Alþjóðlegur dagur arkitektúrs er haldinn fyrsta mánudag í október ár hvert. Í ár rennur sá dagur upp mánudaginn 7. október. Markmiðið með deginum er að taka tíma frá og vekja athygli á arkitektúr, hvort sem það er innan fagsins, fyrir fagaðila í byggingariðnaði, fyrir stjórnvöld eða fyrir almenning. Fyrir ári síðan buðu félagsmenn upp á göngur um nærumhverfi sitt. Alls urðu göngurnar sex, þrjár í Reykjavík, ein í Garðabæ, ein í Borgarfirði og ein á Akureyri. Göngurnar voru mjög vel sóttar og var mikill áhuga á þessum göngum. Í ár ætlum við að endurtaka leikinn.

Hvernig förum við að?

Til að þetta geti átt sér stað þurfum við þátttöku ykkar. Hvort sem þið kjósið að vera ein, í pörum eða í tríói, þá hvetjum við ykkur til að kynna fyrir landsmenn ykkar uppáhalds hverfi/götu/hús þann 7.október.  Sendið póst á ai@ai.is og látið okkur vita hvar þið viljið leiða göngu. Gott væri ef öll skráning væri komin inn á borð til okkar sunnudaginn 22. september.

Hvaða göngur voru farnar í fyrra?

Myndir frá alþjóðlegum degi arkitektúrs

Hvar og hvenær?

Alþjóðlegur dagur arkitektúrs verður haldinn hátíðlega um heim allan mánudaginn 7. október. Göngurnar fara fram þann daginn á milli kl. 17:30-18:30.  Svo væri gaman að hittast hér í Aðalstræti 2 eftir göngurnar og fagna vel heppnuðum degi.

Hvernig kynnt?

Til að þetta heppnist sem best verður að kynna þetta vel. Arkitektafélagið mun sjá til þess að kynna þennan dag vel á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Í fyrra fékk þetta góða dreifingu á samfélagsmiðlum og ágæta umfjöllun í fjölmiðlum.

Ef einhverjar spurningar vakna, þá ekki hika við að hafa samband með því að senda póst á netfangið ai@ai.is eða með því að hringja í síma: 7802228 (skrifstofan er opin milli kl. 9:00-13:00).