Föstudaginn 2. nóvember verða Hönnunarverðlaun Íslands veitt. Fyrr um daginn verður málþingið Hvert stefnum við?-málþing um hönnun í kvikum heimi haldið í Veröld-húsi Vigdísar. Málþingið verða snörp myndræn erindi um vægi hönnunar / arkitektúrs í þróun og nýsköpun í atvinnulífi, samfélagi og menningu. Meðal þeirra sem flytja örerindi eru Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Garðar Eyjólfsson, Hrólfur Karl Cela, Bergur Finnbogason og Halla Helgadóttir.  Framtíðarsýn Paul Bennett, hönnunarstjóra IDEO hins framsækna alþjóðlega hönnunarfyrirtækis, mun veita innblástur í skarpar pallborðsumræður um framtíðina. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Sjávarklasans stýrir málþinginu og umræðum. Málþingið hefst kl. 15.00 og stendur til kl. 17.30.

Hönnunarverðlaun Íslands 2018 verða veitt á Kjarvalsstöðum sama dag, kl. 20.30. Húsið opnar kl. 20.00.

Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir mun veita verðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Einnig verður fyrirtæki veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun. Sigurður Hannesson, formaður Samtaka iðnaðarins mun veita viðurkenninguna. Kynnir verður Guðrún Sóley Gestsdóttir.

Ölgerðin býður upp á drykki í samstarfi við Citrus Cocktail Company og World Class Barþjónakeppnina þar sem heimsklassa kokteilar verða bornir fram.

Tilnefndum, verðlaunahöfum og 10 ára afmæli Hönnunarmiðstöðvar verður fagnað að lokinni afhendingu og áhugasömum um frekari gleðskap beint á nýjasta bar bæjarins, Miami við Hverfisgötu 33.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaunum Íslands og málþingi tengt þeim í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu.

Viðburðurinn á facebook:

https://www.facebook.com/events/704865993228949/