Á vorönn 2018 er boðið upp á fjölmörg fjölbreytt námskeið í Opna listaháskólanum og er skráning nú þegar hafin. Í gegnum Opna listaháskólann geta áhugasöm sótt námskeið sem kennd eru í deildum Listaháskóla Íslands. Hægt er að taka námskeiðin bæði með og án ECTS eininga. Listkennsludeild LHÍ býður upp á 16 námskeið á vorönn, tilvalin fyrir þau sem vilja sækja sér símenntun. Sérstök athygli er vakin á þeirri nýbreytni sem samstarf við Símenntun Háskólans á Akureyri er en á vorönn verða tvö námskeið, Aðferðir tónlistar í kennslu og Leikstjórn með ungu fólki, haldin á Akureyri. Skráningargjald er 5.000.- og gengur upp í námskeiðagjöld sem greiða má í byrjun nýs árs.