Reykjavíkurborg stóð fyrir lokaðri hugmyndaleit í sumar um framtíðaruppbyggingu á þróunarreit Þ5 Nýja Skerjafirði, sem er skilgreindur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í aðalskipulaginu hefur verið gert ráð fyrir að á svæðinu muni rísa íbúðir og er gerð rammaskipulags fyrsta skrefið í átt að því að framfylgja þeirri stefnu. Þróunarreiturinn liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs og af öryggissvæði flugbrauta til norðurs og austurs. Svæðið hallar til suðurs í átt að Fossvogi og liggur vel við sól og vindáttum með stórkostlegu útsýni að sjó. Áhersla er lögð á vistvæna byggð sem tekur tillit til náttúru og nærliggjandi byggðar.

Eftirfarandi arkitektastofur voru valdar til þátttöku í hugmyndaleitinni: Alta, ASK arkitektar, KRADS arkitektar, Landmótun og Plús arkitektar. Lögð var áhersla á að hver stofa myndaði þverfaglegt teymi með samstarfsaðilum. Reykjavíkurborg áskildi sér rétt til að nýta hverja tillögu að hluta til eða í heild og því mætti gera ráð fyrir að hægt væri að nota þætti úr öðrum tillögum við áframhaldandi vinnu. Tillögurnar fimm þóttu allar metnaðarfullar og mjög frambærilegar og í flestum þeirra eru hugmyndir sem vert er að skoða nánar í framhaldsvinnu.

Tillaga ASK arkitekta, sem unnin var í samstarfi við Landslag og Eflu, var valin vinningstillaga í hugmyndaleitinni og munu þau fullvinna hana enn frekar í átt að rammaskipulagi.

Hér má lesa tilkynningu Reykjavíkurborgar um málið.