Dagana 1. – 2. júní héldu UIA (Union international des architectes/Alþjóðleg samtök arkitekta) og norrænu arkitektafélögin stjórnarfund hér á landi.

Helgi Steinar Helgason, formaður AÍ, og Gerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri AÍ, tóku þátt í fundi þann 2. Júní fyrir hönd Arkitektafélags Íslands þar sem UIA og norræna deildin funduðu sameiginlega fyrir hádegi og norræna deildin eftir hádegi.

Þessi fundur var gagnlegur en það er áhugavart að heyra í kollegum okkur, fá að heyra hvað nágrannaþjóðirnar eru að takast á við og vita hvaða leiðir þær fara til að ná settum markmiðum.

Fundurinn 2. júní hófst á kynningu Ing. Karel Smejkal frá Tékklandi á INSPIRELI, sem er tengsla- og kynninganet arkitekta á netinu. Þar geta arkitektar sett upp sinn eigin prófíl og kynnt verkefni sín. Markmiðið með INSPIRELI er að gefa arkitektum tækifæri á að kynna verkin sín fyrir umheiminum og gefa fólki tækifæri á að kynnast því hvað er að gerast í arkitektúr út í heimi. Ungt fólk er sérstaklega hvatt til að kynna sig á INSPIRELI og veitir fyrirtækið árlega viðurkenningu til ungra arkitekta (<35 ára). Í dag eru 148.279 arkitektar skráðir á INSPIRELI af 116 þjóðernum. Skráning á INSPRIELI er án endurgjalds og hvetjum við hvern þann sem hefur áhuga að kynna sér þetta verkefni nánar. https://www.inspireli.com/en/

Eftir kynningu á INSPIRELI tóku við umræður um 17 markmið sameinuðu þjóðanna í sjálfbærri þróun (UN 17 Sustainable Development Goals) og hlutverk arkitekta til að ná þessum markmiðum. Danir, sem sitja í stjórn UIA fyrir hönd Norðulandanna kynntu sumarnámskeið UIA í arkitektúr sem þeir standa fyrir í Seoul í Suður Kóreu ( sjá: http://www.uiasummerschool.com/ ) en námskeiðið er unnið í tengslum við heimsráðstefnu UIA sem haldinn verður í Seoul í september á þessu ári. Þema námskeiðisins er hlutverk menningar í sjálfbærri borgarhönnun. Fundinum lauk fyrir hádegi á kynningu á tillögu UIA fyrir UNESCO á World City of Architecture .

Eftir hádegi var fundur norrænu deildarinnar. Fulltrúar frá öllum Norðurlöndum mættu. Fundurinn hófest á því að hvert og eitt land kynnti helstu málefni hjá sínu félgi. Helstu niðurstöður fundarins voru: 1. Að félögin stefni að því að stofna regnhlífasamtök utan um norrænu arkitektafélögin, búa til einn stóran fisk úr fimm litlum smáfiskum. 2. Að félögin haldi sameiginlegt málþing á Feneyjartvíæringnum 2018 um norrænan arkikektúr, málþingið myndi fara fram sama dag og Norræna teitið (Nordic Party) yrði haldið. 3. Að félögin gefi út tímarit um norrænan arkitektúr. Markmiðið með blaðinu er að kynna norrænan arkitektúr á alþjóðlegum vettvangi. Ráðgert er að fyrsti vinnufundur vegna tímaritsins verði haldinn í ágúst á þessu ári.

Fundinum lauk með því að ákveðið var að næsti fundur norrænu arkitektafélagannaverði haldinn í Helsinki síðari hluta ágústmánaðar 2018.

Fundurinn var gagnlegur og fróðlegur og áhugvert að hitta kollegana til þess að bera saman bækur okkar . Það kom greinilega í ljós að varað öll virðast félög Norðurlandannastanda frammi fyrir sömu eða svipuðum verkefnum, þ.e. eflingu á þátttöku félagsmanna sinna, kynningu á arkitektúrfagin fyrir almenningi ásamt því að berjast fyrir virðingu fyrir faginu bæði inn og út á við. Við sem erum í fararbroddi fyrir AÍ getum vonandi nýtt sameiginlegan mannauð í að leysa verkefni sem við stöndum frammi fyrir og miðalað einnig okkar reynslu. Sem dæmi um reynslu sem við getum miðlað til hinna félaganna er tilurð og saga Hönnunarmiðstöðvar en Arkitektafélag Færeyinga hefur hug að á að koma á fót slíkri miðstöð hjá sér.

Á laugardeginum 3. júní bauð stjórn AÍ fundargestunum í skoðunarferð þar sem skoðuð voru nokkrar af nýjustu byggingum okkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ferðin hófst á því að arkitektarnir Haraldur Örn Jónsson og Kristján Garðarsson hjá Andrúm tóku á móti hópnum í Veröld –hús Vigdísar. Þaðan var ferðinni heitið í Hörpu þar sem Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu leiddi okkur um bygginguna. Því næst keyrðum við til Mosfellsbæjar og skoðuðum FMOS fjölbrautaskóla sem Aðalheiður Atladóttir hjá A2F leiddi okkur um og að lokum var haldið í Bláa lónið þar sem Hrólfur Karl Cela leiddi hópinn meðal annars um nýbyggingu lónsins. Að lokum skelltu gestir okkar sér ofan í lónið í boði Bláa lónsins.

Óhætt er að segja að fundirnir og ferðin hafi gengið vel og þökkum við kollegum okkar fyrir komuna.