Fimmtudaginn 19. október verður jarðsungin byggingin að Lækjargötu 12 í Reykjavík og hefst athöfnin kl. 18.

Byggingin mun ljóma og óma frá miðaftann til miðnættis – upplýstur jarðsöngur fyrir staka byggingu í sögu borgarinnar og sögu drauma um framtíð.
***
Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu 12, sem reis á árunum 1959-1963, ber með sér framtíðardrauma og sögu sem nú sér fyrir endann á.
Mitt í þyrpingu húsa í miðborg Reykjavíkur tók stórhýsið sér áberandi stöðu í byrjun sjöunda áratugarins. Bygging sem reis ofan á elstu byggð borgarinnar og var í senn fulltrúi alþjóðlegra strauma og táknmynd og líkami framtíðardrauma. Stakstæð í umhverfi sínu enda þótt hún hafi verið hluti af heildaráætlun um nýja ásýnd miðborgarinnar og var byggingin reist með það fyrir augum að hægt væri að hækka hana í níu hæðir.
Byggingin við Lækjargötu 12 sameinast brátt aftur jörðinni aðeins um hálfri öld eftir að hún var byggð. Og önnur mun þar rísa sem kemur til með að bera með sér hugmyndir okkar tíma sem framtíðin mun kveða upp sinn dóm um.
Undanfarið hefur byggingin staðið auð, líkt og á líkklæðum og beðið örlaga sinna og kveðjustundar. Til að varpa ljósi á þessi endalok byggingarinnar og um leið að varpa ljósi á bygginguna, borgina og okkur sjálf sem hluta af henni verður byggingin jarðsungin.
Með athöfninni er kveðjustundinni mætt með virðingu fyrir stefnumóti framtíðardrauma fortíðar og samtíma, hugleiðing um hreyfingu, menningarlandslag, uppbyggingu og niðurrif. Um leið er verið að heiðra hugmyndir, handverk, iðnaðarmenn, bankastarfsfólk, arkitekta og alla þá sem áttu erindi eða leið um bygginguna.
Anna María Bogadóttir arkitekt, Berglind María Tómasdóttir tónskáld og Kristín Gunnarsdóttir myndlistarmaður halda utan um athöfnina.