Mánudaginn 13. mars kl.12:15 heldur Angelo Bucci fyrirlesturinn „SPBR recent works“ í fyrirlestraröð hönnunar- og arkitektúrdeildar Listahákóla Íslands, GESTAGANGI. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal A í Þverholti 11.

SPBR er arkitektastofa stofnuð í Sao Paulo í Brasilíu árið 2003 af Angelo Bucci.
www.spbr.arq.br

Angelo Bucci hefur helgað sig hönnun bygginga síðastliðin 25 ár og skipt tíma sínum jafnt á milli fagsins og akademískra starfa. Þetta uppbrot á starfi hans hefur mótað sérstæða nálgun í verkefnum SPBR þar sem hvert verkefni er nýtt til rannsókna og til að þróa nýjar hugmyndir.

Verkefnin bera merki gagnrýnnar sýnar á ákveðna þætti í nútímaarkitektúr, og draga fram mikilvægi nákvæmni í burðarvirki og aðgreinanleika, lífvænleika smíðinnar, gagnsæi og síðast en ekki síst mikilvægi þess að nýta borgarrými til að skapa samtal milli ólíks arkitektúrs. Verk SPBR njóta aukinnar virðingar og hafa hlotið viðurkenningar í samkeppnum, á ráðstefnum, í útgáfum og á sýningum, í Brasilíu og um allan heim.

Það sem drífur SPBR áfram er hvatinn til að uppgötva og rannsaka nýja möguleika, með það markmið að virkja öll skilningavitin, með reynsluna í veganesti og betri nýtingu auðlinda að leiðarljósi.

Angelo Bucci hefur verið prófessor við FAU USP síðan 2001 og einnig gestaprófessor í Argentínu, Chile, Ekvador, Ítalíu, Sviss (ETH Zurich, 2013-14) og Bandaríkjunum (ASU, 2005; Berkeley, 2006; GSD Harvard 2008; UT Austin, 2010; Yale, 2013; MIT, 2008, 2016 og 2017). Árið 2011 var hann gerður að heiðursfélaga (e. Honorary Fellow) við American Institute of Architects (HF AIA). Verk hans hafa verið sýnd um allan heim í ritum, fyrirlestrum og sýningum.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við PKdM arkitekta. Hann fer fram á ensku og eru allir velkomnir.