Siðareglur AÍ

Siðareglur Arkitektafélags Íslands

0.         INNGANGUR

0.1 Í siðareglum þessum eru birtar þær hugsjónir og meginreglur, sem Arkitektafélg Íslands telur að arkitekt beri að hafa að leiðarljósi í starfi sínu.

1.           MARKMIÐ

1.2. Arkitekt skal í starfi sínu stuðla að aukinni virðingu fyrir og viðurkenningu á góðri byggingarlist,  umhverfi og arkitektastarfinu. Hann skal ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans.

1.3. Arkitekt skal taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi.

2.           HÖFUNDARRÉTTUR

2.1. Arkitekt ber að kynna sér sérstaklega þær reglur íslensks og alþjóðlegs höfundarréttar sem tengjast starfi arkitekta.

2.2. Arkitekt ber að virða höfundarrétt annarra.

2.3. Arkitekt skal í samningum sínum leitast við að fá viðurkenningu á sæmdarrétti sínum, þar á meðal nafngreiningarrétti.

3.           SKYLDUR GAGNVART VERKKAUPA.

3.1. Arkitekt skal gæta hagsmuna verkkaupa  og er trúnaðarmaður hans. Hann beitir þekkingu sinni, reynslu og færni í þágu verkkaupa við framkvæmd umsamins verkefnis, enda brjóti það ekki í bága við siðareglur þessar.

3.2. Arkitekt skal taka viðeigandi tillit til fjárhagslegra, fagurfræðilegra og hagnýtra sjónarmiða verkkaupa við framkvæmd verkefnis.

3.3. Arkitekt er skylt að veita verkkaupa sem gleggstar upplýsingar um framkvæmd og áætlaðan kostnað fyrirhugaðs verkefnis og sjá til þess að gerður sé skilmerkilegur samningur um verkefnið.

3.4. Arkitekt skal áskilja sér sanngjarnt endurgjald sem hæfir faglegri úrlausn verkefnis.

3.5. Arkitekt skal gæta trúnaðar um sérhvert málefni sem honum er trúað fyrir í starfi.

3.6. Arkitekt skal leitast við að viðhalda og auka starfsþekkingu sína þannig að hún standist mál hvers tíma.

4.           SKYLDUR GAGNVART ÖÐRUM ARKITEKTUM

4.1. Arkitektar skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum viðeigandi tillitssemi.

4.2. Arkitekt  skal ekki leita eftir að koma í stað arkitekts sem hefur þegar samið um  verkefni eða á í samningum um  verkefni.

4.3. Arkitekt skal ekki taka við verkefni annars arkitekts nema fyrir liggi að fyrra samningsambandi sé lokið með eðlilegum hætti.

4.4. Arkitekt sem til er leitað af verkkaupa um að taka við verkefni úr hendi annars arkitekts, þar með talið að  breyta eða auka við mannvirki, skal gera starfsbróður sínum viðvart svo honum gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna.

4.5. Arkitekt sem hefur annan arkitekt í vinnu samkvæmt ráðningarsamningi skal fara að lögum og  góðum venjum um kjara- og starfsskilyrði. Starfsmaður skal njóta leiðbeininga og eiga þess kost að hæfileikar hans og reynsla fái notið sín.

4.6. Ráðnum arkitekt skal gefast kostur á að taka þátt í samkeppni, enda fari slík þátttaka ekki í bága við hagsmuni arkitekts, sem hann starfar hjá. Nafns starfsmanns skal getið í tengslum við einstök verkefni og sýningar þegar þáttur starfsmanns er verulegur.

5.           SAMSKIPTI ARKITEKTS VIÐ AÐRA

5.1. Arkitekt er sjálfstæður og óháður ráðgjafi verkkaupa í samskiptum við aðra, svo sem verktaka, vöruseljendur, ráðgjafa og aðra sem verkkaupi kaupir þjónustu af. Arkitekt veitir verkkaupa faglega og hlutlæga ráðgjöf í samskiptum hans við þessa aðila.

5.2. Arkitekt er óheimilt að nota sér verkefni sitt eða aðstöðu sína til að áskilja sér hagsmuni úr hendi þeirra,  sem verkkaupi á viðskipti við.

5.3. Arkitekt  má ekki misnota aðstöðu sína til  að afla  sér verkefna eða afla sér hagsmuna með því að miðla verkefnum til annarra.

5.4. Arkitekt má ekki eiga hlut að auglýsingum um vöru eða þjónustu, sem hann vegna starfs síns skal hafa hlutlæga afstöðu til, þannig að það skerði trúverðugleika hans sem óháðs ráðgjafa.

5.5. Arkitekt má ekki inna af hendi umboðslaun eða aðrar greiðslur til þess sem getur haft áhrif á ákvörðun um miðlun verkefnis. Hann skal heldur ekki veita viðtöku slíkum greiðslum þegar hann hefur sjálfur áhrif á sambærilega ákvörðun.

5.6. Arkitekt sem hefur áhrif á niðurstöðu samkeppni eða kaup á arkitektaþjónustu, skal einungis láta stjórnast  af faglegum og hlutlægum sjónarmiðum.

5.7. Arkitekt skal við úrlausn verkefna sinna gæta þess að ekki sé brotið í bága við lög og stjórnvaldsreglur. Einkum skal hann kynna sér reglur á sviði  byggingamála, skipulagsmála, ferlimála fatlaðra og umhverfismála.

6.           AUGLÝSINGAR OG KYNNING

Arkitekt skal gæta þess að veita ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða á annan hátt. Honum er óheimilt að afla sér viðskipta með óréttmætum viðskiptaháttum.

7.           ÁGREININGSMÁL

7.1. Verkkaupi getur innan árs frá því að tilefni gefst til lagt ágreining við arkitekt, sem er félagsmaður í Arkitektafélagi Íslands, um brot á reglum þessum fyrir siðanefnd félagsins. Arkitekt getur og lagt fyrir nefndina ágreiningsmál við  arkitekt eða eftir atvikum kært annan arkitekt fyrir nefndinni vegna meints brots á siðareglum þessum, enda þótt kærandi eigi ekki sjálfur í ágreiningi við hinn kærða arkitekt.

7.2. Siðanefnd skal skipuð þremur félagsmönnum sem aðalmönnum og einum til vara kosnum á aðalfundi AÍ til þriggja ára í senn. Nefndin skiptir með sér verkum. Stjórn AÍ setur nefndinni málsmeðferðarreglur þar sem gætt skal jafnræðis aðila sem og annarra almennra reglna um réttláta málsmeðferð. AÍ ber kostnað af störfum nefndarinnar, þar með talið af löglærðum ritara nefndarinnar, ef við á.

7.3.1. Siðanefnd tekur einungis afstöðu til þess hvort arkitekt hafi gerst brotlegur við siðareglurnar eða ekki og hvort brot telst ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Sé ágreiningur um málsatvik, sem úrskurð óhjákvæmilega verður að reisa á, skal vísa máli frá.

7.3.2. Siðanefnd getur þegar um alvarlegt eða mjög alvarlegt brot er að ræða mælt með að hinn brotlegi greiði kostnað vegna  málsins.

7.4. Siðanefnd sendir niðurstöður sínar til stjórnar AÍ, sem kynnir niðurstöður fyrir félagsmönnum í málgagni félagsins eða á aðalfundi, allt eftir alvarleika málsins.

Fyrst gefið út og samþykkt sem „Samþykkt um störf arkitekta“ 11.maí 1956

Síðast endurskoðað og samþykkt á aðalfundi 24. nóvember 2001.