Á árinu 2011 verður eitt íslenskt nútímamannvirki kynnt í hverjum mánuði á vef Arkitektafélags Íslands. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og hugsanlega getur það vakið einhverjar umræður um íslenskan nútímaarkitektúr. Reglurnar eru mjög einfaldar. Engar takmarkanir eru á stærð eða notagildi mannvirkisins sem verður þó að vera úr samtímanum og ekki meira en aldarfjórðungs gamalt. Það þarf ekki að vera besta mannvirkið að mati þess sem velur hverju sinni en hafa eitthvað við sig sem viðkomandi þykir athyglisvert.

Jóhannes Þórðarson deildarforseti Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands hóf leikinn, afhenti Manfreð Vilhjálmssyni keflið og það kemur því í hlut Manfreðs að velja mannvirki febrúarmánaðar.

(Mynd: Pétur Ármannsson)

Gefum Mannfreð orðið: „Þar sem ég er lítt kunnugur mannvirkjum síðustu ára, horfi ég til seinni hluta síðustu aldar, en þar þekki ég betur til. Kemur þá fyrst upp í hugann verk Högnu Sigurðardóttur, einbýlishúsið að Bakkaflöt, Garðabæ. Húsið er að vísu marglofað af öðrum en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Húsið minnir okkur á íslenska torfbæinn, en einnig á góðan nútíma arkitektúr. Húsið rís upp úr landinu eins og klettaborg, þar sem grasþekjan nær upp á miðja veggi. Inni í þessari borg er gott skjól gegn vetrarstormum og kulda.

Er hugsanlegt að Högna boði hér nýja sýn á íslenskan arkitektúr?

Torfbærinn á enn sterk ítök í sumum okkar, aðrir vilja hann gleymdan. Hér treysti ég yngri arkitektum, en tíminn einn sker úr um framhaldið.

Þar sem myndir og teikningar af húsinu hafa víða birst sleppi ég frekari lýsingu á því innandyra. Þó vil ég benda á rúmgott miðrými (skála) þar sem mjúk dagsbirtan flögrar um veggi og loft. Í miðrýminu er eldstæði (sbr. eldstæði í skálum fyrri alda).

Efnisval hússins er einfalt og nútímalegt, steinsteypa, gler, fura og steinskífur.

Það er músík í húsinu, svei mér ef það minnir ekki á Bach.

(Litmynd tók Pétur Ármannsson og svarthvítar myndir Jóhanna Ólafsdóttir)