni felast helst í því að hætt verði við verkefnið.

Gerð er krafa um að umsækjandi hafi teiknað minnst 100 rúma sjúkrahús til að fá stig í forvalinu. Til að fá fullt hús stiga þarf teymið að hafa hannað minnst þrjá 500 sjúkrarúma spítala á síðustu 10 árum. . Þess skal getið að ekkert íslenskt ráðgjafafyritæki eða arkitektastofa kemst á blað í þessu mati þar sem enginn þeirra hefur teiknað sjúkrahús með meira en 100 rúmum.

Verkkaupi hefur ákveðið að bjóða verkið út á þeim skilmála að höfundarréttur að teikningum og mannvirkjum skuli framseljast til íslenska ríkisins. Þessi skilmáli markar tímamót fyrir starfandi arkitekta á Íslandi og mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar til framtíðar vegna þess fordæmis sem málið gefur. Sá eðlismunur á sjúkrahúsum og öðrum byggingum er ekki fyrir hendi, sem rökstyður nausyn á framsali höfundarréttar.  Ekki er sýnt fram á að framsal höfundarréttar leiði af sér hagkvæmari eða betri mannvirki þegar til lengri tíma litið.

Kröfur í forvalsgögnum eru þannig smíðaðar að engin íslensk arkitektastofa getur tekið að sér verkið og staðið við skyldur sínar sem höfundur og ábyrgðaraðili verksins að óbreyttu.

Stjórn Arkitektafélags Íslands telur að réttmætisregla stjórnsýsluréttar sé brotin í forvalsgögnum. Arkitektum er stillt upp gegn afarkostum sækist þeir eftir eftir að vinna þetta mikilvæga verkefni. Margir góðir arkitektar hafa kosið að taka ekki þátt í umræddu forvali af framangreindum ástæðum.

Þessu mótmælir stjórn Arkitektafélags Íslands og krefst þess að forvalsgögnin verði endurskoðuð þannig að þau hæfi tilefninu, gætt sé jafnræðis og samkeppnissjónarmiða ennfremur að ákvörðun verkkaupa um framsal höfundarréttar verði hnekkt.

Með vinsemd og virðingu

Stjórn Arkitektafélags Íslands

Sigríður Magnúsdóttir,