Vinsamlegast athugið: NLFÍ hefur ákveðið að framlengja skilafrestinum í samkeppninni til 20. maí 2020. Þá er öðrum fyrirspurnatíma bætt við með skilafresti 9. apríl og svör við þeim fyrirspurnum munu berast eigi síðar en 20. apríl. Í ljósi aðstæðna er aðgengi að svæði og húsum NLFÍ takmarkað og óvæntar heimsóknir ekki leyfðar vegna veirunnar.  Hafa þarf samband við framkvæmdastjóra hjúkrunar, Margréti Grímsdóttur, margretg@heilsustofnun.is ef þátttakendur vilja skoða húsakynni.

Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) í samvinnu við Arkitektafélag Íslands (AÍ) efnir til opinnar hugmyndasamkeppni um enduruppbyggingu Heilsustofnunar (HNLFÍ) og framtíðaruppbyggingu á landi NLFÍ í Hveragerði þar sem starfsemi Heilsustofnunar er rekin, samkvæmt keppnislýsingu þessari og gildandi samkeppnisreglum AÍ.

Óskað er eftir tillögum að heildarskipulagi fyrir svæðið auk innra skipulags á byggingum Heilsustofnunar og heilsudvalarstaðar ásamt tillögum að áfangaskiptingu fyrir framtíðar uppbyggingu til lengri tíma. Gert er ráð fyrir að ráðist verði síðar í deiliskipulagsgerð á grundvelli niðurstöðu dómnefndar. Það er ósk NLFÍ að nýta landsvæðið á sem hagkvæmastan máta, en gert sé ráð fyrir stækkunarmöguleikum.

Fyrirhugað er að fjölga rekstrareiningum á svæðinu og endurnýja það húsnæði sem fyrir er eftir því sem við á. Keppnissvæðið er um 16 ha, en stærð á núverandi fasteignum er um 12.000 m2.

Tvö fyrirspurnartímabil eru í samkeppninni og lýkur því fyrra 27. janúar og því síðara 12. mars. Vakin er athygli á því að þessi samkeppni er rafræn. Skilafrestur tillagna er 22. apríl fyrir kl. 16.00. Lykildagsetningar eru hér meðfylgjandi:

10. janúar – Samkeppni auglýst
22. janúar – Vettvangsheimsókn (sjá frekari upplýsingar hér fyrir neðan)
27. janúar – Skilafrestur fyrirspurna (nr. 1)
6. febrúar – Svör við fyrirspurnum (nr. 1)
12. mars – Skilafrestur fyrirspurna (nr. 2)
23. mars – Svör við fyrirspurnum (nr. 2)
22. apríl – Skilafrestur tillagna – fyrir kl. 16:00

Samkeppnin er almenn hugmyndasamkeppni samkvæmt skilgreiningu Arkitektafélags Íslands og opin öllum þeim sem uppfylla skilyrði keppnislýsingar sbr. gr. 3.1. Útbjóðandi er fyrst og fremst að leita eftir grundvallarhugmyndum til lausnar á bæði heildarskipulagi svæðisins auk skipulags hverrar rekstrareiningar fyrir sig.

Í dómnefnd sitja:

Tilnefndir af útbjóðanda:

  1. Ingi Þór Jónsson, formaður dómnefndar. Markaðsstjóri Heilsustofnunar og stjórnarmaður NLFÍ
  2. Hrafnhildur Ólafsdóttir, arkitekt ARB, RIBA, JCA í London
  3. Guðmundur F. Baldursson, skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:

  1. Baldur Ó. Svavarsson, arkitekt FAÍ Úti/Inni arkitektar
  2. Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt FAÍ Basalt arkitektar

Vettvangsheimsókn: Boðið verður upp á vettvangsskoðun á vegum verkkaupa um keppnissvæðið 22. janúar 2020. Farið verður gangandi um svæðið og núverandi byggingar skoðaðar. Vettvangsferð hefst stundvíslega kl. 13:00 og er áætlað að ljúki um kl. 15:00. Hist er við aðalinngang Heilsustofnunar hjá sundlaug. Margrét Grímsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, mun sjá um vettvangsskoðunina. Þátttakendum er boðið til hádegisverðar kl. 12:00 í matsal Heilsustofnunar (valfrjálst). Tekið skal fram að vettvangsskoðun er ekki ætluð til fyrirspurna og er bent á fyrirspurnarfrest í því sambandi.

Samkeppnin fer fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

NLFÍ-Samkeppnislýsing

Hafa þarf samband við Helgu Guðjónsdóttur trúnaðarmann á trunadarmadur@ai.is til þess að skrá þátttöku í keppninni og fá afhent önnur keppnisgögn.