Verum sýnileg – tökum þátt

Við hjá markaðsnefnd arkitektafélagsins viljum hvetja félagsmenn til að taka þátt í Hönnunarmars 2013 sem fer fram 14. – 17. mars næstkomandi. Það verður ekki skipulögð samsýning á vegum félagsins í ár þannig að það er undir fyrirtækjum og einstaklingum komið að standa fyrir viðburðum á Hönnunarmars þetta árið.

Hönnunarmars er vettvangur fyrir íslenska hönnuði til að sýna sín verk hérlendis en ekki síður til að koma sér á framfæri á erlendum vettvangi. Það gerist að stórum hluta með umfjöllun erlendra fjölmiðla. Slík umfjöllun bæði stækkar tengslanetið og þá er ekki síður mikilvægt að fá umsögn og álit utanaðkomandi fagaðila á verkum sínum.

Samkvæmt Sari hjá Hönnunarmiðstöð þá er von á fjölmiðlum frá Evrópu og Bandaríkjunum og stærstu dagblöðunum í Skandinavíu svo sem Politiken og Dagens Nyheter.  Einnig má nefna Der Spiegel, ABC og hönnunartímaritin FORM, Creative Review, Wallpaper, Dezeen og Design Week og gætu enn fleiri átt eftir að bætast við.

Opnað hefur verið fyrir skráningar í dagskrá HönnunarMars sem fram fer í fimmta sinn dagana 14. – 17. mars 2013. Frestur til að skrá viðburði rennur út á miðnætti fimmtudaginnn 7. febrúar. Hér er hægt að nálgast allar upplýsingar varðandi skráningu viðburða. 

Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fundinum Hönnuðir hittast, í dag, miðvikudaginn 30. janúar, kl. 17:30 á Bergsson mathús, Templarasundi 3, 101 Reykjavík. Þar verða allir starfsmenn Hönnunarmars til staðar og munu leiðbeina áhugasömum og svara spurningum varðandi þátttöku. Við hjá markaðsnefnd verðum einnig til staðar til að leiðbeina félagsmönnum.

Sjáumst

Fyrir hönd markaðsnefndar

Kristján Örn Kjartansson