Árlegur fundur norrænu arkitektafélaganna var haldinn dagana 24. og 25. maí síðastliðinn. Í ár var það NAL, norska arkitekafélagið, sem bauð á fundinn og var fundurinn haldinn í húsnæði félagsins í Osló. Fyrir hönd Arkitektafélags Íslands sóttu fundinn Sigríður Maack, gjaldkeri stjórnar, og Gerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri AÍ.

Hér á eftir stiklum við á stóru um þau mál sem tekin voru fyrir á fundinum.

Norrænt samstarf

Norrænu félögin hafa í þó nokkurn tíma haft áhuga á að efla norrænt samstarf meðal annars með því að búa til regnhlífasamtök utan um norrænu félögin. Þessu var fylgt eftir á fundinum í vor með undirskrift allra félaga á stofnun Norræns arkitektafélags. Þessu á ekki hvorki að fylgja kostnaður né aukin stjórnsýsla. Markmiðið með þessu norræna félagi er m.a. að gera okkur auðveldar að sameinast um norræn verkefni t.a.m. útgáfu af samnorrænu tímariti um arkitektúr. Samnorræn samtök gefa okkur einnig frekari kost á að sækja um norræna- og evrópska styrki í samnorrænu samstarfi.

Sameiginlegt blað um norrænan arkitektúr

Í nokkurn tíma hefur verið stefnt að því að gefa út sameiginlegt norrænt blað 1x í mánuði rafrænt og 1x á árið í prentútgáfu. Markmiðið með blaðinu er tvíþætt. Annarsvegar að vekja athygli á norrænum arkitektúr í alþjóðlegu samhengi og nálgast þannig stærri markhóp, og hinsvegar á blaðið að vera upplýsandi fyrir stéttina sjálfa til að arkitektar geti fylgst betur með störfum annarra arkitekta á Norðurlöndum. Hugmyndin er að endurnýta efni sem þegar er til og hefur þegar verið gefið út í hverju landi fyrir sig. Þannig myndi t.a.m áður útgefið efni úr HA tímaritinu rata inn í þetta norræna blað. Tekin var sú ákvörðun að leggja málið í hendur Svíja og Dana til að útfæra þessa hugmynd frekar áður en hún kemst í framkvæmd. Enn eru nokkrar spurningum ósvarað eins og fjármögnun, framkvæmd, markaðssetning, dreifing sem og stærri spurningar eins og ,,Hvernig skilgreinum við norrænan arkitektúr?”. Stefnt er að því að fyrsta blaðið komi út árið 2023 í kjölfar UIA ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn.

UIA ráðstefnan í Kaupmannahöfn 2023

Það er ósk Dana að Norðurlöndin verði mjög sýnileg á UIA ráðstefnunni sem haldin verður í Kaupmannahöfn 2. -7. júlí 2023. Hvað Ísland gerir á ráðstefnunni er enn óljóst. Huga þarf að mörgum póstum eins og fjármagni en frekari upplýsingar um sýnileika Íslands á ráðstefnunni verða skýrari þegar nær dregur.

ACE (architect council of Europe)

Hlutverk ACE er meðal annars að skoða hvort menntun í arkitektúr og hvort menntun í evrópskum skólum samræmist stöðum ACE um menntun í arkitektúr (gæðastýring á skólum). Eru einnig að búa til evrópskt skjal með upplýsingum um gæði í arkitektúr, sjálbærni og heildræna hugsun þar sem engin evrópsk lög eru til um arkitektúr. Einnig hefur ACE verið að kynna evrópskan arkitektúr út fyrir Evrópu með það markmið að auka eftirspurn eftir evrópskrum arkitektum á alþjóðavísu. Frekari upplýsingar um ACE.

“Arkitekta” titlar

Öll norrænu félögin höfðu áhyggjur af þróun arkitektanáms, þ.e. að farið væri að bjóða upp á stuttar/léttvægar námsleiðir í arkitektúr. Í Finnlandi er einstaklingum geta einstaklingar sem lokið hafa þessu námi ekki sótt um að ganga í SAFA og í Svíþjóð er félagið opið öllum, óháð því hvort þú ert arkitekt eða ekki. Þessi þróun leiðir til þess að á vinnumarkaðinum eru einstaklingar sem hafa sömu réttindi og arkitektar en hafa ekki sömu menntun og þeir. Skapar bæði ójafnvægi og togstreitu. Vandmálið er m.a. að það er ekki búið að skilgreina nógu vel hvað er arkitektúr og hvað arkitektar geta gert. Hægt að yfirfæra umræðuna á Ísland og þá um rétt byggingarfræðinga og skrifa upp á teikningar.

Norrænt boð á Feneyjartvíæringnum

Norrænufélögin hafa staðið fyrir norrænu boði á Feneyjartvíæringnum undanfarin misseri. Markmiðið með þessu boði er að skapa samtal við aðra fagmenn og vekja frekari athygli á norrænum arkitektúr og því sem Norðurlöndum eru að gera í arkitektúr. Ísland hefur því miður ekki enn tekið þátt í tvíæringnum en vonandi verður breyting þar á í framtíðinni. Íslenskir arkitektar sem sækja Feneyjartvíæringinn geta sótt um að fá miða í boðið með því senda tölvupóst á netfangið ai@ai.is

Icelandic Design Center-Kynning á samnorrænu verkefni

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, og Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur, komu á fundinn og kynntu verkefnið Norræn hönnun í norrænni náttúru sem þær eru í forsvari fyrir hér á landi. Verkefnið er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og stendur yfir í þrjú ár. Markmiðið með kynningunni var annarsvegar að vekja athygli á þessu nýja norræna verkefni og hinsvegar að skapa frekari persónuleg tengsl við þá sem málið varðar.

25. maí vettvangsferð

Þann 25. maí fór allur hópurinn saman í vettvangsferð um Osló. Í ferðinni voru skoðaðar tvær byggingar sem eru enn í byggingu. Þær eru Listasafn Noregs (National museum, en það hýstir list, hönnun og arkitektúr) og Borgarbókasafnið í Osló (Deichman). Stefnt er að því að bókasafnið sem teiknað er af arkitektastofunni Lund Hagem í samstarfi við Atelier Oslo opni í september á þessu ári. Listasafnið er teiknað af arkitekastofunum Kleihues+Schuwerk og er stefnt að fyrstu sýningaropnuninni haustið 2020.

Nationalmuseum.no

Arkitektafélagið fékk ferðastyrk að upphæð 200.000 frá Hönnunarsjóði fyrir ferðinni sem kom sér gríðarlega vel og dekkaði allan kostnað AÍ. Við þökkum Hönnunarsjóði kærlega fyrir stuðninginn.