Arkitektafélag Íslands ásamt Endurmenntun HÍ sótti um og hefur nú fengið 166.000 Evru styrk frá Leonardo-sjóði Evrópusambandsins. Styrkurinn er til þýðingar, staðfærslu og þróunar á námsefni um vistvænan arkitektúr.

Í verkefninu tekur Arkitektafélagið við samsvarandi námsefni frá samstarfsaðilum sínum í Danmörku og Skotlandi, þýðir, staðfærir og þróar og býr til kennslu á Íslandi í samstarfi við Endurmenntun, Iðuna og Tækniskólann. Í verkefninu er gert ráð fyrir að erlendir samstarfsaðilar fái að njóta þróunarvinnu íslenska starfshópsins.

Að tveim árum liðnum verður námsefnið til kennslu á endurmenntunarnámskeiðum fyrir fagmenn á sviði skipulags- og byggingamála, í starfsmenntun iðnaðarmanna og einnig er gert ráð fyrir opnum námskeiðum fyrir áhugamenn. Starfshópur Arkitektafélagsins stefnir á að gera námsefni um vistvæn gildi fyrir öll skólastig með tímanum og taka þátt í að koma Íslandi í fararbrodd í vistvænum lífsstíl og virðingu fyrir umhverfinu.

Hægt er að hala niður skýrslu Leonardohópsins á PDF formi hér.

f.h. Arkitektafélags Íslands

Starfshópur um vistkennslu