Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi og er fyrsti heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands. Hönnun og byggingar Manfreðs Vilhjálmssonar eru meðal bestu dæma um góðan arkitektúr á Íslandi en verkin bera vitni um vandaða hönnun og vandaðan arkitektúr
þar sem efni, form og samhengi skapa eina órjúfanlega heild.

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi. Einstakur starfsferill sem spannar yfir 60 ár endurspeglar áræðni í fjölbreyttum verkefnum og metnaðarfulla listræna og faglega sýn. Eftir Manfreð liggur fjöldi tímamótaverka sem bera vott um einstaka hæfni til að takast á við margvíslegar áskoranir staðhátta og uppbyggingar í ungu samfélagi.

Manfreð nam arkitektúr við Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og lauk námi 1954. Eftir heimkomu 1956 var hann meðal brautryðjenda nýrra hugmynda í arkitektúr hér á landi. Í verkum Manfreðs birtast margvíslegar nýjungar í íslenskri húsagerðalist en jafnframt sýna verk hans frá fyrstu tíð næmi á umhverfi og viðleitni við að leysa verkefni í samræmi við tíðaranda og í skýru menningarlegu samhengi.

Verkin sem Manfreð hefur komið að eru af ýmsu tagi en hann hefur komið að hönnun jafnt í þéttbýli sem og í strjálbýlli náttúru landsins. Í hverju verki er að finna hugvitsamlegar úrlausnir hvort sem sjónum er beint að húsgögnum, yfirbragði opinberra bygginga eða skipulagi byggðar. Áhersla á það hvernig unnið er með byggingarefni er eitt af leiðarstefum í byggingarlist Manfreðs og nýjar lausnir sem sprottnar eru af tilraunum með óvenjuleg efni, aðferðir og tækni er einkennandi í fjölmörgum verkum.

Verkalisti Manfreðs er langur en meðal tímamótaverka hans má nefna afgreiðslustöðvar Nestis h.f. (1957, nú rifin) en val og meðhöndlun byggingarefnis var eitt helsta nýnæmið í hönnun þessara bygginga. Einnig eigið íbúðarhús á Álftanesi, Smiðshús (1959-61) sem Manfreð vann að í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson, þar sem áhersla var lögð á léttleika í uppbyggingu og opna rýmisskipan. Við hönnun þjónustubygginga Tjaldstæðis í Laugardal (1987-89) var spunnið í kringum menningararfinn og hann útfærður með nýjum byggingafræðilegum lausnum á eftirtektarverðan hátt. Skipulag Fossvogsbyggðar (1966), unnið í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson og Gunnlaug Halldórsson, sem einkennist af lágreistri byggð í tengslum við grænt umhverfi dalsins er áhrifamikið fyrir borgarumhverfið og Þjóðarbókhlaðan (1972-94) sem hýsir lands- og háskólabókasafn, unnin í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson er með eða þýðingarmeiri opinberu byggingum í borgarlandslaginu.

Manfreð hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem Menningarverðlaun DV árin 1980 og 1988 auk heiðursviðurkenningar Menningarverðlauna DV árið 2009 fyrir framlag til íslenskrar byggingarlistar og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996. Umfjöllun um verk hans hefur birst í fjölmögum innlendum og erlendum fagritum. Árið 2009 kom út á vegum Hins íslenska bókamenntafélags bók tileinkuð verkum
hans og starfsferli, sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Pétur H. Ármannsson arkitekt ritstýrðu. Árið 2011 var Manfreð gerður að heiðursfélaga Arkitektafélaga Íslands.

Þetta er í fyrsta sinn sem Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands eru veitt og var fyrirkomulagið á þá leið að Hönnunarmiðstöð Íslands kallaði eftir tilnefningum frá félögum hönnuða sem skiluðu tveim tilnefningum hvert með stuttum rökstuðningi fyrir lok ágúst síðastliðinn. Dómnefnd Hönnunarverðlauna fór yfir ábendingar og valdi handhafa Heiðursverðlauna Hönnunarverðlauna Íslands úr þeim tilnefningum.

Verðlaunin verða framvegis veitt árlega á Hönnunarverðlaunum Íslands.
Við óskum Manfreð innilega til hamingju með Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna
Íslands 2019.

Viðtal við Manfreð sem flutt var í Víðsjá á Rás 1, 2018.

Ítarlegt viðtal má síðan nálgast í nýjasta tímariti HA, tímariti um hönnun og arkitektúr.

Hönnunarverðlaun Íslands 2019 féllu síðan í skaut Genki Instruments. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars.

„Genki Instruments er framsækið og hönnunardrifið tónlistartæknifyrirtæki þar sem hönnun, tækni,​ ​verkfræði, og tónlist renna saman í eitt. Wave er einstakt dæmi um framsækna hugmynd frumkvöðlafyrirtækis þar sem rannsókn, þróun og prófanir í gegnum allt hönnunarferlið skilar algerlega nýrri upplifun til notenda sem hefur hlotið lof víða um heim.“

Omnom Chocolate hlaut síðan viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2019.

Ljósmynd af Manfreð: Halla Harðardóttir