Hönnunar- og arkitektúrdeild býður til opins gegnumgangs um útskriftarsýningu arkitektúrnema í Listaháskóla Íslands. Þar munu nemendur og leiðbeinendur kynna verkefnin, svara spurningum og taka þátt í spjalli.

Gegnumgangurinn verður sunnudaginn 21. maí, klukkan 14:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu.

Jökulsárlón
Útskriftarverkefni 3. árs nema í byggingarlist vorið 2017
23.01.2017 – 04.05.2017
64°03′ 08″ N 16°21′ 37″ V

Nemendur eiga að hanna eina eða fleiri þjónustubyggingar fyrir ferðamenn á svæði við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Nemendum er frjálst að velja staðsetningu fyrir mannvirki(ð) innan afmarkaðs svæðis í kringum lónið. Gert er ráð fyrir að þjónustubygging(ar) innihaldi grunn­þjónustu fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila auk þess að sinna sérhæfðri ferðaþjónustu staðarins. Það er nemendum frjálst að velja hvort þeir hanni eingöngu þjónustubyggingu fyrir núverandi starfsemi við lónið, prjóni við þá starfsemi eða velji nýja nálgun.
Áhersla er lögð á að nemendur skapi heildræna sýn fyrir allt svæðið og sýni hvernig hið manngerða umhverfi er hugsað í samhengi við náttúru staðarins, allt frá þvi að ferðalangurinn beygir af Þjóðvegi 1 og þangað til að hann tengist honum á ný.