Screen Shot 2015-10-20 at 11.35.01

Kársnes: Fjórar tillögur valdar til áframhaldandi þátttöku

Miðvikudaginn 3. febrúar kl. 9.30 í Gerðarsafni í Kópavogi verða kynntar hvaða fjórar tillögur um Kársnes í Kópvogi hafa verið valdar til áframhaldandi þátttöku í hugmyndasamkeppni á vegum Nordic Built Cities. Samkeppnin hefur það sem meginmarkmið að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi. Kársnes var valið til þátttöku í keppninni síðastliðið sumar ásamt fimm öðrum þéttbýlissvæðum á Norðurlöndum.

Tillögurnar fjórar sem valdar hafa verið til áframhaldandi þátttöku eiga það sammerkt að vilja efla samfélagið á Kársnesi, nýta einstaka staðsetningu þess og mögulegar tengingar við Vatnsmýrina í Reykjavík, styrkja útivistarsvæði og koma með umhverfisvænar lausnir í mannvistar- og samgöngumálum.
Formaður dómnefndar, Þór Sigfússon, kynnir tillögurnar fjórar sem halda áfram auk þess sem bæjarstjóri Kópavogs Ármann Kr. Ólafsson tekur til máls.

Auk Kársness voru valin til þátttöku Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu, en eiga það sameiginlegt að vera mikilvægar á Norðurlöndunum og á heimsvísu.

Alls bárust 19 tillögur í samkeppnina „Kársnes – sjálfbær líftaug“ sem hleypt var af stokkunum í október síðastliðnum. Tillögurnar eru undir nafnleynd sem ekki verður aflétt fyrr en að lokinni keppni síðar á þessu ári.

Skipuð var dómnefnd í hverju landi. Íslensku dómnefndina skipa Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval.

Nánari upplýsingar um svæðin sex er að finna á heimasíðu Nordic Built Cities Challenge http://nordicbuiltcities.org/thechallenge/