Niðurstaða dómnefndar í hönnunarsamkeppni Hjúkrunarheimilis í Fjarðabyggð liggur fyrir. Verðlaunaafhending fór fram í dag, föstudaginn 9. júlí 2010 og hófst klukkan 17.00 í Kirkju- og menningarmiðstöðinni, Dalbraut 2 í Fjarðarbyggð. Viðstödd voru Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra og Helga Jónsdóttir bæjarstýra í Fjarðabyggð, og aðrir aðlar samkeppninnar og boðsgestir. Ásmundur Ásmundsson, formaður dómnefndar, kynnti hönnunarsamkeppnina og niðurstöður dómnefndar.

Fyrstu verðlaun hlaut tillaga Einrúm arkitekta, höfundar Anders Møller Nielsen arkitekt FAÍ (Félagi í Arkitektafélagi Íslands)  MAA (Medlem af Akademisk Arkitektforening), Kristín Brynja Gunnarsdóttir arkitekt FAÍ, Michael Blikdal Erichsen arkitekt,  Steffan Iwersen, arkitekt FAÍ, MAA og Þór Tulinius.

Önnur verðlaun fengu Studio Strik arkitektar, höfundar Sigríður Ólafsdóttir arkitekt FAÍ og
Hulda Þ. Aðalsteinsdóttir innanhússarkitekt FHI (í Félagi húsgagna- og innanhúsarkitekta). Aðstoð Daði Halldórsson arkitektanemi. Landslagahönnun Teiknistofan Storð,  Hermann G. Gunnlaugsson, landslagsarkitekt FÍLA (í Félagi íslenskra landslagsarkitekta). Verkfræðiráðgjöf annaðist VSÓ ráðgjöf.

Þriðju verðlaun hlutu Arkitektar Hjördís & Dennis ehf., höfundar Hjördís Sigurgísladóttir arkitekt FAÍ og Dennis Davíð Jóhannesson arkitekt FAÍ.

Í meðfylgjandi dómnefndaráliti er ávarp ráðherra, inngangur þar sem keppendum er þökkuð þátttakan, um dómnefnd og dómnefndarstörf. Í niðurstöðu dómnefndar kemur fram að veitt eru 1. verðlaun,  3.500.000 kr. (krónur), 2. verðlaun, 2.500.000 kr.  og 3. verðlaun  1.000.000 kr. Lagt er til að sem athyglisverðar eða áhugaverðar tillögur hljóti sex tillögur viðurkenningu með peningaverðlaunum og þrjár án peningaverðlauna. Í dómnefndaráltinu er einnig gerð grein fyrir almennri umsögn dómnefndar hennar og þar eru umsagnir dómnefndar um allar samkeppnistillögur.

Dómnefndarálit

Samkeppnistillögur verða sýndar í menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð og verður sýningin opin virka daga frá 12. til 23. júlí 2010 klukkan 16.00 til 19.00. Stefnt er að rýnifundi með dómnefnd og sýningu á samkeppnistillögum í Reykjavík upp úr miðjum ágúst.