Á árinu 2011 verður eitt íslenskt nútímamannvirki kynnt í hverjum mánuði á vef Arkitektafélags Íslands. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og hugsanlega getur það vakið einhverjar umræður um íslenskan nútímaarkitektúr. Reglurnar eru mjög einfaldar. Engar takmarkanir eru á stærð eða notagildi mannvirkisins sem verður þó að vera úr samtímanum og ekki meira en aldarfjórðungs gamalt. Það þarf ekki að vera besta mannvirkið að mati þess sem velur hverju sinni en hafa eitthvað við sig sem viðkomandi þykir athyglisvert.

Pálmar Kristmundsson afhenti Steinþóri Kára Kárasyni keflið og það kemur því í hlut Steinþórs að velja mannvirki aprílmánaðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gefum Steinþóri orðið : „Á undanförnum áratug eða svo hefur verið byggt við marga af grunnskólum Reykjavíkur og langar mig að benda á eina af þessum viðbyggingum, sem ekki hefur farið mikið fyrir en er að mínu mati frábær og er gott dæmi um hvað arkitektúr getur gert þegar viðfangsefnið er nálgast með skýrri sýn og virðingu fyrir því umhverfi sem fyrir er, með það að markmiði að virkja það og bæta.

Eldri byggingar Laugalækjarskóla, eru tvær samskonar byggingar, eftir Einar Sveinsson, sem byggðar voru snemma á sjöunda áratugnum, Viðbyggingn frá árinu 2003, eftir Studio Granda, tengir eldri byggingar saman bæði utandyra og innan, þannig að úr verður ein samfelld heild. Um leið mótar byggingin skólalóðina með leiksvæði austan við skólann og aðkomusvæði vestan við hann.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Byggingin er lágreist, og sýnir þannig auðmýkt gagnvart eldri byggingunum sem hún tengir saman með umferðarleið um hluta  þaks þannig að til verða skýrar og virkar umferðarleiðir utandyra og byggingin verður hluti af landmótuninni. Þannig er ásýnd viðbyggingar móti leiksvæði hófstillt og birtist sem stoðveggur sem tengir saman aðalbyggingar skólans. Móti aðkomu er hún meira afgerandi, stendur fram úr eldri byggingum og myndar aðal aðkomu að skólanum, með sameiginlegum rýmum hans; bókasafni, hátíðasal, móttöku og skrifstofum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að innan birtist viðbyggingin sem eitt meginrými, með mikilli lofthæð. Stórir gluggar í lofti og efst á veggjum veita birtu inn í rýmið og um þá glittir í hluta eldri bygginga, í himininn og fólk á gangi á þaksvölum. Allt þetta gefur rýminu ævintýralegan blæ og maður upplifir sig í punktinum þar sem allt kemur saman; uppi og niðri, inni og úti, nýtt og gamalt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efniskennd viðbyggingarinnar endurspeglar byggingarefni í umhverfinu, hvítmálaður múr með lituðum flötum og zinkklæðning þaka er komin á veggina. Að innan er efnisval í samræmi við eldri byggingar; linoleum á gólfum, eik og litaðir veggfletir, fléttað við það sem fyrir er, á sinn sjálfsæða arkitektóníska hátt

 

 

 

 

 

 

 

Þannig virðir viðbyggingin og upphefur eldri byggingar, dregur fram einkenni þeirra og styrk en er um leið sjálfstætt verk sem á samtal við umhverfi sitt með sínu eigin arkitektóníska tungutaki og er lykilpúslið í heildarmyndinni. Þess vegna er þetta frábær viðbygging“.