Arkitektafélag Íslands hefur vakið athygli á mikilvægi þess að vel sé staðið að undirbúningi framkvæmda, faglegur metnaður hafður að leiðarljósi og að gætt sé jafnræðis- og samkeppnissjónamiða við val á arkitektum. Lagaumhverfið ásamt Menningarstefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist á að tryggja að ofangreindum markmiðum sé náð.

Verklag opinberra aðila við kaup á þjónustu arkitekta og verkfræðinga er ógegnsætt, þrátt fyrir gildandi lög sem eiga að tryggja að faglega sé staðið að undirbúningi framkvæmda og að fylgt sé gagnsæju ferli. Lög um opinber innkaup, lög nr. 84 30. mars 2007 gæta almennra hagsmuna seljenda og kaupanda, sem eru opinberir aðilar og stuðla að því að ákveðin framþróun eigi sér stað í samfélaginu.

“1.gr. Tilgangur laganna

Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.” lög nr. 84 30. mars 2007

“3. gr. Opinberir aðilar sem lögin taka til.

Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.” lög nr. 84 30. mars 2007

Arkitektafélag Íslands hefur óskað eftir upplýsingum frá ráðherrum og bæjarstjórum um hvernið staðið verði að undirbúningi nokkurra framkvæmda með hliðsjón af Lögum um opinber innkaup og Menningarstefnu í mannvirkjagerð. Spurt var um öryggisfangelsi, samgöngumiðstöð og fjögur hjúkrunarheimili fyrir  60, 45 og tvö 30 hjúkrunarrými. Auk þess var borgarstjóranum í Reykjavík send fyrirspurn þar sem óskað var eftir sambærilegum upplýsingum varðandi þjónustu- og menningarmiðstöð í Grafarvogi.

Í svari Félags- og tryggingamálaráðuneytis kemur fram að ráðuneytið sé hlynt opinni samkeppni um hönnun og nefnir nýafstaðna samkeppni um hjúkrunarheimili á Eskifirði með 20 hjúkrunarrýmum. Aðkoma ráðuneytisins að undirbúningi hjúkrunarheimila í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Akureyri og Reykjanesbæ er með öðrum hætti. Þar hafa viðkomandi sveitafélög tekið að sér byggingu húsnæðisins, sem skal hannað skv. leiðbeiningum í ritinu “Skipulag hjúkrunarheimila” frá 2008. Hvert sveitafélag ber ábyrgð á verkframkvæmdum og Framkvæmdasýsla ríkisins mun fylgjast með gæðum og að viðmiðum við hönnun sé fylgt eftir. Einungis Mosfellsbær hefur svarað bréfi Arkitektafélagisns. Í svari Mosfellsbæjar kemur fram að bæjarfélagið hafi í þrígang beitt opnu samkeppnisferli við val á tillögu og arkitekt á síðustu tveimur árum.  Ekki var unnt að beita þeirri aðferð við val á arkitekt til hjúkrunarheimilisins. Rökin voru að samkeppnisferlið tæki of langan tíma, þar sem hjúkrunarheimilið skyldi rísa á skömmum tíma, fjármögnun verkefnisins væri ekki vísitölutryggð og tengja ætti hjúkrunarheimili við mannvirki sem standa fyrir. Allir þættir verksins að undanskilinni arkitektahönnun verða boðnir út og stendur nú yfir útboð á verkfræðihönnun.

Hafnarfjarðarbær hefur farið þá leið að setja hjúkrunarheimilið í einkaframkvæmdarútboð, rekstur, bygging og hönnun húsnæðisins er boðin út samtímis og verður því þetta allt í höndum sama aðila.

Dómsmálaráðuneytið vinnur að frumathugun vegna byggingu skammtímavistunar- og gæsluvarðhaldsfangelsis. Í lok september verður boðin út bygging og leiga á nýju fangelsi.

Af þeim svörum sem borist hafa við bréfi AÍ má draga þá ályktun að það sé ekki mikið kappsmál að hálfu framkvæmdavaldsins að fara að lögum um opinber innkaup við kaup á þjónustu arkitekta, hvað þá að fylgja Mannvirkjastefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist.

Ríkiskaup auglýsir nú rammasamningsútboð á aðkeyptri þjónustu sérfræðinga í umhverfis-, skipulags- og byggingarmálum. Arkitektar eru meðal þeirra sérfræðinga sem koma til greina. “Ekki er ljóst hvaða magn verður keypt á grundvelli útboðs þessa, þar sem rammasamningar eru gerðir um tiltekna vöru- eða þjónustuflokka í tiltekinn tíma, án þess að magntölur séu þekktar.” (Ríkiskaup útboð í auglýsingu 14794). Innan rammasamningskerfisins er möguleiki á örútboðum, það eru útboð þar sem aðeins rammasamningshafar geta tekið þátt og meira frjálsræði ríkir um útboðstíma og fleiri atriði. Ekkert þak er á hámarskfjárhæð verkefna sem fara í örútboð. Með örútboði leggur Ríkiskaup til leið þar sem áskrifendur rammasamningskerfis Ríkiskaupa þurfa ekki að framfylgja öllum ákvæðum laga um opinber innkaup við kaup á þjónustu yfir lágmarksviðmiðunarfjárhæð. Ekkert í rammasamningsútboðsgögnum gefur til kynna að gagnsæi verði aukið við úthlutun verkefna á vegum opinberra aðila. Það er áhyggjuefni á hvaða grundvelli áskrifendur að rammasamningskerfi Ríkiskaupa munu velja sér ráðgjafa. Rammasamningskerfið treystir rekstrargrundvöll Ríkiskaupa þar sem rammasamningshafar skulu greiða Ríkiskaupum 1% þóknun af allri vinnu sem þeir vinna fyrir áskrifendur rammasamningskerfisins auk þess sem tæplega þúsund áskrifendur greiða áskriftargjald til Ríkiskaupa.

Það er umhugsunarvert að opinberir aðilar virðast hafa einbeittan vilja til að sniðganga og fara í kringum lög við kaup á þjónustu arkitekta. Það er lítil viðleitni til að gera kröfur um gæði hvað þá að stuðla að framþróun og nýsköpun. Þannig bendir fátt til þess að breyting sé á þeirri venju sem skapast hefur og að stjórnsýslan færist til betri vegar hvað varðar gegnsæi og fagleg vinnubrögð.

Við hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 gafst einstakt tækifæri til að meta og endurskoða  ríkjandi viðhorf og gildismat. Hrunið hefur haft víðtæk áhrif um allt samfélagið og ekki síst á störf arkitekta. Nú er gerð krafa um fagleg og yfirveguð vinnubröð, sem byggja á gildum, fylgja stefnu og fara að lögum og reglum.

Sigríður Magnúsdóttir