Fimmtudaginn 21. desember voru kynnt úrslit í framkvæmdasamkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands í Garðabæ. Alls bárust fjórar tillögur í samkeppninni og Sigurður Guðmundsson formaður dómnefndar og formaður skipulagsnefndar Garðabæjar tilkynnti um niðurstöðu dómnefndar við athöfn sem fór fram í anddyri íþróttamiðstöðvarinnar Ásgarðs. Um leið var þar opnuð sýning á innsendum tillögum sem mun standa til febrúarloka. Auk þess verða tillögur hengdar upp í anddyri Golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.
Í fyrsta sæti var tillaga Arkitektastofunnar Batterísins, Landlagsarkitektastofunnar Landslags og Verkfræðistofunnar Eflu. Tvær tillögur deildu með sér öðru sæti en það voru annarsvegar tillaga Teiknistofu arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar og tillaga Hlínar Sverrisdóttur landlagsarkitekts og Ingu Sigurjónsdóttur arkitekts.  Verðlaun fyrir tillögur í öðru sæti voru 2 milljónir kr á hvora tillögu. Í þriðja sæti var tillaga arkitektastofunnar Sei sem hlaut að verðlaunum 1 milljón kr. Að mati dómnefndar leysa allar tillögurnar þau úrlausnarefni sem sett voru fram í keppnislýsingu. Nokkur munur er á lausnum og er ljóst að engin ein tillaga leysir öll helstu úrlausnarefnin í heild sinni en í þeim koma þó fram ýmsar lausnir sem horfa má til við endanlega gerð rammaskipulags.

Niðurstaða dómnefndar

Frétt á vef Garðabæjar