Arkitektúr fékk töluvert rými á HönnunarMars í ár og fögnum við því. Fjölmargir erlendir arkitektar mættu hingað til lands í tilefni af hátíðinni.  Á DesignTalks töluðu arkitektarnir Andreas Martin-Löf (SE), Steinþór Kári Kárason og landslagsarkitektúrteymið Dr. Leena Cho (BNA) og Dr. Matthew Jull (BNA). Á Design Diplomacy pöruðust saman arkitektarnir Rami Bebawi (CA) og Borghildur Sturludóttir, Reiulf Ramstad (NO) og Hrólfur Cela, Rahel Belatchew (SE) og Steinþór Kári Kárason og landslagsarkitektarnir Leena Cho (BNA) og Þráinn Hauksson og sköpust áhugaverðar og skemmtilegar umræður um arkitektúr og störf arkitekta í þessum samtölum.

Auk þessarar skipulögðu dagskrár frá Hönnunarmiðstöð voru fjölmargir aðrir viðburðir á HönnunarMars. Til að mynda sýningarnar Önnur sæti í Arionbanka, Umbreytingar í Þjóðminjasafninu, Hvað svo? í Ráðhúsinu sem og leiðsögn um Marshallhúsið og strætóferð með borgarstjóra um nýju Reykjavík. Þessi listi er þó langt í frá tæmandi enda eins og fyrr segir var arkitektúr mjög sýnilegur í ár.

Arkitektafélag Íslands stóð fyrir þremur viðburðum á HönnunarMars.

  • Málþinginu Hvernig? Málþingi um samkeppnir en þar töluðu frummælendurnir Sigríður Magnúsdóttir, Sigrún Birgisdóttir og Steve Christer um samkeppnir í stóru samhengi. Það er ljóst af þessu málþingi að þörf er að frekari umræðu um samkeppnir hjá arkitektum og mun Arkitektafélagið halda samtalinu gangandi. Málþingið var haldið í Arionbanka og var Halldór Eiríksson fundarstjóri.
  • Birgir Þröstur Jóhannesson sýndi frumgerð af svífandi göngustígum á Ingólfstorgi. Verkefnið var unnið í samstarfi við Arkitektafélagið og hélt Arkitektafélagið opnun á sýningu Birgis miðvikudaginn 14. mars.
  • Málþinginu Morgunhugleiðing um arkitektúr en málþingið var unnið í samstarfi við Samark, SI, LHÍ og Hönnunarmiðstöð. Þar deildu arkitektarnir Rami Bebawi, Rahel Belatchew og Reiulf Ramstad áherslum og innblæstri í starfi sínu. Málþingið var haldið í Þjóðminjsafninu og var Anna María Bogadóttir fundarstjóri.