KRADS arkitektúr er með þeim yngri, en jafnframt ein af áhugaverðustu arkitektastofum hérlendis. Stofan er stofnuð af þeim Kristjáni Eggertssyni og Kristjáni Erni Kjartanssyni auk Mads Bay Möller, og síðan hefur Kristoffer J. Beilman bæst við hópinn. KRADS er með útibú beggja vegna hafsins – á Íslandi og í Danmörku – og fást við vítt svið verkefna, allt frá borgarskipulagi og hefðbundnum byggingarverkum til margvíslegra tilraunaverkefna og þróunarstarfs og mikil áhersla lögð á skapandi og ferskar lausnir sem vísa fram í tímann.

Af nýjustu verkefnum þeirra má meðal annars nefna verslunarmiðstöðina Kauptún í Garðabæ, 2. verðlaun í samkeppni um framhaldsskóla í Mosfellsbæ og listsmiðju arkitektanema í Listaháskóla Íslands þar sem LEGO kubbar voru byggingarefni.

Á fimmtudagskvöldið 27. maí munu þeir Kristján og Kristján flytja fyrirlestur og segja frá verkefnum og nálgun stofunnar í máli og myndum, þeirra á meðal lóðréttri einbýlishúsabyggð, fljúgandi drive-through veitingastað, 50 hæða turn í formi indíánatjalds og gildi þess að leika sér með LEGO!

Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, fimmtudag 27. maí kl. 20:00. Ókeypis er inn og allir velkomnir.