Minning – Hallmar Sigurðsson

Minning – Hallmar Sigurðsson

Hallmar

Það var þungbært að heyra að okkar kæri samstarfsmaður og vinur væri  fallinn frá.

Hallmar Sigurðsson hóf störf sem framkvæmdastjóri hjá Arkitektafélagi Íslands  haustið 2010 og sinnti störfum fyrir félagið fram í nóvember 2015 af alúð og dugnaði þrátt fyrir hetjulega baráttu við veikindi sín.

Starf Hallmars hjá Arkitektafélagi Íslands var fjölþætt og krefjandi. Hann vílaði ekkert fyrir sér og var snöggur að bregða sér í alls konar hlutverk fyrir félagið. Hann var leikari og leikstjóri að mennt en hafði um leið mikla innsýn í byggingarlistina sem endurspeglaðist vel í störfum hans. Sem framkvæmdastjóri veitti hann ýmsa þjónustu og ráðgjöf varðandi samkeppnir í náinni samvinnu við stjórn og samkeppnisnefnd félagsins. Að auki sótti hann um ýmsa styrki og aflaði meðal annars tekna til að flokka og skrá teikningasöfn og önnur gögn arkitekta sem fóru á Þjóðskjalasafn.  Kynningarmál voru á hans höndum og mótaði hann þar áhugaverða viðburði, eins og málþing og bókakynningar, þar sem næmni hans fyrir málefnum arkitekta skein í gegn.

Hallmar var hæfileikaríkur á mörgum sviðum. Hann samdi ljóð, málaði og stundaði hestamennsku, svo eitthvað sé nefnt. Hann hafði dáleiðandi rödd og það var unun að heyra hann segja skemmtilegar sögur úr viðburðaríku lífi sínu. Eftirminnilegt er þegar hann kom á stjórnarfund síðast liðið haust í veikindaleyfi sínu þar sem hann ætlaði þó aðeins að hlusta á það sem fram fór og taka því rólega á sófa einum í fundarherberginu. Ástríðan fyrir málefnum fundarins tók þó fljótt yfirhöndina og  í lok fundar lá hann á sófanum og jós úr viskubrunni sínum eins og honum einum var lagið.

Opnari og víðsýnni manneskju var vart að finna. Hallmar hafði sterka réttlætiskennd og studdi mannréttindi af öllum toga. Hann var sannur mannvinur.

Við hefðum svo gjarnan viljað vinna með Hallmari um ókomna tíð – og spjalla við hann um heima og geima löngu eftir að fundartíma  lyki. Það er huggun harmi gegn að hann skildi eftir sig djúpstæð spor  og minningar um opinn og hjartahlýjan mann, sem munu lifa með okkur. Við sendum Siggu, eftirlifandi konu Hallmars, dóttur hans, tengdasyni og barnabörnum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Hvíli Hallmar Sigurðsson í friði.

Fyrir hönd Arkitektafélags Íslands,
Aðalheiður Atladóttir
Helgi Steinar Helgason
Hildur Gunnlaugsdóttir