Endurmenntun HÍ í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, Mannvirkjastofnun, Matsmannafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands og Vistbyggðarráð heldur námskeið föstudaginn 23. mars um sjálfbærni í byggingariðnaði og þá þrjá þætti sem skipta máli við hönnun sjálfbærra bygginga: umhverfi, efnahagur og samfélag.

Að lokinni málstofu ættu þátttakendur að geta sett sér markmið um sjálfbærni bygginga og hafa þekkingu á hvernig unnt er að ná þeim markmiðum.

Málstofan skiptist upp í fjóra hluta.

Fyrsti hlutinn gefur gott yfirlit um sjálfbærni í byggingariðnaði, þ.e. uppruna, aðferðir og stöðu í dag. Fjallað er um væntingar og kröfur til byggingarmarkaðarins um upplýsingagjöf varðandi byggingarefni, orkunotkun, byggingaraðferðir o.fl.

Annar hluti málstofunnar tekur á áhrifum og samspili umhverfis er varðar hönnun sjálfbærra bygginga. Farið verður yfir umhverfisáhrif bygginga almennt og hvað þarf að hafa í huga varðandi umhverfisáhrif frá byggingum. Sérstaklega verður fjallað um aðferðafræðina vistferilsgreiningar og hvernig má nýta slíkar greiningar til þess að gera byggingar umhverfisvænni. Tekin verða dæmi um byggingarferli og byggingar þar sem lágmörkun á umhverfisáhrifum er í fyrirrúmi.

Í þriðja hlutanum verður tekið á líftímakostnaði bygginga. Farið verður yfir helstu hugtökin sem koma fyrir í alþjóðlegum stöðlum um fjárhagslega frammistöðu bygginga og hvernig beita má aðferðum til þess að bæta fjárhagslega sjálfbærni bygginga og draga úr sóun. Sýndar verða aðferðir til útreiknings og tekið saman hvaða gögn þurfi að nota til að framkvæma útreikningana.

Fjórði hluti málstofunnar snýr að samfélagslegum áhrifum sjálfbærra bygginga. Hönnuðir bera félagslega ábyrgð og felst hún meðal annars í að góð nýting mannvirkja sé tryggð sem og öryggi og vellíðan notenda. Aukin vitund um samfélagslega ábyrgð í hönnun er ein af forsendum fyrir breytingum í átt að sjálfbærara þjóðfélagi. Farið verður yfir helstu áhrifaþætti og sýnd dæmi á námskeiðinu.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Yfirlit um sjálfbærni í byggingariðnaði: uppruni, meginstoðir, samhengi, markmiðasetning, aðferðir o.fl.
• Vistferilsgreiningar.
• Helstu umhverfisáhrif bygginga.
• Umhverfisvottanir fyrir byggingar.
• Reynslusögur af byggingu umhverfisvænna bygginga.
• Umhverfisvænt skipulag.
• Útreikninga líftímakostnað bygginga.
• Stofnkostnað, rekstrarkostnað, viðhaldskostnað og niðurrifskostnað bygginga.
• Grunnrannsóknir á Íslandi og söfnun lykiltalna.
• Samfélagsleg áhrif sjálfbærrar hönnunar.

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á hugtakinu sjálfbærni í byggingariðnaði og hver sé staðan í málaflokknum á Íslandi.
• Innsýn í hvernig gera má áætlanir sem byggja á markmiðasetningum um sjálfbærni í byggingariðnaði.
• Aukin hæfni til að túlka niðurstöður um mat á sjálfbærni bygginga.
• Þekking á þeim umhverfisvottunarkerfum sem eru í boði.
• Góð yfirsýn yfir aðgerðir til þess að draga úr umhverfisáhrifum bygginga.
• Skilningur á hugtökum sem notuð eru við mat á efnahagslegri sjálfbærni bygginga.
• Aukin kunnátta í útreikningum á líftímakostnaði bygginga.
• Innsýn í aðferðir sem notaðar eru við mat á samfélagslegri sjálfbærni bygginga.

Fyrir hverja:

Málstofan er hugsuð fyrir alla þá sem hafa aðkomu að mannvirkjagerð í einkageira og hjá hinu opinbera, jafnt ráðamenn sem taka ákvarðanir um mannvirkjagerð sem stjórnendur fasteigna, hönnuði, tæknimenn og rekstraraðila og aðra áhugasama.

Kennsla:

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs. Hún er orku- og umhverfisverkfræðingur frá Tækniháskólanum í Þrándheimi og hefur unnið sem ráðgjafi við Rannsóknarsetur um kolefnisjafnaðar byggingar í Noregi og við rannsóknir hjá SINTEF Byggforsk í Osló. Þá hefur hún starfað sem orkuráðgjafi hjá Náttúruverndarsamtökum Noregs.

Ragnar Ómarsson er byggingarfræðingur hjá Verkís og formaður Matsmannafélags Íslands. Hann er byggingarfræðingur frá Vitus Bering University College í Horsens í Danmörku. Síðustu misseri hefur hann starfað sem ráðgjafi grænlensku sjálfstjórnarinnar um innleiðingu á sjálfbærniferlum í hönnun og mannvirkjagerð á Grænlandi.

Aðalheiður Atladóttir, arkitekt FAÍ, er framkvæmdastjóri og einn eiganda A2F arkitekta ehf. Hún lauk prófi í arkitektúr við RWTH Aachen í Þýskalandi og hefur unnið sem arkitekt á Íslandi og í Þýskalandi, samhliða því að kenna arkitektúr m.a. við arkitektúr- og hönnunardeild LHÍ. Aðalheiður situr í stjórn Arkitektafélags Íslands.

Bjarki Gunnar Halldórsson, arkitekt FAÍ, útskrifaðist úr Arkitektaskólanum í Árósum og starfar á VA-vinnustofu arkitekta. Hann hefur unnið á teiknistofum hér á landi og í London og komið að fjölbreytilegri flóru verkefna. Þá hefur hann sinnt ritstjórnarstörfum og verkefnum á sviði kennslu og arkitektúrs.

Skráning og frekari upplýsingar