Á árinu 2011 verður eitt íslenskt nútímamannvirki kynnt í hverjum mánuði á vef Arkitektafélags Íslands. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og hugsanlega getur það vakið einhverjar umræður um íslenskan nútímaarkitektúr. Reglurnar eru mjög einfaldar. Engar takmarkanir eru á stærð eða notagildi mannvirkisins sem verður þó að vera úr samtímanum og ekki meira en aldarfjórðungs gamalt. Það þarf ekki að vera besta mannvirkið að mati þess sem velur hverju sinni en hafa eitthvað við sig sem viðkomandi þykir athyglisvert.

Mannfreð Vilhjálmsson afhenti Pálmari Kristmundssyni keflið og það kemur því í hlut Pálmars að velja mannvirki marsmánaðar.

Gefum Pálmari orðið: „Þegar ég hugsa um athyglisverð mannvirki síðustu missera kemur fyrst upp í hugann Fuglasafnið á Ytri-Neslöndum við Mývatn eftir Manfreð Vilhjálmsson.

Ég skoðaði safnið að vetri til en gerði mér grein fyrir að samspil náttúru og húss væri fyrst fullvirkt að vorlagi, þegar ísinn er í bráðnun og vatnið utandyra og tjörnin inni fá sömu efniskennd og kallast á.

Það er fyrir margar sakir að byggingin kemur upp í hugann aftur og aftur. Eitt eru tengsl inni og úti sem ég nefndi hér að ofan. Annars vegar er það svo látleysið, lotning fyrir því sem húsið hýsir, fyrir efnum og eiginleikum þess, en einnig formum og efni í landslaginu. Form byggingarinnar tekur mið af  ávölum hæðarmyndunum í landslaginu í kring og gróðurþekja teygir sig upp á veggi og þak.

Burðarvirkið, sem alltaf er skýrt og augljóst í byggingum Manfreðs, leikur hér einnig veigamikið hlutverk. Það sést best á bátaskýlinu, þar sem burðarvirkið er sýnilegt innandyra án þess að trufla það sem til sýnis er.

Athygli vekur að arkitektinn hefur verið við stýrið í gegnum ýmsar breytingar á stíl og tísku í gegnum árin, án þess að það hafi haft truflandi áhrif á verk hans, hugsun eða vinnubrögð.

Ég hvet þá sem leið eiga norður í land til þess að skoða Fuglasafnið.“